Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þær fúlsuðu ekki við fóðurbætinum hjá Kristjáni Franklín Sindrasyni, kindurnar í Bakkakoti.
Þær fúlsuðu ekki við fóðurbætinum hjá Kristjáni Franklín Sindrasyni, kindurnar í Bakkakoti.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 27. apríl 2016

Áhrif heygæða á afurðir og heilsufar sauðfjár

Höfundur: Jóhannes Sveinbjörnsson
Í fyrri greinum í þessum greinaflokki (grein 1: Bændablaðið, 25.  febrúar 2016, bls. 52 og grein 2: Bændablaðið, 10. mars 2016, bls. 48) var því haldið fram að þegar jarðrækt og fóðuröflun er eins og best verður á kosið geti heimaaflað gróffóður og beit farið mjög langt með að uppfylla allar fóðurþarfir á íslenskum sauðfjárbúum.
 
Þetta fer að verða jafn margtuggið og jórtrið hjá blessuðum kindunum en það verður að hafa það. Fyrirvararnir í þessari staðhæfingu eru jafn mikilvægir og inntak hennar að öðru leyti. Því lengra frá æskilegum gæðum sem gróffóðrið víkur því meiri þörf verður á fóðurbætisgjöf af einhverju tagi. 
 
Viðhorf til fóðurbætisgjafar
 
Víst er það inngróið í okkur íslenska sauðfjárbændur að treysta sem allra mest á gróffóður og beit. Um það vitna máltæki eins og: „Búskapur er heyskapur“ sem haft er eftir Jónasi Péturssyni tilraunastjóra á Skriðuklaustri. Fyrir trausti því sem er sett á grasið á ýmsu formi eru veigamikil hagfræðileg rök, líka í nútímanum. Í grein 2 í þessum greinaflokki var einmitt aðeins komið inn á hagkvæmni þess að búa til hold með gróffóðri og beit til að nýta á álagstímum, upp að vissu marki.
 
Vel fram á síðustu öld var treyst mun meira á beitina en heyskapinn. En áður en tæknivæðingin hafði að fullu hafið innreið sína og gjörbreytt til hins betra forsendum jarðræktar og fóðuröflunar, höfðu menn áttað sig á þeim möguleikum sem fólust í smáum skömmtum af fóðurbæti. Fyrir ríflegum mannsaldri síðan voru birtar gagnmerkar niðurstöður tilrauna með fóðrun á síldarmjöli o.fl. Þórir Guðmundsson (1930, bls. 13) dró meðal annars þessa ályktun af þeim tilraunum: „Það er ekki hægt að fóðra ær, svo viðunandi sé, með léttri beit og léttu útheyi.“ Í þessum og mörgum síðari tilraunum sannaði síldarmjöl og annað fiskimjöl gildi sitt sem fóðurbætir með lélegum heyjum og úthagabeit. Kolvetnafóður (maís, bygg o.fl.) var einnig notað með góðum árangri, svo og lýsi og fiskúrgangur af ýmsu tagi.
 
Smám saman batnaði heyskapar- og jarðræktartæknin en áfram var hófleg fóðurbætisgjöf talin nytsamleg til að tryggja góðar afurðir og heilsufar. Eftir tilkomu rúllutækninnar fyrir um aldarfjórðungi náðu bændur enn betri og jafnari tökum á verkun og sláttutíma en áður, og þar sem bestur árangur næst í þeim efnum, beitarmálum og annarri hirðu fjárins má sjá ótrúlegar afurðir jafnvel án notkunar annars fóðurbætis en saltsteina. Hafandi þessi góðu dæmi fyrir augunum hafa bændur dregið verulega úr fóðurbætisnotkun. Ákvarðanir um fóðurbætisgjöf þarf þó ævinlega að taka með hliðjón af innihaldi gróffóðurs, ástandi fjárins og ekki síst þeirri afurðakröfu sem gerð er. 
 
Þegar framangreindar tilraunir Þóris Guðmundssonar voru gerðar, var magn og gæði vetrarfóðurs vissulega slakt miðað við það sem við höfum átt að venjast undanfarna áratugi, en afurðakrafan var líka mun minni en í dag. Eitt lamb eftir hverja fullorðna á þótti þá ásættanleg niðurstaða en í dag er gjarnan stefnt að því sem næst einu lambi til nytja eftir hverja lambgimbur og tveimur eftir hverja fullorðna á.
 
Hversu nauðsynlegt er að fóðrun sé nákvæmlega í samræmi við fóðurþarfir á hverjum tíma?
 
Það er misnauðsynlegt eftir fóðurefnum. Sum þeirra getur kindin flutt með sér milli tímabila, safnað birgðum þegar fóðrið gefur meira en notað er, og nýtt á þeim tímabilum þegar jafnvægi fóðrunar og þarfa er neikvætt. Þetta á einmitt við um fóðurorkuna, geymda á formi fitu eins og fjallað var um í grein 2 en einnig sum steinefni og vítamín. 
 
Próteinið þarf að koma úr fóðrinu
 
Mjög takmarkaðir möguleikar eru á að safna upp próteini á skrokknum þegar ofgnótt af því er í fóðri og nýta þegar skortur er. Prótein er það næringarefni sem hvað mikilvægast er að fóðra á í samræmi við þarfir á hverjum tíma. Offóðrun á því er dýr og veldur óþarfa álagi á nýru og fleiri líffæri. Vanfóðrun á próteini veldur afurðatjóni og minnkaðri mótstöðu gegn ormasýkingum. Sé gróffóðrið af gæðum sem henta fóðurþörfum á hverjum tíma á það að geta tryggt uppfyllingu próteinþarfa  mestan hluta vetrar en tæplega síðustu vikur meðgöngunnar og fyrstu vikur mjólkurskeiðsins. Kjarnfóðurgjöf má nota á þessum tímabilum til að uppfylla það sem vanta kann á próteinþarfir. 
 
Vítamínin
 
Þau vítamín sem þarf einkum að huga að í fóðri sauðfjár eru A- D- og E-vítamín. Fóður úr plönturíkinu sér fyrir öllum þessum efnum í einhverjum mæli. Ferskt gras og að nokkru leyti verkað gróffóður sér fyrir β-karótíni sem breytist í A-vítamín í lifrinni og geymist þar í töluverðum mæli. Fé á beit fær nóg A-vítamín með þessum hætti sem jafnframt getur enst þeim einhvern hluta innistöðutímans. Einkenni skorts á A-vítamíni eru m.a. sjóntruflanir (náttblinda). Hjá sauðfé eru þekkt dæmi, þó fátíð, um að A-vítamínskortur geti valdið veikburða eða dauðfæddum lömbum.  En annars er A-vítamín talið hafa mikilvægum hlutverkum að gegna í vörnum gegn sýkingum  af ýmsu tagi.
 
Forstigsefni D-vítamíns virkjast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar, og til verður D-vítamín sem eru nýtanleg í framhaldi af því. Á innistöðu er þetta ferli ekki í gangi og á sumrin er þetta ferli jafnframt veðurháð. Nokkuð er af D-vítamíni í gróffóðri sem þurrkað er í sól en lítið D-vítamín er að fá úr gróffóðri sem verkað er í óþurrkum og sólarleysi. Eftir slík sumur er því nauðsynlegt að huga að viðbótarfóðrun á D-vítamíni með einum eða öðrum hætti. Skortur á D-vítamíni getur valdið doða, vegna hlutverks D-vítamíns í Ca og P- efnaskiptum. Meðal beinna áhrifa D-vítamínskorts eru beinkröm og truflun á beinvexti. Síðast en ekki síst eru sífellt að koma fram upplýsingar sem sýna neikvæð áhrif D-vítamínskorts á ónæmiskerfið. 
 
E-vítamín er í töluverðum mæli í fersku grasi, einkum ungum plöntum. Það varðveitist allvel við góða votverkun og öfluga súgþurrkun, en allt að 90% tap hefur mælst við vallþurrkun. Margar korntegundir innihalda líka töluvert af E-vítamíni, en nokkurt tap getur þar orðið við geymslu. Dýraafurðir innihalda ekki mikið magn af E-vítamíni. E-vítamín í samvinnu við snefilefnið selen (Se) gegnir mikilvægu hlutverki í ónæmiskerfinu og kemur í veg fyrir oxunarskemmdir og truflanir á starfsemi fruma, t.d. stíuskjögur í lömbum. Selen sem ærin fær úr fóðri berst fóstrinu í gegnum fylgjuna en E-vítamínið ekki að ráði, það þarf fóstrið að fá sem fyrst eftir fæðingu úr broddmjólkinni. Því er ráðlegt að huga sérstaklega fyrir viðbót af E-vítamíni í fóðri síðustu 4 vikur meðgöngunnar. E-vítamín er líka eitt besta dæmið um efni sem safnast upp í fituforða ærinnar og væri eðlilegt í náttúrunni að væri farið að losna þaðan við fituniðurbrot í lok meðgöngunnar og nýtast ærinni við uppbyggingu á E-vítamínforða í broddmjólkinni. Mjög sterk orkufóðrun áa í lok meðgöngu getur leitt til þess að þetta ferli er ekki farið af stað fyrir burðinn og reynir þá á að nóg sé af E-vítamíni í fóðrinu. E-vítamín geymist í minna mæli (og skemur) í vefjum kindarinnar heldur en A- og D-vítamín.
 
Meginsteinefnin
 
Þau meginsteinefni sem helst þarf að huga að í fóðri sauðfjár eru kalsíum (Ca), fosfór (P), magnesíum (Mg) og natríum (Na). Ca, P og Mg eru allt efni sem er safnað upp í beinvef þegar fóður inniheldur meira af þeim en skepnan nýtir. Þaðan eru þau svo tekin, með hjálp hormóna og vítamína, eftir þörfum á meðgöngu og mjólkurskeiði ef þarfirnar eru meiri en sem nemur nýtanlegu innihaldi í fóðri. Nýting þessara efna, bæði úr fóðri og beinvef, verður lakari eftir tímabil ofgnóttar, en batnar þegar framboð efnanna er takmarkað. Því er talið ráðlegt að varast sérstaklega offóðrun á steinefnum á meðgöngunni. Það tap sem gjarnan verður af steinefnum úr beinvefnum á mjólkurskeiðinu er af framangreindum orsökum skynsamlegra að bæta upp að haustinu heldur en á meðgöngunni. Fosfór í heyjum lækkar eftir því sem seinna er slegið. Styrkur Ca er lítið háður sláttutíma en nokkuð háður áburðargjöf. Almennt má reikna með að hröð spretta í hlýrri vætutíð lækki hlutfall steinefna í heyjum.
 
Snefilefni 
 
Þau snefilefni sem helst þarf að gæta að í fóðri sauðfjár eru: járn (Fe), kopar (Cu), kóbalt (Co), mangan (Mn), zink (Zn), joð (I) og selen (Se).
 
Að hve miklu leyti uppfyllir gróffóðrið þörf fyrir meginsteinefnin og snefilefnin?
 
Efnagreininganiðurstöður um íslenskt  gróffóður gefa einhverja hugmynd um stöðu einstakra stein- og snefilefna almennt. Örfá atriði skulu hér dregin fram sem vakna upp við slíka skoðun:
 
Ca, P, og Mg eru öll í lægri mörkum í gróffóðri til að treysta megi á að það sjái fyrir öllum þörfum fyrir þau efni. Tap á þessum efnum úr beinvef á mjólkurskeiði þarf að bæta upp, t.d. að haustinu, og einnig þarf með einhverjum hætti að bæta við slíkum efnum til að mæta auknum þörfum við lok meðgöngu og eftir burðinn. Frá áramótum og lengst af meðgöngunni ætti gróffóðrið að duga hvað þessi efni varðar.
 
Oftast er meira en nóg af kalíum (K) í gróffóðrinu. Og stundum of mikið, einkum í gróffóðri af túnum sem oft fá búfjáráburð og jafnvel kalí líka úr tilbúnum áburði. Of mikið kalí getur truflað upptöku á öðrum efnum. Sé gerð vönduð áburðaráætlun á þetta þó ekki að þurfa að koma upp. 
 
Hafi féð aðgang að saltsteini af einhverju tagi á ekki að vera hætta á því að skortur verði á natríum (Na).
 
Brennisteinn (S) virðist nægilegur í gróffóðrinu ef litið er á meðaltöl, en á svæðum þar sem brennisteinsskortur er þekkt vandamál er heppilegast að koma honum inn í gegnum áburðargjöf, til að tryggja að ekki verði uppskerutap af völdum brennisteinsskorts. Ef af einhverjum ástæðum er uppskorið gróffóður með óeðlilega lágt brennisteinsinnihald þarf að bæta þann skort upp í fóðrinu. Tryggasta leiðin er með torleystu próteini, t.d. í fiskimjöli.
 
Snefilefnin mangan (Mn), Zink (Zn) og kóbolt (Co) eru að jafnaði í nægum mæli í gróffóðrinu til að uppfylla þarfir, í einstaka tilvikum þó í lægra lagi. Hins vegar er þessi efni að finna í jafnvel einföldustu saltsteinum. Langt er milli skorts- og eiturmarka á þessum efnum þannig að yfirleitt ætti hvorki að þurfa að verða of né van af þessum efnum, ef fóðrað er á gróffóðri með aðgengi að saltsteinum/bætiefnum af einhverju tagi.
 
Snefilefnið járn (Fe) er í meira mæli í íslensku gróffóðri en þörf er á, og viðbótarfóðrun á því ónauðsynleg og mögulega skaðleg í einstaka tilvikum, en ofgnótt af járni getur m.a. hindrað upptöku á öðrum efnum. Miðað við þessa stöðu virðist vera óþarflega mikið járn í sumum kjarnfóðurblöndum, saltsteinum og bætiefnafötum sem eru hér á markaði, en í öðrum er járn ekki að finna eða í mjög litlum mæli.
 
Joð (I) er að finna í gróffóðri en í fremur lágum styrk svo stundum jaðrar við skort. Það er að finna í saltsteinum og bætiefnafötum þannig að með slíku viðbótarfóðri á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af skorti. Þekkt er sú aðferð að láta joðupplausn standa í opnu íláti í fjárhúsum, og dreifist það þá í gegnum andrúmsloftið. 
 
Kopar (Cu) virðist nægur í íslensku gróffóðri til að mæta þörfum sauðfjár og er að jafnaði ekki í saltsteinum og bætiefnafötum fyrir sauðfé en í kjarnfóðurblöndum gjarnan í svipuðum styrk og í gróffóðrinu. Bilið milli skorts og eitrunar er styttra fyrir kopar en flest önnur snefilefni.
 
Styrkur selen (Se) er allbreytilegur í íslensku gróffóðri og oft of lágur. Selenbættur áburður er víða notaður til að bæta úr þessu. Flestir saltsteinar og bætiefnafötur fyrir sauðfé sem eru á markaði hérlendis innihalda nægt selen til að bæta úr mögulegum skorti.
 
Fóðurbæti þarf að velja með hliðsjón af fóðurþörfum og efnainnihaldi gróffóðurs
 
Fóðursalar bjóða uppá ýmsar leiðir til að tryggja góða næringu sauðfjárins og er það vel. Besta leiðin til að draga úr valkvíðanum er þekking á fóðri og fénaði hverju sinni.  Enginn möguleiki er á að gefa út eina töfraformúlu sem virkar alltaf. En hér á eftir koma þó nokkrar almennar ráðleggingar og hugleiðingar.
Lýsisgjöf einkum um og fyrir fengitíð og í upphafi meðgöngu hefur ýmsa kosti sem hægt væri að skrifa langan pistil um. En í sem allra stystu máli eru í lýsinu A- og D- vítamín og jafnvel eitthvað af viðbættu E-vítamíni, en einnig ákveðnar fjölómettaðar fitusýrur sem m.a. hafa góð áhrif á frjósemi, í gegnum auknar lífslíkur fósturvísa. 
 
Saltsteinar sem innihalda að stærstum hluta (99%) NaCl eru hugsaðir fyrst og fremst til að uppfylla saltþörf, féð skammtar sér af þeim miðað við saltþarfir. Oft er þó í þessum steinum nægilega mikið af helstu snefilefnum til að bæta upp það sem á kann að vanta í gróffóðri, eins og að framan var rakið.
Á haustin er eðlilegt að huga að því að ná til baka steinefnatapi (Ca, P, Mg) sem reikna má með að hafi orðið á mjólkurskeiðinu. Beit og gróffóður með tiltölulega hátt innihald þessara efna getur vel dugað til þess, en ef ekki, þá má gefa saltsteina sem innihalda þessi efni auk matarsalts (NaCl) og snefilefna, en dagsskammtarnir eru þó það litlir að engin kraftaverk gerast hvað þessi efni varðar með þeirri aðferð. Steinefnafötur með hærra innihaldi þessara efna gera meira gagn ef virkileg þörf er til staðar, sem er þó alls ekki nærri alltaf. 
 
Ráðlagður dagskammtur fyrir ær af steinefnafötu með virkilega góðum skammti af þessum efnum kostar 8-10 krónur en ráðlagður dagsskammtur af saltsteini kostar 1,5 -2,5 krónur. Ef við segjum að þarna muni 7 kr/kind á dag þá eru það 700 krónur á dag, eða 21 þús kr á mánuði fyrir hverjar 100 kindur. Ef við segjum að „dýrari týpan“ af steinefnagjöf væri til skoðunar í 2 mánuði á ári (t.d. 1 mán að hausti og 1 að vori) á 500 kinda fjárbúi þá eru þar í spilinu um 200 þúsund krónur. Það væri örugglega vel þess virði að eyða einhverju af þeim peningum í að efnagreina gróffóðrið til að fá betri hugmynd um hver raunveruleg þörf er.
 
Svo eru til ennþá dýrari og fullkomnari bætiefnafötur þar sem ráðlagður dagsskammtur (80-100 g) kostar yfir 20 kr/kind/dag, en í honum er að vísu ásamt steinefnum, snefilefnum og vítamínum nokkuð af kolvetnum og próteini. Fyrir sama pening mætti gefa 200-300 g/dag af kögglaðri kjarnfóðurblöndu, sem gefur flest það sama nema mun meira af orku og ekki síst próteini. Vinnuhagræðing væri líklegasta ástæðan til að velja frekar slíkar bætiefnafötur heldur en góða kjarnfóðurblöndu. 
 
Á meðan ærnar eru á gjöf inni eða heimavið eftir burðinn eru kjarnfóðurblöndur yfirleitt hagkvæmastar til að koma í þær því viðbótarfóðri sem þarf með heyinu. Þegar féð er komið á beit eru saltsteinar eða bætiefnafötur ágæt leið til hins sama. Þetta miðast við að beitin sé það góð að át og ekki síst próteinumsetning ánna verði ekki lakari enn á innifóðrinu.
 
Lokaorð
 
Hér hefur verið fjallað aðeins um tilgang með fóðurbætisgjöf og nokkrar leiðir í því sambandi. Um fóðuráætlanagerð og ýmsar niðurstöður varðandi hagkvæmni kjarnfóðurgjafar má lesa nánar í 4. kafla bókarinnar Sauðfjárrækt á Íslandi. Í heimaaflað fóður á sauðfjárbúum eru lagðir miklir fjármunir. Þeir nýtast best ef gæði fóðursins eru í sem bestu samræmi við þarfir fjárstofnsins. Til að bæta upp það sem á vantar í þeim efnum getur verið mjög hagkvæmt og nauðsynlegt að nota fóðurbæti af einhverju tagi. Val á honum þarf hverju sinni að taka mið af fyrirliggjandi þekkingu um gæði gróffóðursins og fóðurþarfir fjárstofnsins. 
 
Helstu heimildir
Jóhannes Sveinbjörnsson 2013. Fóðurþarfir og fóðrun sauðfjár. 4. kafli (bls. 74-96) í: Sauðfjárrækt á Íslandi. Uppheimar 2013.
 
T. Jóhannesson, T. Eiríksson, K.B. Guðmundsdóttir, S. Sigurðarson, J. Kristinsson, 2007. Overview: seven trace elements in Icelandic forage. Their value in animal health and with special relation to scrapie. Icelandic Agricultural Science 20: 3-24.

2 myndir:

Skylt efni: heygæði

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...