2.500 titlar eftir íslenska kvenrithöfunda
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Á Eyrarbakka er starfrækt Konubókastofa sem er varðveislu- og fræðslusafn og eini staðurinn á Íslandi þar sem hægt er að fræðast um íslenska kvenrithöfunda.
Núna eru um 2.500 titlar af bókum, tímaritum og ýmiss konar efni eftir konur í stofunni. „Við lánum ekki bækur út, ég einfaldlega tími því ekki því ég er svo hrædd um að þær skili sér ekki aftur. Hér er mikið af gersemum, t.d. er elsta bókin frá 1886 og er fyrsta handavinnubókin sem kom út á Íslandi. Margar konur hafa heillast af henni og finnst mjög gaman að skoða. Margar bækur eru áritaðar af höfundi. Við erum með Kvennablaðið sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir gaf út og margt fleira sem gaman er að skoða,“ segir Rannveig Anna Jónsdóttir eigandi Konubókastofunnar. Opið er tvo daga í viku yfir vetrartímann en í sumar er stefnt að því að hafa opið alla daga vikunnar. Hægt er að fræðast um Konubókastofuna á heimasíðunni www.konubokastofa.is