Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Æpandi þversagnir í matvælaframleiðslu heimsins og tvíeggjað sverð á lofti
Fréttir 14. október 2015

Æpandi þversagnir í matvælaframleiðslu heimsins og tvíeggjað sverð á lofti

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Matvælaverð á alþjóðlegum hráefnismörkuðum hefur hríðfallið undanfarnar vikur og mánuði. Þótt neytendum hér á landi og víðar um heim kunni að finnast þetta gleðitíðindi þá er það sannarlega tvíeggjað sverð sem getur valdið almenningi miklum skaða til lengri tíma.  

Á liðnum mánuðum er það einkum viðskiptabann ESB og Bandaríkjanna á Rússa sem er að skekkja markaðinn allverulega, sem og minnkandi hagvöxtur í Kína. Þá er aukin ásókn fjárfesta í ræktarland og fjárfestingar þeirra í ýmsum búgreinum eins og mjólkurframleiðslu greinilega farin að hafa veruleg áhrif í Evrópu.

Viðskiptabannið á Rússa skaðar evrópska bændur

Vegna viðskiptabannsins á Rússa eru evrópskir bændur sem þar hafa átt mikil og góð viðskipti í gegnum tíðina komnir í stórkostleg vandræði. Gott dæmi er staða danskra svínabænda. Finnskir bændur og bændur í öðrum Eystrasaltslöndunum hafa einnig fundið illilega fyrir þessu. Algjör óvissa er líka um útflutning á íslensku kindakjöti til Rússlands sem miklar væntingar voru bundnar við. Þá eru evrópskir mjólkurframleiðendur líka að lenda í stórkostlegum vanda vegna þessa. Einnig vegna áhrifa af mjólkurkvótaniðurlagningu í landbúnaðarkerfi ESB og innkomu stórfjárfesta inn í greinina sem eykur enn vandann

Blessun markaðslögmálanna kann að breytast í bölvun

Fréttir frá Bretlandi á síðustu misserum sýna að mikil fjárfesting peningamanna í kúabúskap og mjólkurframleiðslu hefur innleitt kalda rökhyggju markaðsaflanna inn í breskan landbúnað. Þar hafa menn beitt þekktri aðferð til að drepa af sér samkeppni sem leitt hefur til fjöldagjaldþrota hjá breskum smábændum. Þar var farin sú leið að stórframleiðendur á mjólk gerðu samninga við verslunarkeðjur um sölu á mjólk langt undir eðlilegu kostnaðarverði. Allt var þetta gert undir þeim formerkjum að verið sé að bæta hag neytenda.

Vissulega lækkar verð á landbúnaðarvörum töluvert um hríð, en þegar fjöldi bænda hverfur úr greininni mun framleiðslan minnka til muna. Þá standa eftir stóru búin sem geta þá stórhækkað verð að nýju í takt við lögmál framboðar og eftirspurnar. Nokkuð tryggt er að stórbúin munu ekki fá neina samkeppni svo nokkru nemur, þar sem með bændunum sem hverfa úr greininni fer einnig dýrmæt þekking og reynsla. Því er talið líklegt að innan ekki langs tíma muni sá þekkingarflótti fara að valda breskum landbúnaði miklum skaða til langframa.

Mjólkurbændur í Evrópu að kikna undan verðfalli

Verð á hrámjólk í löndum Evrópu­sambandsins hefur lækkað stórlega á þessu ári miðað við síðasta ár. Bændur eru víða farnir að örvænta og hefur það m.a. lýst sér í miklum mótmælum bænda víða um Evrópu og eins og frægt er við höfuðstöðvar ESB í Brussel. Þar  hafa menn ekki síst kennt um aflagningu kvótakerfis í mjólkurframleiðslu sem hafi neytt fjölda bænda í gjaldþrot, en viðskiptabannið á Rússa spilar þar líka stóra rullu.

Meðaltalsverðfall til bænda fyrir mjólk í ESB-ríkjunum er 20%

Mest hefur verðfall á hrámjólk til bænda verið í Lettlandi eða um 28% á milli ára. Í Ungverjalandi og Eistlandi er verðfallið 26% og 25% til bænda í Þýskalandi. Í hinu fræga mjólkurlandi Hollandi nemur verðfallið 24% líkt og í Lúxemborg og Belgíu. Í Litháen og á Írlandi er verðfallið 23%, en 21% í Danmörku og 20% í Slóveníu og Slóvakíu. Meðaltalsverðfall til bænda fyrir hrámjólk í 28 ríkjum Evrópusambandsins er 20%.

Í Svíþjóð er verðfallið 19% og í Rúmeníu og Finnlandi 18%. Þá búa bændur í Bretlandi, Frakklandi og Austurríki við 17% verðlækkun, Pólland og Portúgal með 16%, Spánn með 15% og verðlækkun á hrámjólk til ítalskra bænda er 14%.

Minnst er verðfallið 1% á Möltu og 2% í Grikklandi og eina ESB-landið sem státar af lítils háttar hækkun til bænda fyrir hrámjólk er Kýpur sem er með heil 2% í hækkun.

Meðaltalsmjólkurverð til bænda í ESB-löndunum í júlí (farm gate milk price) var um 29,7 evrur á hver 100 kg, eða tæplega 0,30 evrur á lítra sem samsvarar rúmlega 42 krónum á lítra. 

Ískyggileg staða hjá breskum kúabændum

Ef Bretland er skoðað sérstaklega sést að mjólkurframleiðslan hefur ekki verið meiri síðastliðin fimm ár en í sumar og fór í um 1.360 milljónir lítra í lok maí. Frá því í mars hefur verð til bænda heldur ekki verið lægra síðastliðin fimm ár. Sem dæmi var verð á lítra 23,34 pens í júlí (0,32evrur á lítra), sem samsvarar um 45 krónum. Þarna er um meðaltal að ræða og í mörgum tilfellum er verðið mun lægra.

Í viðtali í breska blaðinu The Guardian sagði kúabóndinn Mark James í Bodenham í Herefordskíri í janúar á þessu ári að baráttan væri  orðin erfið. Þá var hann að fá um 20 pens fyrir lítrann en þurfti 23 pens til að það borgaði sig að standa í framleiðslu. Síðan hefur dæmið bara versnað og hafa bændur einkum kennt um niðurlagningu kvótakerfisins hjá ESB. Þá hefur einnig verið bent á að stóru verslanakeðjurnar í Bretlandi, Marks & Spencer, Tesco og Sainsbury’s, hafi nýtt sér frjáls viðskipti milli ESB-landa til að keyra mjólkurverðið í Bretlandi enn meira niður. Þar nýttu kaupmenn sér það að vegna viðskiptabanns á Rússa hrundi helsti útflutningsmarkaður Austur-Evrópuþjóðanna fyrir mjólkurvörur. Þannig hafa þessar verslanir ekki þurft að greiða bændum þar um slóðir nema um 16 pens á lítra, eða langt undir kostnaðarverði. Sömu afleiðingar hefur sala stórframleiðenda á mjólk til stórmarkaða undir kostnaðarverði haft á smábændur í Bretlandi svo höggið er margfalt. Árið 1995 voru um 36 þúsund kúabændur í Bretlandi en þeir eru nú orðnir færri en 10 þúsund og fækkar enn.

Eins brauð, annars dauði

Samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) frá 10. september sl.,  féll matvælaverðsvísitala um 5,2 prósent frá júlí til ágúst. Er þetta mesta verðfall á þessum markaði síðan í desember 2008. Engar vísbendingar eru um viðsnúning, en þvert á móti óttast menn að afturkippur í efnahag Kína kunni að draga enn úr viðskiptum á markaði og þar með auka offramboð. 

Er bændum og samfélögum fórnað fyrir gróðavonina?

Samkvæmt lögmálum markaðarins mun niðurkeyrsla á verði landbúnaðarafurða augljóslega fækka bændum og draga úr framleiðslugetunni. Samkvæmt sama lögmáli mun verðið sem nú er á hraðri niðurleið rjúka upp í himinhæðir þegar framleiðendur geta ekki lengur annað eftirspurn.

Gallinn við þetta er sá að í landbúnaði virka hlutirnir talsvert mikið örðuvísi en t.d. í framleiðslu á iðnaðarvörum sem eru ekki lífsspursmál fyrir neytendur. Menn endurreisa ekki svo auðveldlega landbúnað þar sem þeir sem þekkinguna og reynsluna höfðu eru horfnir á braut. Það tekur nefnilega langan tíma að rækta upp land og  dýrastofna að nýju og eldi á nauti til slátrunar tekur sem dæmi um 18 til 24 mánuði. Því munu neytendur óhjákvæmilega fá að borga brúsann fyrir þann blekkingarleik sem þeir eru nú látnir taka þátt í m.a. með því að keyra tímabundið niður verð á landbúnaðarvörum.

Nær öruggt má telja að sumar búgreinar munu seint ná sér á strik aftur. Það hefur síðan keðjuverkandi og víðtæk áhrif á samfélögin í dreifðari byggðum Evrópu.

Snjallir peningamenn munu græða

Allt snýst þetta um að snjallir peningamenn sjá möguleikana í ofsagróða á matvælum með smá fórnarkostnaði í byrjun. Þeir hafa nefnilega uppgötvað peningavélina í landbúnaðinum sem snýst svo lengi sem fólk heldur áfram að borða mat.

Í þessu, líkt og í uppbyggingu fjármálakerfa með endalausum blekkingaleik fyrir hrunið 2008, eru peningamenn að nýta sér fjölmiðla til að skapa sér góða ímynd þar sem hamrað er á kröfum um ódýrari fæðu og allt í nafni almennings. „Væl“ bænda um að þeir þurfi kostnaðarverð til að standa undir framleiðslunni, láta menn sem vind um eyru þjóta. Íslendingar þurfa ekki að líta langt aftur í tímann til að sjá skýr dæmi um slíkan hrunadans í kringum gullkálfinn, en menn eru vissulega fljótir að gleyma.

Veruleg skekkja í heimsmyndinni

Það er eitthvað verulega skakkt við ástandið. Það eru ekki mörg misseri síðan forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna vöruðu heimsbyggðina við væntanlegum matvælaskorti. Þjóðir heims voru hvattar til að efla eigin framleiðslu til að tryggja sitt fæðuöryggi. Alþjóðabankinn sagði m.a. í uppfærðum texta í apríl 2015:
„Heimsbyggðin þarf að auka matvælaframleiðsluna um að minnsta kosti 50% til að geta fætt þá 9 milljarða manna sem búa munu á jörðinni árið 2050. Þar að auki gætu loftslagsbreytingar á þessum tíma dregið úr uppskeru um 25%. Líffræðilegt jafnvægi lands og sjávar er í hættu ef ekki verður ráðist í að breyta því hvernig við ræktum matvæli og meðhöndlum okkar náttúrugæði. Sérstaklega í fátækum heimshlutum.“

Á Íslandi íhuguðu bændur stöðuna og skoðuðu hvernig þeir gætu helst aukið sína framleiðslu. Í framhaldinu hafa fjölmargir bændur ráðist í miklar fjárfestingar.

Öll þessi rök hafa nú verið sett á haus. Nú hrúgast upp birgðir matvæla víða um heim vegna verðfalls, á meðan fólk á stórum svæðum hefur ekki efni á að kaupa mat og sveltur.

Nær allt þetta umrót er tilkomið vegna  pólitískra aðgerða og vegna mistaka í efnahagsstjórn einstakra ríkja og ríkjasamsteypa.

Matvælaverð og matvælaskortur undirrót uppþota

Alþjóðabankinn hefur fylgst náið með áhrifum matvælaverðsbreytinga á samfélög þjóðanna undir því sem kallað er Food Riot Radar og Food Price Watch. Menn minnast uppreisna 2007 víða um lönd í kjölfar mikilla hækkana á matvælaverði og eins vegna skorts á matvælum. Í sumum ríkjum leiddi þetta til pólitískrar upplausnar sem enn sér ekki fyrir endann á. Nokkur ótti er við að þetta kunni að endurtaka sig.
Miklar verðlækkanir sem stafa af birgðasöfnun vegna spákaupmennsku kunna að leiða minnkandi framleiðslugetu og mikilla verðhækkana á matvöru í kjölfarið. Í Evrópu bætast svo við erfiðleikar í efnahagsstjórnun og bylgja flóttamanna sem flæðir þar inn yfir landamæri. Slíkt getur hæglega kynt undir sjónarmið harðlínuhópa með skelfilegum afleiðingum.

Alþjóðabankinn varar við hættunni

Samkvæmt matvælaverðsvakt Alþjóðabankans lækkaði verð á matvælum á heimsvísu um 14% frá ágúst 2014 til maíloka 2015. Er þetta mesta lækkun í fimm ár. Innan einstakra framleiðslugreina urðu þó miklar sveiflur. Þar kemur fram að lækkandi olíuverð hafi haft þar töluverð áhrif sem og lækkandi verð á aðföngum bænda eins og áburði. Þegar í september 2014 byrjaði bankinn að vara þjóðir við þessu ástandi sem hætta væri á að snerust í andhverfu sína. Nú endurtekur Alþjóðabankinn varnaðarorð sín og klykkir út með þessum orðum: „Lækkun matvælaverðs er fagnaðarefni vegna þess að þá hefur fleira fólk efni á því að kaupa mat fyrir sínar fjölskyldur. Samt sem áður þurfa þjóðir heims að vera viðbúnar óvæntum breytingum á matvælaverði og geta brugðist við hættulega miklum hækkunum ef og þegar þær verða.“

Alþjóðabankinn segir síðan að ein lykilspurning spretti upp af athugunum á fæðuverði einkum í lág- og millitekjusamfélögum. „Hvenær munu þessar stóru verðsveiflur benda til að að við séum að sigla inn í matvælaverðskreppu af fullum þunga?“

Áhrifamiklar aðgerðir

Tollaniðurfelling á matvöru til og frá Íslandi er aðeins eitt lítið dæmi um áhrifaríka aðgerð sem sögð er í þágu neytenda. Lítið er hins vegar vitað um heildaráhrifin á landbúnað og samfélagið allt þegar upp verður staðið. Miklu mikilvirkari í alþjóðasamhengi var þó sú ráðstöfun að setja viðskiptabann á Rússa sem hefur líka umtalsverð neikvæð áhrif á Íslandi. Ekki þarf svo að minnast á mikilvirkni stríðsátaka sem við tökum óbeint þátt í og getum illa þvegið hendur okkar af. Meira að segja slíkt er sagt í þágu almennings bæði innan og utan átakasvæða. Hluti af þeim „himinlifandi“ almenningi flæðir nú af einhverjum ástæðum frá Sýrlandi yfir lönd Evrópu.  

Verðfall á mörkuðum

Glögglega má sjá afleiðingarnar af þessu umróti og spákaupmennsku með hrávöru í tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Það er helst að verð haldist hátt á kakói og eggjum í Bandaríkjunum. Braski áhættufjárfestingasjóða er m.a. kennt um stöðuna sem olli m.a. 11% verðfalli á nautgripum á fæti í Chicago nú í september. Fjármálaspekingar í New York spá nú verðfalli á bómull, hrásykri og kaffi vegna áhættusækni fjárfesta samkvæmt vefsíðu agrimoney.com.

Í tölum  FAO kemur fram að verðvísitalan á korni í ágúst féll um 7% miðað við vísitöluna í júlí og um 15,1% frá því í ágúst 2014. Hafði kornverð í ágúst ekki verið lægra frá því í júní 2010.

Matarolíuvísitalan féll um 12,7 punkta í ágúst eða 8,6% og mjólkurvöruvísitalan féll um 9,1%. Mestu munar þar um verðfall á mjólkurdufti vegna minni eftirspurnar í Kína.

Heimsmarkaðsverð á kjöti af búfé féll að meðaltali í ágúst um 18,1%, en nokkuð var mismunandi eftir tegundum hvað lækkanir voru miklar. Mest var verðfallið á svínakjöti, en kvótar í alifuglakjöti og öðrum tegundum höfðu einnig minnkað.

Sykurvísitalan féll líka í takt við aðrar matvælavísitölur í ágúst eða um 10% á milli mánaða. Þar hafði mest áhrif versnandi staða brasilíska realsins gagnvart dollar. Þá höfðu fregnir af því að Indverjar, sem eru aðrir stærstu sykurframleiðendur í heimi, hygðust fara út í umfangsmikinn útflutning á sykri á næstu misserum. Aðrar fréttir af minni sykurreirsuppskeru í Taílandi virðast ekki hafa dugað til að draga úr verðfallinu þótt Taíland sé annar mesti sykurútflytjandi í heimi.

Samkvæmt nýjustu spá FAO er áætlað að heimsframleiðslan á korni á árinu 2015 verði 2.540 milljónir tonna sem er 13,8 milljónum meira en áætlað var í júlí. Eigi að síður er það 21 milljón tonnum minni framleiðsla (0,8% minna) en á metárinu 2014.

Framleiðsla eykst mest í Ástralíu, löndum Evrópusambandsins, í Rússlandi og í Úkraínu. Hins vegar hefur framleiðslan dregist saman í Kanada vegna þurrka.

Samdráttur í framleiðslu vegna El Niño dugar ekki til
að auka eftirspurn

Veðurfyrirbærið El Niño er einnig að valda usla í Kyrrahafslöndum þar sem þurrkar hafa dregið stórlega úr hrísgrjónaframleiðslu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) greindi frá því 17. september að vegna þurrka hafi stjórnvöld í Indónesíu ákveðið að styrkja hrísgrjónaframleiðendur um 258 milljónir dollara. Þrátt fyrir minni hrísgrjónauppskeru í sumum löndum eru birgðir farnar að hlaðast upp vegna verðfalls víða um heim. Af þeim sökum lækkuðu Víetnamar útflutningsverð sitt um 2,9% á hluta framleiðslunnar til að reyna að auka eftirspurn. Hafði FOB verðið þá lækkað úr 340 í 330 dollara á tonnið frá því júní síðastliðnum. Taílendingar hafa einnig reynt að minnka birgðir með útsölu á hrísgrjónum í stórum skömmtum. Síðast voru í boði á uppboði í ágúst 660.000 tonn. Þrátt fyrir útsöluverðmið seldist ekki allt kornið og Taílendingar sitja enn á 14 milljóna tonna birgðum af hrísgrjónum sem reynt verður að afsetja á næstu mánuðum.

Það má segja að það hafi verið lán í óláni að Bangladesh og Myanmar hafa haldið að sér höndum í sumar varðandi útflutning. Var hann reyndar bannaður frá þessum löndum vegna flóða og til að tryggja eigin fæðuöryggi þjóðanna. Nú er búið að gefa það út að útflutningstakmörkunum í Bangladesh verður aflétt af ákveðnum tegundum af hrísgrjónum. Einnig var byrjað að aflétta útflutningstakmörkunum í Myanmar  þann 15. september sem varla verður til að laga stöðuna á heimsmarkaði.

Tvísýn staða

Verulegan hluta af þessum óstöðugleika á matvælamörkuðum má rekja til pólitískra aðgerða í alþjóðastjórnmálum og spákaupmennsku fjármálabraskara. Hvernig bændur heimsins eiga að geta skapað sér eðlilegan og sjálfbæran rekstrargrunn í því umhverfi og tryggt um leið fæðuöryggi almennings, hlýtur að vera afar erfitt að segja til um.   

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...