Anna ekki eftirspurn eftir lífrænt vottuðu lambakjöti
Sauðfjárbændurnir í Sölvanesi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði liggja nú undir feldi fyrir sláturtíð, enda nokkur vandi á höndum eftir að sláturhús þeirra á Blönduósi hætti störfum.
Þau Eydís Magnúsdóttir og Rúnar Máni Gunnarsson eru nefnilega einu bændurnir sem eftir eru í landinu sem framleiða lífrænt vottað kindakjöt. Sölvanesbændur fengu vottunina árið 2022 en sama ár ákvað sláturhús SAH afurða á Blönduósi að hætta með sína lífrænu vottun fyrir húsið. Þau ákváðu þá að greiða sjálf fyrir úttektina í sláturhúsinu sem Vottunarstofan Tún gerði svo fyrir hverja sláturtíð. Á Blönduósi fengu þau fullnægjandi þjónustu. Eitt mikilvægt atriði var að þeim var leyft að láta kjötskrokkana hanga lengur eftir slátrun í kæli en gerist og gengur – eða fjóra til fimm sólarhringa – sem gefur þeim meyrara kjöt.
Fyrir nokkrum árum voru fleiri sauðfjárbændur með slíka vottun. En þegar undanþága sem heimilaði grindargólf í fjárhúsum féll úr gildi fyrir lífrænt vottaða sauðfjárrækt á Íslandi, gáfu þeir vottunina frá sér.
Stór kæligámur við bæinn
Valið nú stendur á milli þess að fara með sláturféð á Sauðárkrók, Hvammstanga eða alla leið í Borgarnes, en þar er Sláturhús Vesturlands – eina lífrænt vottaða sláturhúsið í landinu. Síðastnefndi valmöguleikinn væri jafnframt sá kostnaðarsamasti, enda þyrftu þau sjálf að sjá um alla flutninga á gripum og skrokkum fram og til baka.
Þau telja að líklega muni þau falast eftir þjónustu Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Sauðárkróki, en búast ekki við heimild til að láta kjötskrokka sína hanga lengur en almennt tíðkast – þar sem tími og pláss sé af skornum skammti. Þau hafa því komið sér upp stórum kæligámi við bæinn þar sem þau hyggjast láta sína skrokka hanga – og verður ef til vill fyrsta skrefið í því að koma sér sjálf upp litlu sláturhúsi og kjötvinnslu á bænum.
Búin að kaupa kæli- og frystigáma
Að ráðast í slíka fjárfestingu er þó ekki sjálfsagður hlutur og skoða þarf ýmsar hliðar á málunum áður en ákvörðun um slíkt er tekin. „Auðvitað væri það mjög gott ef það gengi upp að ráðast í slíkt verkefni, ef stuðningur fengist við það. En við hefðum gjarnan bara vilja hafa þetta óbreytt, enda fengum við frábæra þjónustu á Blönduósi,“ segir Eydís.
Rúnar bætir við að ef þau myndu ákveða að fara þá leið að koma sér upp sláturaðstöðu þá fæli það um leið í sér mun meiri vinnu en um leið bæru þau meira úr býtum. „Við höfum auðvitað alveg nóg að gera, þannig að þetta er ekki auðveld ákvörðun. Við erum í það minnsta búin að kaupa kæli- og frystigáma af SAH afurðum þannig að það er ljóst að við munum prófa þetta fyrirkomulag eitthvað hér heima á bænum í haust, en við eigum reyndar eftir að fá samþykki Matvælastofnunar fyrir því að gera þetta,“ segir hann.
„Þetta eru í raun tvö aðskilin vandamál; annað er vottunin sjálf fyrir ferlið í sláturhúsinu og svo er hitt nauðsyn þess að láta kjötið hanga nægilega lengi – en við höfum fengið synjun á það frá KS. Varðandi fyrra atriðið höfum við horft til aðgerðaáætlunarinnar sem gefin var út fyrir ári síðan í matvælaráðuneytinu um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi. En í einni aðgerðinni er einmitt gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við afurðastöðvar, í því skyni að mæta kostnaði vegna lífrænnar vottunar. Það hefur hins vegar ekkert gerst í þeim málum,“ segir Eydís.
Aðbúnaðarkröfur hamla fjölgun
Sölvanesbændur eru þó hins vegar í þeirri eftirsóknarverðu stöðu búvöruframleiðenda, að allt sem þau framleiða ná þau að selja og fá gott afurðaverð fyrir. Vandinn sem fylgir þeirri vegsemd er þó sá að ekki er rými til að fjölga í fjárhúsunum, en þau eru með um 200 fjár á vetrarfóðrum sem gefur af sér um fjögur til fimm tonn af kjöti.
Aðbúnaðarkröfurnar sem fylgja lífrænni vottun gera ráð fyrir einum og hálfum fermetra á hverja kind, en 0,9 fermetra á kind í hefðbundnum sauðfjárbúskap. Eina leiðin væri því að ráðast í stækkun, með tilheyrandi kostnaði.
„Við seljum allt og eigum nánast ekkert eftir af kjöti á þessum árstíma nema ofan í fólkið sem hjálpar okkur í smalamennsku. En við erum auðvitað mjög þakklát fyrir viðbrögðin sem við fáum við vörunum okkar,“ segir Rúnar, en þau selja talsvert í gegnum vefverslun; Matland hefur selt vörur frá þeim og Matarbúðin Nándin í Hafnarfirði. Þau reka ferðaþjónustu samhliða búrekstrinum.
Margfalt hærra afurðaverð
Eydís á rætur í Sölvanesi og það var hún sem fékk áhuga á lífrænni ræktun – tengdi strax við hugmyndafræðina. „Eftir því sem maður lærði meira um umhverfismálin því sannfærðari var maður um að þetta væri rétt nálgun í landbúnaði,“ segir hún.
Rúnar hins vegar var mikið í sveit á kúabúi í Dölunum og alltaf tengdur landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Þegar þau fóru að búa saman í Sölvanesi árið 2014 þurfti Eydís ekki að sannfæra Rúnar lengi um að fara leið lífrænnar ræktunar og hófu þau aðlögun á árinu 2019. „Hugmyndafræðin er líka bara einföld og tær; stundaðu bara búskap eins og hann var stundaður í gamla daga,“ segir hann. „Svo hafa orðið ýmsar framfarir í bútækni og fræðunum sem hjálpa til við að auka afurðirnar,“ bætir Eydís við.
Þau telja að til að auka veg lífrænnar ræktunar þurfi að minnka kostnað sem fylgir vottuninni. Vottunarkostnaður er mjög hár fyrir lítil fyrirtæki. En einnig þurfi að benda á viðskiptatækifærin sem augljóslega séu fyrir hendi. Með heimavinnslu og -sölu – og lífrænni vottun – geti bændur tryggt sér margfalt hærra afurðaverð en standi til boða hjá kjötafurðastöðvunum. Neytendur sem velja þessar vörur séu kröfuharðir en tryggir, sem sé mikið verðmæti í.
