Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Öll skráð tilfelli T137 og ARR-arfgerða.
Öll skráð tilfelli T137 og ARR-arfgerða.
Mynd / Karólína í Hvammshlíð
Fréttir 16. maí 2022

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni

Höfundur: smh

Arfgerðar­greiningar á príon­próteini (PrP) kinda eru nú í fullum gangi. Að sögn Eyþórs Einarssonar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) miða rannsóknirnar að því að leita að verndandi arfgerðum og gera átak í ræktun fyrir þolnari stofnum gegn riðuveiki.

Annars vegar er í gangi átaksverkefni RML þar sem bændur hafa komið inn af miklum krafti við að kortleggja sínar hjarðir. Síðan er það hluti af hinum sameiginlegu rannsóknarverkefnum RML, Keldna og Karólínu í Hvammshlíð að rekja ákveðna þræði og leita á nýjum stöðum eftir því sem vísbendingar berast af fágætum arfgerðum. Í lok síðustu viku bættust þrjár hjarðir við, þar sem T137 arfgerðina er að finna – en vonir eru bundnar við að sá breytileiki veiti vernd.

Áður hefur T137 arfgerðin fundist á bæjunum Sveinsstöðum í Þingi, Straumi í Hróarstungu, auk Syðri-Haga og Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Nú liggja því fyrir í heildina upplýsingar um 29 lifandi gripi í sjö hjörðum sem bera T137 arfgerðina.

T137-kindur á Botnum (B), Engihlíð (E), Litla-Árskógi (L) og Syðri-Haga (S).

Eyþór segir að engar breytingar séu hins vegar varðandi stöðu ARR, hinnar alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð – hún hafi aðeins fundist á Þernunesi við Reyðarfjörð.

Engihlíð og Litli-Árskógur

„Í kjölfar þess að T137 fannst á Stóru-Hámundarstöðum og síðar á Syðri-Haga, var fókusinn meðal annars settur á bæi þar í kring þar sem væri að finna gamla stofna sem ekki hafa verið skornir niður vegna riðuveiki. Þessi leit hefur skilað því að nú hafa fundist þrjár ær á bænum Engihlíð og ein kind á bænum Litla-Árskógi með þessa spennandi arfgerð. Báðir þessir bæir eru á Árskógsströndinni og standa þeir á milli Stóru-Hámundarstaða og Syðri-Haga.

Á báðum þessum búum er um að ræða mjög litlar hjarðir en óslitinn sauðfjárbúskapur hefur þar verið frá mæðuveikiniðurskurði. Endurnýjun fjár á þessu svæði vegna mæðuveiki sem var í kringum 1950, er talin hafa verið með fé úr Suður-Þingeyjarsýslu. Riðuveiki var vandamál á þessu svæði á árum áður og stutt er yfir í Svarfaðardalinn þar sem eitt illvígasta riðusvæði landsins er að finna. Sé þessi T137 arfgerð að virka fyrir íslenskt fé þá er það ef til vill ekki tilviljun að hún hafi framræktast á Árskógsströndinni,“ útskýrir Eyþór.

Botnar í Meðallandi

Sjöunda búið þar sem þegar hafa fundist kindur með T137 arfgerðina er á bænum Botnum í Meðallandi í Vestur-Skafta­fells­sýslu. Eyþór segir að þetta sé einmitt búið sem komst í fréttirnar fyrr á árinu vegna þess að hrossin þar á bæ hafa ræktast sem einangraður stofn í marga áratugi. Nú séu þessi hross til rannsóknar, auk þess sem áhugi vaknaði að skoða einnig sauðféð á búinu.

„Þar er líka um að ræða fremur lokaðan stofn þó að með einhverjum undantekningum hafi komið þar aðkomuhrútar úr nágrenninu. Á búinu eru í kringum 30 kollóttar kindur, allar hreinhvítar. Upphaflega voru tekin 15 sýni á bænum og fundust þá þrír gripir með T137, einn hrútur og tvær ær. Hrúturinn er þá fyrsti kollótti hrúturinn sem finnst með arfgerðina. Fljótlega koma niðurstöður fyrir restina af þessari hjörð.“

Líklega nokkuð útbreidd áður fyrr

Eyþór telur að T137 arfgerðin hafi verið nokkuð útbreidd áður fyrr, miðað við þær niðurstöður sem þegar liggja fyrir. „Hún finnst allavega á nokkrum stöðum á landinu í dag og yfirleitt er lítil tenging eða engin á milli þessara gripa á milli hjarða. Arfgerðin hefur fundist í kollóttum, hyrndum og ferhyrndum einstaklingum og jafnframt eiga flestir litir fulltrúa í hópnum.

Trúlega hefur arfgerðin verið býsna útbreidd í Tröllaskagahólfinu þar sem nú finnst hún í gömlum stofnum á Árskógsströndinni en í rannsókn Tilraunastöðvarinnar á Keldum fyrir rúmum 20 árum síðan fannst hún einnig í þessu hólfi, þá í kindum á Hesjuvöllum við Akureyri og Enni í Unadal í Skagafirði. Í eldri rannsókninni var T137 einnig að finna á Núpsstað í V-Skaftafellssýslu, sem er ekki mjög langt frá Botnum, og má því ætla að arfgerðin hafi verið víðar á þessu svæði. Þá fannst hún einnig á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi og Neðra-Vatnshorni í Línakradal en báðar hjarðir voru skornar niður í kjölfar riðuveiki.“

Á meðfylgjandi korti, sem Karólína Elísabetardóttir hefur unnið eftir heimildum frá Stefaníu Þorgeirsdóttur á Keldum, má sjá staðsetningu allra bæja þar sem T137 arfgerðin hefur fundist bæði í núverandi verkefnum og í eldri verkefnum frá Keldum. Eyþór segir að enn sé lítið búið að greina af sýnum sem tekin hafa verið á Suðurlandi og Vesturlandi en í næstu niðurstöðum sem berist komi inn svolítið af búum af suður- og suðausturhluta landsins sem verði spennandi að sjá.

„Í samanburðarrannsókninni, sem rannsóknarhópurinn og dr. Gesine Lühken prófessor eru að koma af stað, verða skoðuð DNA bæði úr „gömlum“ og nýfundnum T137-kindum ásamt T137-einstaklingum frá Grænlandi. Þá mun koma í ljós hvort einhver tengsl á milli þeirra eru greinanleg,“ segir Eyþór.

Tilvalið að skoða álitleg hrútsefni

Í átaksverkefni RML, sem er hið umfangsmesta sinnar tegundar sem ráðist hefur verið í, er nú búið að greina um 8.500 sýni úr tæplega 140 hjörðum, að sögn Eyþórs. Hann segir að á næstu dögum sé síðan von á um 2.100 niðurstöðum úr sýnum sem send voru til greiningar 16. og 17. mars.

„Þegar sá pakki verður kominn bíða rúmlega 8.000 sýni greiningar sem þegar hafa skilað sér til baka frá bændum og um 7.000 hylki eru hjá bændum, væntanlega hluti af því sem enn er ótekið. Þegar allt verður komið til baka verður búið að greina um 26.000 sýni í gegnum átaksverkefnið auk um 4.000 sýna í gegnum rannsóknarverkefni RML, Keldna og Karólínu.

Aðeins hefur verið um það að menn taki sýni úr lömbum nú í vor, en tilvalið er að skoða álitleg hrútsefni strax þannig að niðurstaða liggi örugglega fyrir við ásetningsvalið næsta haust,“ segir Eyþór að lokum. 

Leyfir ekki sandnám
Fréttir 18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Fyrirtækið LavaConcept Iceland hefur sótt um framkvæmdaleyfi hjá Mýrdalshreppi v...

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum
Fréttir 18. september 2024

Nýtt rannsóknarverkefni í byggkynbótum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er nú að hefjast nýtt rannsóknarverkefni í byggky...

Helsingjar valda usla
Fréttir 18. september 2024

Helsingjar valda usla

Umhverfisstofnun vill takmarka veiðar á helsingja en bóndi á austanverðu Suðurla...

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...