Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Áhugi ungs fólks á starfsframa í landbúnaði og matvælaframleiðslu aukinn
Fréttir 18. ágúst 2025

Áhugi ungs fólks á starfsframa í landbúnaði og matvælaframleiðslu aukinn

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Torfi Jóhannesson frá bænum Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu vinnur nú norrænt verkefni með kollegum sínum og hefur verið gefin út  yfirgripsmikil skýrsla um efnið en skýrslan gengur meðal annars út á það að svara spurningunni: Hvernig getum við aukið áhuga ungs fólks á starfsframa í landbúnaði og matvælaframleiðslu?

Torfi Jóhannesson.

„Fækkun búa, veiking byggða, breytt aldurssamsetning íbúa, lokun skóla og lágt þjónustustig: Þetta er sameiginlegt stef á öllum Norðurlöndunum, og miklu víðar. Það er freistandi að segja að við þurfum bara að auka styrki til valdra framleiðslugreina, en vandinn ristir dýpra en svo að „meira af því sama“ breyti einhverju,“ segir Torfi.

Höfundar skýrslunnar auk Torfa eru Karen Refsgaard, Maija  Kāle  og  Jonas  Kačku s Tybjerg. Titill skýrslunnar er „Growing food(ies)” en hana má nálgast HÉR.

„Það var farið af stað með verkefnið vegna þess að á öllum Norðurlöndunum sjáum við að ungt fólk hefur áhuga á að starfa við matvælaframleiðslu en tækifærin eru ekki alltaf til staðar. Á sama tíma eru sveitirnar að tæmast af fólki,“ segir Torfi.

Byggingar og vélar drappast niður

„Við sjáum að alls staðar á Norðurlöndunum eiga minni bú erfitt með að skapa eigendum sínum viðunandi tekjur, nema til komi umtalsverður ríkisstuðningur. Í mörgum tilvikum geta þessi bú ekki aukið framleiðsluna vegna takmarkaðra landkosta. Reksturinn getur gengið meðan búið er skuldlaust en búin standa ekki undir fjárfestingum og þess vegna drabbast bæði byggingar og vélar niður og kynslóðaskipti verða erfið,“ segir Torfi og bætir strax við: „Og ef ungt fólk dreymir um að auka tekjurnar með því að framleiða bjór, þörunga, rafmagn eða osta þá lendir það utan við stuðningskerfi landbúnaðarins. Þannig lendum við í ákveðinni blindgötu sem erfitt er að komast úr.“

Dreifbýlið á undir högg að sækja

En er einhver töfralausn til að mati Torfa?

„Nei, það er engin töfralausn á þessari stöðu en það er margt sem við getum gert sem getur haft áhrif. Dreifbýlið á undir högg að sækja alls staðar. Við sjáum samdrátt í þjónustu á borð við heilsugæslu á sama tíma og breytt aldurssamsetning kallar á aukna heilbrigðisþjónustu. Sveitarfélögin glíma einnig við fækkun barna sem leiðir til að loka þarf skólum og leikskólum. Margs konar önnur þjónusta hefur einnig breyst mikið, ekki síst bankageirinn,“ segir Torfi.

Hvert svæði þarf að finna sinn takt

Það er skoðun Torfa að ef við ætlum að viðhalda lifandi landsbyggð þá þurfi að koma til sérstakar svæðisbundnar áætlanir með umtalsverðum fjármunum. „Já, hvert svæði þarf að finna sinn takt. Við verðum að hætta að horfa á viðhald einstakra atvinnugreina sem markmið í sjálfu sér en reyna í staðinn að móta framtíðarsýn fyrir samfélög. Það er enginn vafi að bæði strandveiðar og sauðfjárrækt eru mikilvægar mörgum dreifbýlissamfélögum en við þurfum að líta á þær sem hluta af lausninni en ekki sem vandamálið sem þarf að leysa,“ segir hann.

Hættumerki í íslenskum landbúnaði

Ef við snúum okkur til Íslands, hvernig metur Torfi þá stöðuna hvað varðar landbúnaðinn?

„Landbúnaður á Íslandi stendur að mörgu leyti vel en það má líka greina ákveðin hættumerki. Ríkisstuðningur til bæði mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar er mjög hár, en á sama tíma er alþjóðleg samkeppnisstaða þessara greina veik. Sama má segja um svínaog alifuglarækt nema þar er ekki um að ræða ríkisstuðning heldur innflutningstolla sem skapa vernd gegn alþjóðlegri samkeppni. Afnám mjólkurkvóta í Evrópu fyrir 10 árum síðan hefur leitt til mikillar samþjöppunar bæði í framleiðslu og vinnslu og við sjáum sömu þróun í svínum og alifuglum. Það er hætta á að það haldi áfram að draga sundur með okkur og öðrum löndum og það þýðir að ríkið mun þurfa að brúa sífellt stærra gap. Við þannig aðstæður fer öll orkan í varnarbaráttu og við náum ekki að fjárfesta í þeim framtíðartækifærum sem vissulega eru til staðar,“ segir Torfi.

Hvetur til bjartsýni

Þegar Torfi er spurður hvort hann vilji koma einhverju sérstöku á framfæri í lokin er hann fljótur til svars. „Já, ég vil bara hvetja til bjartsýni á framtíðina. Við lifum á ótrúlega spennandi tímum með ótal tækifærum í dreifbýli tengdum ferðaþjónustu, orkuframleiðslu, skógrækt, náttúruvernd, fjarvinnu, kornrækt, matvælavinnslu og fjölda mörgum öðrum möguleikum. Þess vegna er svo mikilvægt að skapa grundvöll fyrir fleira ungt fólk að setjast að í dreifbýli og aðstoða frumkvöðla við að nýta þessi tækifæri,“ segir Torfi Jóhannesson

Skylt efni: Norrænt samstarf

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...