Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Saumur 12-915.
Saumur 12-915.
Fréttir 19. janúar 2015

Á bilinu 2.500 til 3.000 sæðisskammtar fóru í súginn

Höfundur: smh
Sæðistöku hjá sauðfjár­sæðingastöðvunum lauk á seinni helmingi desembermánaðar síðastliðanum. Líkt og árið 2013 eru þeir Saumur (12-915) og Bósi (08-901) afgerandi vinsælustu sæðingahrútarnir, með yfir 2.300 skammta hvor.
 
Að þessu sinni voru um 44.000 sæðisskammtar sendir út í desember, en það er svipaður fjöldi og var árið 2013. Að sögn Eyjólfs Ingva Bjarnasonar, ráðunauts í sauðfjárrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, voru flestir skammtar sendir út árið 2012 þegar fjöldi skammta var um 48.000. Meira var þó um pantanir á sæði en undanfarin ár. Ætlar Eyjólfur að sæddar ær á landinu þetta árið séu á bilinu 26–28 þúsund. 
 
Rysjótt veðurfar setti strik í reikninginn
 
Hann segir að nýting á útsendu sæði hafi verið talsvert lakari en undanfarin ár. „Það kemur til vegna þess hversu veðurfar var rysjótt; flugi var oft seinkað og víða hefur verið ófært landleiðina. Allt sæði sem er sent út er ferskt. Það skal helst nota innan við 12 tíma eftir sæðistöku en þó getur sæði sem geymt er við réttar aðstæður (kælt rólega niður í 10 °C og svo niður í 5 °C eftir sex klukkustundir) lifað í rúman sólarhring. Eftir því sem sæði verður eldra minnka þó gæði þess. Sæði er mjög viðkvæmt fyrir öllum hitasveiflum því þær geta drepið sæðisfrumurnar. 
 
Núna í desember var tíðarfarið mjög rysjótt, víða ófærð og flugi oft frestað. Sæðingastöðvarnar eru staðsettar í Borgarnesi og á Selfossi. Dreifing sæðis á Vestfirði, Norðausturland, Austurland og Suðausturland treystir mjög á flugsamgöngur þannig að sæðið komist á ákveðna staði þaðan sem því er svo deilt út landleiðina, en þar sem flugi var oft frestað, komst sæðið ekki á áfangastað á réttum tíma. Það dugar nefnilega ekki að það fari með næstu ferð á eftir. Á nærsvæði sæðingastöðvanna, Suðurlandi, Vesturlandi, Húnavatnssýslum og Skagafirði, er treyst á að landleiðin sé fær en Holtavörðuheiðin var til dæmis oft lokuð í desember og aðrar leiðir illfærar, svo sæðið komst ekki á áfangastað á réttum tíma. Forsvarsmenn sæðingastöðvanna telja að um 2.500–3.000 sæðisskammtar hafi farið í súginn vegna þessarar ófærðar.“
 
Eyjólfur segir að oft komi skrítinn svipur á starfsfólk flugvallanna þegar komið sé með þessa pakka í flug og lögð áhersla á að sendingin verði að komast á áfangastað því um lifandi farþega sé að ræða.
 
„Frysting á sæði hefur verið reynd og eru núna um 500 ær sæddar árlega með frystu sæði. Árangurinn af notkun þess hefur verið lakari og því kjósa bændur frekar að nota ferska sæðið. Eins er framleiðslan á frysta sæðinu mun dýrari og aðeins hægt að frysta sæði úr hrútum á hinum hefðbundna fengitíma; í nóvember, desember og fram í janúar. Utan þess tíma er ekki hægt að frysta sæði úr hrútum ólíkt því sem er til dæmis í nautgriparækt þar sem er hægt að frysta sæði úr nautum allt árið um kring.“
 
Frjósamar dætur og vel gerð afkvæmi
 
Eyjólfur segir að Bósi og Saumur hafi báðir komið á sæðingastöð sumarið 2013. 
„Bósi var valinn á stöð á grunni þess að þar væri á ferðinni hrútur sem gæfi dætur sem yrðu bæði frjósamar og góðar afurðaær. Hefur hátt kynbótamat fyrir þá eiginleika.  Sem lambafaðir eru afkvæmi hans væn og þroskamikil en gerð þeirra og fitumat breytilegt. Mér þykir líklegt að bændur séu því fyrst og fremst að sækja í að bæta þá eiginleika í sínum hjörðum með því að nota Bósa. 
 
Saumur var valinn á stöð sem mjög öflugur lambafaðir, afkvæmi hans voru virkilega vel gerð með mikinn vöðvamassa og litla fitu en það eru þeir eiginleikar sem bændur fá hæst verð greitt fyrir frá afurðastöðvunum. Á þeim grunni velja bændur hann til notkunar og kynbóta í sínum hjörðum. 
Báðir eiga þessir hrútar svo sameiginlegt að vera mjög góðir sæðisgjafar, en hrútar eru misgóðir sæðisgjafar,“ segir Eyjólfur um ástæður vinsælda þeirra og fjölda sæðisskammta sem þeir hafa skilað. 
 
Saumur og Bósi ættu að geta náð því að sæða 5.000 ær
 
Að sögn Eyjólfs hafa Saumur og Bósi, eftir tveggja ára notkun, sætt um 3.500 ær. „Til þessa eru vinsælustu hrútarnir Kveikur (05-965), Raftur (05-966) og Grábotni (06-833) en með hverjum þeirra voru sæddar meira en 6.000 ær þau ár sem þeir dvöldu á sæðingastöð. Grábotni, fjögur ár, Raftur og Kveikur fimm ár. Fyrir fáum árum var sett sú regla að hrútur skyldi felldur þegar sæddar hefðu verið 5.000 ær með viðkomandi hrút. Það er fátt því til fyrirstöðu að þeir ná þeim fjölda ef þeim endist aldur og heilsa til þess,“ segir Eyjólfur.
 
Þrír vinsælustu sæðingahrútarnir voru Saumur (12-915) frá Ytri-Skógum, Eyjafjöllum með 2.327 skammta, Bósi (08-901) frá Þóroddsstöðum, Hrútafirði með 2.324 skammta og Kölski (10-920) frá Svínafelli (Víðihlíð), Öræfasveit með 2.065 skammta. Af kollóttum hrútum var það Heydalur (09-929) frá Heydalsá sem var vinsælastur með 1.500 skammta. 

3 myndir:

Endurskipulagning og hagræðing í slátrun og kjötvinnslu
Fréttir 9. desember 2022

Endurskipulagning og hagræðing í slátrun og kjötvinnslu

Í Samráðsgátt stjórnvalda liggur til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á b...

Jólaskógarnir opnir á aðventunni
Fréttir 9. desember 2022

Jólaskógarnir opnir á aðventunni

Á aðventunni opna jólaskógar skógræktarfélaganna í landinu fyrir þeim sem vilja ...

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri
Fréttir 8. desember 2022

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri

Auðhumla hefur ráðið Jóhannes Hreiðar Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu svf.

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum
Fréttir 8. desember 2022

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum

Matvælastofnun hefur lagt stjórn­valdssekt á Arnarlax ehf. upp á 120 milljón kró...

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn
Fréttir 7. desember 2022

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn

Talsverðar breytingar urðu á stjórn samtakanna Slow Food Reykjavík á aðalfundi þ...

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti
Fréttir 7. desember 2022

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið HorseDay rekur samnefnt smáforrit um flest allt se...

Framleiðsla á krefjandi tímum
Fréttir 6. desember 2022

Framleiðsla á krefjandi tímum

Fyrir skemmstu komu tveir fulltrúar frá landbúnaðartækjaframleiðandanum Kuhn í h...

Samvinna möguleg
Fréttir 6. desember 2022

Samvinna möguleg

Á Matvælaþingi matvælaráðuneytisins í Hörpu 22. nóvember flutti gestafyrirlesari...