Sumar þjóðir eru stórtækari en aðrar í notkun tilbúins áburðar, en notkun á slíkum áburði hefur aukist stórlega á undanförnum árum.
Sumar þjóðir eru stórtækari en aðrar í notkun tilbúins áburðar, en notkun á slíkum áburði hefur aukist stórlega á undanförnum árum.
Mynd / SAMAA
Fréttir 15. febrúar 2021

Áburðarnotkun rokkar frá 3 grömmum og upp í tæp 35 tonn á hektara

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Tilbúinnn áburður hefur leikið stórt hlut­verk við að auka upp­skeru bænda, einkum í kornrækt í gegn­um árin, og ekki er að sjá neinar breytingar á þeirri stöðu samkvæmt spá Matvæla- og land­búnaðar­stofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Hins vegar hefur framleiðsla og eftirspurn verið nokkuð rokkandi samkvæmt tölum sem byggðar eru á gögnum Alþjóðabankans en athyglisvert hversu áburðarnotkun á hvern ræktaðan hektara er afar mismun­andi eftir löndum.

Samkvæmt spá FAO er búist við að notkun á tilbúnum áburði í heiminum haldi áfram að aukast, en hún var 292.429.000 tonn árið 2016 og var áætluð 315.973.000 tonn á árinu 2021 og 318.652.000 tonn á árinu 2022. Þarna er um tilbúinn áburð að ræða (N+P2O5+K2O) sem framleiddur er úr ammoníaki (N), fosfatsýru (P2O5) og matarsóda eða pottösku K2O.

Helstu framleiðsluþjóðir á tilbúnum áburði eru Kína, Indland og Bandaríkin. Búist er við að áburðarverð á heimsvísu verði nánast óbreytt á árinu 2021 miðað við meðalverð á síðasta ári. Það getur þó oltið nokkuð á framvindu COVID-19.

Samkvæmt gögnum sem byggð eru á tölum Alþjóðabankans var meðalnotkun af tilbúnum áburði að meðaltali á hektara ræktaðs lands í heiminum 107,6 kg árið 2002. Árið 2007 var þessi tala komin í 126,2 kg á hektara. Eftir smá niðursveiflu á árunum 2008 og 2009 rauk notkunin upp í tæp 136 kg á hektara á árinu 2011 og var komin í rúmlega 140 kg á hektara árið 2016. Í flestum ríkjum sem úttekt bankans nær yfir hefur áburðarnotkunin verið að aukast.

Þetta kort sýnir áburðarnotkun eftir löndum á árinu 2016. Síðan hefur áburðarnotkun aukist í fjölmörgum löndum, en dregist saman á Íslandi og í Finnlandi.

Frá 4 grömmum og upp í tæp 35 tonn á hektara

Gríðarlegt misvægi er í notkun einstakra þjóð á tilbúnum áburði, eða frá 4 gömmum á hektara í Nígeríu á árinu 2016 og upp í 30,2 tonn á hektara í Singapúr. Á árinu 2019 var Mið-Afríkulýðveldið í neðsta sæti með 3 grömm á hektara en Singapúr var komið upp í 34,7 tonn árið 2019. Þar er notkunin jafnframt margfalt meiri en hjá Katar, sem er með næstmesta notkun, eða 6,7 tonn á hektara 2016 og tæp 7,5 kg árið 2019.

Notkunin í Singapúr hefur verið gríðarlega sveiflukennd frá 2005 og erfitt að átta sig á hvað veldur eða hversu áreiðanlegar þessar tölur eru. Þannig var notkunin þar rúm 13,7 tonn á hektara árið 2005, rúm 3 tonn árið 2010, rúm 4 tonn árið 2011, rúm 14,2 tonn árið 2012 og rúm 14,4 tonn árið 2013. Þá hrapaði notkunin niður í rúmlega 1 tonn á hektara árið 2014, en rauk svo upp í rúm 33 tonn árið 2015 og fór svo í rúm 30 tonn árið 2016 og 34,7 tonn árið 2019. Á fimm árum hafði áburðarnotkunin þar í landi að meðaltali aukist um 101,2%.

Kúveit var í þriðja sæti árið 2019 með tæp 3,9 tonn á hektara, Malasía í fjórða sæti með tæp 1,8 tonn og Nýja-Sjáland var þá í fimmta sæti með rúm 1,7 tonn á hektara.

Frændur okkar Írar virðast líka hafa notað hressilega mikið af áburði samkvæmt tölum Alþjóðabankans. Þar voru þeir í sjöunda sæti með rúmlega 1,2 tonn á hektara að meðaltali á árinu 2016 og voru komnir upp í sjötta sæti árið 2019 með rétt tæplega 1,4 tonn á hektara.

Margir hefðu eflaust talið að Kínverjar skoruðu hátt á listanum, en Kína var þó aðeins í þrettánda sæti árið 2016 með rúmlega 503 kg á hektara, en datt niður um eitt sæti árið 2019, en samt með meira áburðarmagn, eða 519 kg á hektara.

Norðmenn nota mestan áburð af Norðurlandaþjóðunum

Noregur er í fertugasta sæti árið 2016 með tæp 204 kg á hektara, en var dottið niður í 44. sæti árið 2019 með sama magn, eða 204 kg á hektara. Það þýðir aukningu á fimm ára tímabili um 1%.

Margar Evrópuþjóðir eru þar fyrir ofan. Fast á eftir Noregi komu Sádi-Arabía með tæp 200 kg á hektara árið 2019. Portúgal var þá með 199 kg og Þýskaland með 198 kg á hektara, sem eru svipaðar tölur og 2016.

Ísland var í fertugasta og sjöunda sæti árið 2016 með 181,5 kg á hektara, en var dottið niður í 52. sæti árið 2019 með 180 kg á hektara. Áburðarnotkun hafði að jafnaði heldur verið að aukast á Íslandi frá 2005 en hefur samt verið breytileg milli ára. Þannig var hún ansi mikil árið 2014, eða 201,7 kg á hektara. Á fimm ára tímabili frá 2014 til 2019 dróst áburðarnotkunin þó saman á Íslandi, eða að meðaltali um 2,2%.

Þá var Danmörk í 70. sæti árið 2016 með 131,1 kg á hektara, en var í 73. sæti 2019 með 134,2 kg á hektara. Þar var 2,2% aukning á fimm árum. Svíþjóð er í 87. sæti árið 2016 með 96,3 kg en var komið niður í 90. sæti 2019, þrátt fyrir að hafa aukið við sig í 98,1 kg á hektara.

Finnland er með minnstu áburðarnotkun Norðurlandaþjóðanna og var í 94. sæti árið 2016 með 80,5 kg að meðaltali á hektara, en var komið í 102. sæti með 71,8 kg á hektara árið 2019. Líkt og á Íslandi dróst áburðarnotkunin saman í Finnlandi á fimm ára tímabili, eða um 3,5%.

Bandaríkin með mun minni áburðarnotkun en Norðurlandaþjóðirnar

Athygli vekur að Bandaríkin eru talsvert langt á eftir okkur Íslend­ingum, eða í 64. sæti árið 2016 með 138,6 kg á hektara og höfðu fallið niður í 67. sæti árið 2019 þrátt fyrir aukna notkun, eða 142,8 kg á hektara.

Rússar ekki stórtækir í áburðarnotkun

Stærsta land heims skorar ekki ýkja hátt í áburðarnotkun á heimsvísu og má því væntanlega telja nokkuð vistvænt hvað það varðar. Þannig var Rússland í 126. sæti með 18,5 kg á hektara á árinu 2016 og var komið niður í 131. sæti árið 2019 með nánast sama áburðarmagn, eða tæp 18,8 kg á hektara.

Mikil áburðarnotkun skapar ójafnvægi í náttúrunni

Hefur mikil áburðargjöf leitt til spurninga um ofnýtingu og niðurbrots lands og mengunar áburðarefna út í grunnvatn, ár, stöðuvötn og innhöf. Þörungablómi á grunnsævi og í stöðuvötnum er t.d. vaxandi vandamál. Þá er ljóst að með mjög mikilli áburðarnotkun hættir landbúnaður að vera sjálfbær.

Annar vandi við aukna áburðar­framleiðslu er notkun jarð­efna­eldsneytis við framleiðsl­una með tilheyrandi losun gróður­húsa­lofttegunda. Nú er hins vegar farið að leggja meiri áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa við áburðarframleiðsluna.

Stóraukin vetnisframleiðsla gæti mögulega lækkað áburðarverð

Vandinn við áburðarframleiðsluna hefur verið að framboð efna sem til þarf hefur vart haldist í hendur við eftirspurnina. Á þessu er að verða töluverð breyting, m.a. með gríðarlegum áformum um aukna vetnisframleiðslu víða um heim sem er forsendan fyrir aukinni ammoníaksframleiðslu. Ástæðan fyrir auknum áherslum á vetnisframleiðslu er þó ekki síst hugmyndir um að stórauka notkun vetnis sem orkugjafa í þungaflutningum. Það ætti að geta leitt til lækkunar á áburðarverði þegar fram í sækir sem leiðir þá líklega til aukinnar notkunar.

Reyndar lækkaði verð á til­búnum áburði (NPK) á síðasta ári samkvæmt tölum Alþjóðabankans. Ástæðan var að verulegum hluta rakin til COVID-19 faraldursins og lækkunar á eldsneytisverði sem fór reyndar að hækka umtalsvert í árslok. Þá var faraldurinn líka talinn leiða til minni eftirspurnar eftir áburði og samdráttar í framleiðslu matvæla sem geti farið að ógna fæðuöryggi þjóða heims. Um leið er talað um matvælasóun þar sem um þriðjungur matvælaframleiðslu heimsins ýmist eyðileggst eða er hent. 

Lífræn framleiðsla eykst í löndum ESB
Fréttir 4. mars 2021

Lífræn framleiðsla eykst í löndum ESB

Frá árinu 2012 til 2019 var 46% aukning í landsvæði í löndum Evrópusambandsins s...

Bændasamtök Íslands boða til veffundar um mögulegar breytingar á félagskerfi landbúnaðarins
Fréttir 4. mars 2021

Bændasamtök Íslands boða til veffundar um mögulegar breytingar á félagskerfi landbúnaðarins

Stjórn Bændasamtaka Íslands (BÍ) býður bændum til veffundar fimmtudaginn 4. mars...

Orkídea er vettvangur nýsköpunar fyrir matvælaframleiðslu og líftækni
Fréttir 4. mars 2021

Orkídea er vettvangur nýsköpunar fyrir matvælaframleiðslu og líftækni

Síðasta sumar var undirritað samkomulag á milli Landsvirkjunar, Sambands sunnlen...

Góður árangur og bæting í ræktunarstarfinu á milli ára
Fréttir 3. mars 2021

Góður árangur og bæting í ræktunarstarfinu á milli ára

Ár hvert halda búgreinafélög í Austur-Húnavatnssýslu sam­eigin­lega árshátíð fyr...

Mýrdælingar mótmæla harðlega hugmyndum um bann við fýladrápi
Fréttir 3. mars 2021

Mýrdælingar mótmæla harðlega hugmyndum um bann við fýladrápi

Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps, er mjög ósáttur við frumvarp umhve...

Samkeppniseftirlit fær viðbótarfrest til að komast að niðurstöðu
Fréttir 3. mars 2021

Samkeppniseftirlit fær viðbótarfrest til að komast að niðurstöðu

„Frestur til rannsóknar málsins framlengist um allt að 35 virka daga, en á þessu...

Riðutilfelli staðfest í Húnaþingi vestra
Fréttir 2. mars 2021

Riðutilfelli staðfest í Húnaþingi vestra

Riðuveiki hefur verið staðfest á búi í Húnaþingi vestra í Vatnsneshólfi, samkvæm...

Mun minni samdráttur í sölu mjólkurvara en ætla mætti vegna fækkunar erlendra ferðamanna
Fréttir 2. mars 2021

Mun minni samdráttur í sölu mjólkurvara en ætla mætti vegna fækkunar erlendra ferðamanna

Sala á skyri frá MS dróst saman á síðasta ári og frá janúarlokum 2020 til janúar...