Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Lausagöngugotstía á Ormsstöðum sem stenst kröfur reglugerðar.
Lausagöngugotstía á Ormsstöðum sem stenst kröfur reglugerðar.
Mynd / smh
Fréttir 25. ágúst 2016

Aðbúnaður á gyltubúum breyst mjög til batnaðar

Höfundur: smh
Í apríl og maí á þessu ári stóð Matvælastofnun fyrir eftirlitsverk­efni sem fólst í því að farið var inn á öll 14 svínabú landsins sem halda gyltur til að meta hvort farið væri að lögum og reglum um velferð dýra. Í niðurstöðum skýrslu sem gefin var út í kjölfarið segir að breytingar hafi orðið til batnaðar á flestum sviðum.
 
Fyrir um ári síðan komst sams konar skýrsla í hámæli í þjóðfélaginu, en þar var fremur dökk mynd dregin upp af ástandinu á svínabúum í dýravelferðarlegu tilliti. 
 
Í inngangi nýju skýrslunnar segir að með eftirlitsverkefninu sé ætlunin að gefa yfirsýn yfir stöðu mála á gyltubúum í dag hvað varðar geldingar, halaklippingar, básahald og almennan aðbúnað. Myndir sem fylgja skýrslunni sýna hvernig þróun mála hefur orðið og lýsa tilteknum aðstæðum en gefa ekki heildarmynd af viðkomandi búum. 
 
Fækkun geldinga
 
Í samantekt skýrslunnar segir að umskipti hafi átt sér stað milli áranna 2014 og 2016 varðandi geldingar grísa. Séu grísir geltir þá er það gert í samræmi við ákvæði laga og reglna. „Fækkun geldinga er fagnaðarefni. Bændur hafa í auknum mæli lagt af geldingar eða tekið upp bólusetningu gegn galtarlykt.“ 
 
Halaklippingar á undanhaldi
 
Þá segir í samantektinni að halaklippingar séu á undanhaldi. Það muni þó taka tíma að geta lagt af halaklippingar á búum almennt því varnir gegn halabiti eru nátengdar breytingum á aðbúnaði grísanna. „Einu aðferðirnar til að fulldeyfa halasvæðið eru mænudeyfing eða svæfing, en báðar aðferðirnar eru óraunhæfar og illframkvæmanlegar í hefðbundnum búrekstri. Verkjastilling fyrir aðgerð er því valkosturinn að sinni.“
 
Stakkaskipti orðið á básahaldi
 
Í skýrslunni kemur einnig fram að stakkaskipti hafi orðið á básahaldi gyltna. Núna sé rúmur þriðjungur búa með allar gyltur í lausagöngu, rúmur þriðjungur búa sé með lausagöngu að hluta og unnið er að afnámi básahalds hjá öllum sem enn nota bása. „Bógsárum hefur fækkað og eru þau einnig vægari en áður. Litlar breytingar hafa orðið á gotstíum, gotbásum og gólfefnum á flestum búanna, en slíkar breytingar eru kostnaðarsamar og mun það taka tíma að breyta öllum búum þannig að þessi atriði standist kröfur. Aðilar hafa fengið frest til að uppfylla kröfur, sbr. bráðabrigðaákvæði reglugerðar nr. 1276/2014, en samfara þeim úrbótum skapast betri möguleikar á að uppfylla kröfur um undirburð,“ segir í skýrslunni.
 
Nýjar reglugerðir til grundvallar
 
Í desember 2014 kom út ný reglugerð um velferð svína. Þar kemur fram að Matvælastofnun getur veitt framleiðanda frest til aðlögunar að skilyrðum 7. gr. (um hreyfingu, hvíld og þarfir) og 15. gr. (um húsakost) reglugerðarinnar ef aðstæður eru þannig að kostnaðarsamt er fyrir viðkomandi framleiðanda að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Frestir eru háðir því að framleiðandi skili inn tímasettri úrbótaáætlun og kostnaðarmati ef hann hyggst sækja um frest til aðlögunar. Svínabúum var gert að skila inn slíkri úrbótaáætlun og kostnaðarmati síðastliðið haust, ef þau ætluðu að sækja um frest til aðlögunar. 
 
Öllum svínabúum nema einu var veittur frestur til aðlögunar. Hjá þessu eina búi skorti fullnægjandi áætlun til úrbóta. Ný útfærsla er þar í vinnslu. 
 
Matvælastofnun veitir ekki lengri fresti til úrbóta en til 1. janúar 2025.
 
Gleðilegt að fá þessa staðfestingu
 
Björgvin Jón Bjarnason, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir að það sé gleðilegt að fá opinberlega staðfestingu á því að svínabændur hafa unnið af kappi að því á undanförnum misserum að bæta aðbúnað á svínabúunum. „Eitt stærsta verkefni okkar hefur verið að auka rými fyrir gripina okkar, annaðhvort með því að breyta úr básahaldi yfir í lausagöngu eða með því að stækka básana. Það er gaman að segja frá því að útkoman fyrir okkur hefði væntanlega orðið enn hagstæðari ef tekið hefði verið mið af fjölda gripa í því sambandi, en ekki fjölda búa eins og gert er í skýrslunni. Því raunin er að stærri búin eru yfirleitt komin heldur lengra í þessari þróun. Þannig að hlutfall gyltna í lausagöngu er jafnvel enn hærra en lesa má út úr skýrslunni,“ segir Björgvin. 
 
Hann segir að búið sé að breyta á mörgum sviðum til batnaðar, líka til dæmis hvað varðar halaklippingar og geldingar, og svínabændur ætli að halda áfram á þessari braut. „Ég finn það bara á svínabændum að það er metnaður til að gera enn betur.“

7 myndir:

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...