Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kort af svæðinu sem úttekt Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur náði til. Rauðu punktarnir merkja að ekkert samband náðist.
Kort af svæðinu sem úttekt Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur náði til. Rauðu punktarnir merkja að ekkert samband náðist.
Fréttir 15. febrúar 2022

Algjört sambandsleysi á fjölmörgum stöðum og ekki hægt að kalla eftir neyðaraðstoð

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þrátt fyrir að ljósleiðaravæðing á Íslandi hafi gengið mjög vel á undanförnum árum skortir enn mikið á að farsímasamband geti talist viðunandi á fjöl­mörgum stöðum á landinu. Jóhanna María Sigmundsdóttir, íbúi í Dalabyggð og fyrr­verandi alþingis­­maður, gerði könn­un á stöð­unni í Dalabyggð nýverið og kom í ljós að ástandið er graf­alvar­legt með tilliti til öryggis íbúa og þeirra sem leið eiga um það svæði.

Fjarskipti á Íslandi og dreifikerfi símafyrirtækjanna hafa verið mjög í sviðsljósinu að undanförnu, sér í lagi eftir að Síminn seldi franska sjóðstýringarfyrirtækinu Ardian fjarskiptafyrirtæki sitt Mílu í október 2021. Hefur það vakið spurningar á borð við skyldur slíkra fyrirtækja að sinna fjarskiptum á dreifbýlum stöðum. Hafa verið uppi varnaðarorð um að hagsmunir erlendra fjárfesta fari alls ekki alltaf saman við hagsmuni fárra sem búa eða eiga leið um mjög dreifbýl svæði á Íslandi. Útvistun út fyrir íslenska lögsögu torveldi einnig eftirlit Fjarskiptastofu. Þá hefur verið bent á að þetta varði þjóðaröryggi, en eigi að síður samþykkti meirihluti alþingismanna lagabreytingu sem gerði söluna á dreifikerfi Mílu mögulega.

GSM dreifikerfi Símans eins og það er sýnt á heimasíðu fyrirtækisins.

Jafnvel í Búðardal er staðan ekki góð

Jóhanna María segir að í sinni athugun hafi hún aðeins verið að skoða stöðuna í Dalabyggð sem er lítið brot af landinu öllu. Athygli vekur að á korti þar sem hún merkti inn mismunandi styrkleika farsíma­sambandsins kemur fram að meira að segja í þorpinu í Búðardal hafa íbúar upplifað slitrótt samband og jafnvel dauða punkta þar sem ekki náðist samband með farsíma.

„Ég get alveg ímyndað mér að landakort með úttekt af landinu öllu geti verið ansi skrautlegt,“ sagði Jóhanna í samtali við Bændablaðið. Í athugun hennar kom í ljós að stóru fjarskiptafyrirtækin hafa lítinn sem engan áhuga á að sinna fólki eða svæðum þar sem íbúar eru fáir.“

Bændablaðið sendi innviðaráðu­neytinu fyrirspurn um málið, en svar hafði ekki borist þegar blaðið fór í prentun.

GSM dreifikerfi Vodafone eins og það er sýnt á heimasíðu fyrirtækisins.

Spurði íbúa í Dalabyggð um stöðu farsímasambands

„Á dögunum spurði ég íbúa í Dalabyggð um staði í sveitarfélaginu þar sem farsímasamband væri lélegt eða ekkert. Fjöldi þeirra kom virkilega á óvart og þegar búið var að setja þessa punkta inn á kort af sveitarfélaginu var dreifing þeirra mjög víða. Ofan á þær merkingar bætti ég við punktum hvar mælingar Póst- og fjarskiptastofnunar frá árunum 2015-2017 sýndu að GSM, 3G og 4G gæti rofnað eða væri slæmt/ekkert og að lokum hvar Tetra samband væri lélegt eða ekkert. Fjöldi merkinga á kortinu var sláandi (sjá mynd).“

Jóhanna segir að upphafið að þessari athugun hennar hafi verið vegna senda sem treysta á varaafl. Eftir ítrekað rafmagnsleysi á svæðinu í byrjun árs hafi farsímasambandið dottið út.

„Maður er auðvitað ekkert sáttur við slíka stöðu. Ég fékk m.a. ábendingar um sjúkraflutninga sem þurfa að treysta bæði á samband um farsíma og Tetrakerfið.“
Hún segir sambandsleysi í farsímakerfinu ekki síst alvarlegt með tilliti til ferðamanna. Dalirnir séu t.d. hluti af Vestfjarðaleiðinni þar sem búist er við stórauknum straumi ferðamanna. Í samtali sínu við íbúa hafi komið í ljós að sambandslausir ferðamenn hafi oft bankað upp á eftir að hafa lent í vandræðum og þá búnir að ganga langar leiðir.
Jóhanna María sagðist líka hafa spurt íbúa hvort staðan sé mismunandi eftir farsíma­fyrirtækjum. Margir hafi skipt ítrekað um þjónustuaðila vegna slæmrar stöðu, en fyndu engan mun.

Staðir með lélegt eða ekkert samband líklega mun fleiri

„Þarna var aðeins verið að skoða svæði á vegum, heimreiðum, bæjarhlöðum og sumarhúsum. Ekki voru teknir með þeir staðir sem missa farsímasamband þegar rafmagn fer af og slá því út vegna þess að varaafl senda er ónýtt eða lélegt. Ekki eru heldur tekin með þau svæði utan byggðar/vegkafla sem eru með lélegt eða ekkert samband en eru nýtt, s.s. af bændum, útivistarfólki og ferðamönnum. Þá var óskað eftir upplýsingum frá íbúum í gegnum samfélagsmiðla, því má reikna með að staðir þar sem samband er lélegt eða ekkert séu mun fleiri.“

Íbúum sagt að það taki því ekki að bæta úr vegna fámennis

„Ábendingunum fylgdu skammar­lega margar sögur af því að íbúar hefðu kallað eftir úrbótum á sambandi en fengið þau svör að ekki taki því að gera við senda, efla þá eða bæta við vegna þess að fjöldi íbúa, eða frekar fámenni á svæðinu gefi ekki tilefni til úrbóta á lélegu farsímasambandi. Íbúar hafa reynt að skipta um þjónustuaðila, sumir eru á 3. eða 4. þjónustuaðila án þess að finna mun til hins betra.“

Oft ekki hægt að ná í atvinnurekendur vegna sambandsleysis

„Í Dalabyggð býr meirihluti íbúa í dreifbýli og hefur íbúum í Dalabyggð fjölgað frá 1. janúar 2021 og einmitt að meirihluta utan þéttbýlis. Þetta þýðir að í dreifbýli sveitarfélagsins búa barnafjölskyldur og þar eru rekin fyrirtæki. Aðilar í atvinnurekstri kvarta undan því að ná ekki farsímasambandi heima fyrir og verða því stundum af verkum, pöntunum og upplýsingum.“

Bilanatilkynningar skila sér ekki til íbúa

„Sambandið hefur einnig áhrif á að tæknibúnaður sem sendir villu- og bilanatilkynningar í farsíma nær ekki í gegn. Íbúar komast ekki inn á þjónustusíður með rafrænum skilríkjum því innskráning rennur út áður en aðgerðin nær í gegn.“

Fólk í vanda nær ekki sambandi og mjaltaþjónar á kúabúum oft ekki heldur

„Svo ekki sé minnst á slys á fólki og vandræði tengd föstum/biluðum bílum á fáförnum vegum, í vondum veðrum og á fjallvegum sem fyrir algjöra heppni enduðu ekki verr, eða hefðu getað endað betur ef samband hefði verið til staðar.

Þessar aðstæður hafa meðal annars þau áhrif að bændur með mjaltaróbót þurfa að standa yfir búnaðinum í rafmagnsleysi, því þó varaafl knýi búnaðinn koma ekki tilkynningar í síma um bilanir. Ég gæti nefnt ýmis fleiri dæmi um hvaða áhrif þetta hefur á íbúa,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir. 

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.