Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
„Mér leiddust heldur fjósverkin“
Viðtal 16. apríl 2014

„Mér leiddust heldur fjósverkin“

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Það er ekki sjálfgefið að fólk vinni allan sinn starfsferil hjá einum og sama vinnuveitandanum. Magnús Sigsteinsson, forstöðumaður Byggingaþjónustu Bændasamtaka Íslands, lætur senn af störfum, en hann hefur síðustu 46 ár unnið hjá Bændasamtökunum og þar áður forvera þeirra, Búnaðarfélagi Íslands. 
Magnús var ráðinn lands-ráðunautur í byggingum og bútækni hjá Búnaðarfélaginu árið 1968, strax að loknu háskólanámi sínu og hefur leiðbeint bændum varðandi hönnun landbúnaðarbygginga af ýmsu tagi allar götur síðan. Þá hefur hann um árabil verið skrifstofustjóri Búnaðarþings auk þess að sinna ýmsum verkefnum fyrir Bændasamtökin. 
 
Alla tíð búið á Blikastöðum
 
Magnús, sem lætur nú af störfum fyrir aldurs sakir, er fæddur í Reykjavík árið 1944, sonur hjónanna Helgu Magnúsdóttur og Sigsteins Pálssonar. Þau Helga og Sigsteinn bjuggu á Blikastöðum í Mosfellssveit en jörðina hafði móðurafi Magnúsar, Þ. Magnús Þorláksson keypt árið 1908 og ásamt konu sinni, Kristínu Jósafatsdóttur breytt kotinu sem þá var í stórbýli með miklum dugnaði. Þau Helga og Sigsteinn byggðu jörðina áfram upp og var þar rekið eitt stærsta kúabú landsins, með á milli 50 og 60 mjólkandi kúm þar til árið 1973. Magnús er kvæntur Mörtu G. Sigurðardóttur og eiga þau fjögur uppkomin börn. Þau hjón byggðu sér hús í Blikastaðalandi og fluttu í það árið 1972 og hafa búið þar allar götur síðan. 
 
Var með traktoradellu
 
Magnús tók þátt í hefðbundnum sveitastörfum á Blikastöðum og vann við búskapinn á sumrin eftir að hann hóf skólagöngu. 
„Sem smápatti var ég látinn stjórna rakstrarvél sem hesti var beitt fyrir. Ég náði því hins vegar ekki að slá tún með hestasláttuvél því þegar ég var 7 ára gamall var hætt að slá með hestasláttuvélinni og keyptur traktor, Massey Harris Pony með sláttuvél. Brátt fjölgaði traktorum og vinnutækjum við þá á búinu og leystu dráttarhestana og hestaverkfærin af hólmi. Á mínum uppvaxtarárum var því mitt aðalstarf á sumrin að vinna hin ýmsu bústörf með traktor og heyvinnuvélum. Í þá daga voru duglegir krakkar oft látin vinna á vélum strax og þeir náðu niður á kúplinguna og bremsuna úr ekilssætinu. Mér þótti þessi vélavinna skemmtileg, var með traktoradellu og síðan bíladellu, því á Blikastöðum var bæði til jeppi og vörubíll sem ég var oft látinn keyra sem unglingur, að sjálfsögðu sjaldan út á Vesturlandsveginn próflaus heldur aðeins innan bújarðarinnar.“
 
Ekki stóð til að verða bóndi
 
Magnús segir að þó hann hafi tekið virkan þátt í búskapnum hafi aldrei staðið til að hann yrði bóndi og tæki við búskap á Blikastöðum. 
„Við vorum sammála um það við pabbi að það væri ekki framtíð í því að halda áfram að reka kúabú á Blikastöðum, svona nálægt Reykjavík. Svo var nú kannski það að mér leiddust heldur fjósaverkin, ég hafði miklu meira gaman að útivinnu, tækjavinnunni.“
 
Fékk meðmæli frá búnaðarmálastjóra til náms
 
Magnús gekk í barna- og unglingaskóla á Brúarlandi í Mosfellssveit. Hann tók landspróf í gagnfræðaskólanum í Vonarstræti í Reykjavík og innritaðist síðan í Menntaskólinn í Reykjavík þaðan sem hann lauk stúdentsprófi árið 1964. Magnús hélt síðan til náms í Noregi þar sem hann nam einn vetur í Bændaskólanum á Öxnavaði á Jaðri, skammt frá Stafangri. Þaðan útskrifaðist hann sem búfræðingur árið 1965 og haustið eftir hóf hann nám í landbúnaðartæknifræði við Landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi. Þaðan útskrifast Magnús með cand agric gráðu af tæknilínu í ágúst 1968.
 
„Ég vissi ekki nákvæmlega hver framtíðin yrði hjá mér. Þegar ég sótti um inngöngu í Landbúnaðarháskólann á Ási þurfti meðmæli frá Búnaðarfélagi Íslands en þar á milli var samningur um að einn Íslendingur gæti haldið þangað til náms hvert ár. Þegar ég var á síðasta ári í menntaskóla var ég orðinn ákveðinn í að mig langaði að læra landbúnaðarnám, með áherslu á tæknigreinarnar, bæði vélar og byggingar. Ég fór því og talaði við Halldór Pálsson, sem þá var búnaðarmálastjóri, og honum leist vel á mínar hugmyndir. Ég fékk því meðmæli frá Búnaðarfélaginu og í framhaldi af því var ákveðið að ég héldi til náms í bændaskóla. Að bændaskólinn á Öxnavaði skyldi verða fyrir valinu var ekki síst fyrir áhrif Árna G. Eylands sem taldi að það yrði gott fyrir mig að fara þangað, ekki síst til að ná góðum tökum á norskunni áður en ég byrjaði í háskólanáminu. Þetta gekk eftir, ég tók búfræðinginn á einum vetri en venjulega var námið tveir vetur. Það var vissulega strembið en gekk allt. Ég fékk svo inngöngu í skólann á Ási og var þar í þrjú afar ánægjuleg ár.“
 
Gaman að hanna stórbyggingar
 
„Þegar ég útskrifaðist frá Ási þá sagði Halldór Pálsson að það vantaði mann til að ráðleggja um byggingar og bútækni. Ég var því ráðinn sem landsráðunautur í byggingum og bútækni hjá Búnaðarfélaginu en sú staða hafði ekki verið til áður. Þetta starf var nú eiginlega það besta sem ég gat hugsað mér út frá minni menntun og áhuga. Þetta var mikil upphefð. Megináhersla var lögð á leiðbeiningar um byggingar, vinnuhagræðingu og aðbúnað. Árið 1990 setti Búnaðarfélagið á fót teiknistofu fyrir bændur en það ár var Byggingarstofnun landbúnaðarins, sem rekin var af Stofnlánadeildinni, lögð niður. Ég var frá upphafi ráðinn forstöðumaður þessarar teiknistofu og hef starfað síðan við ráðgjöf, hönnun og teikningu landbúnaðarbygginga af ýmsu tagi. Það hefur verið gríðarlega gaman að takast á við hönnun á ýmsum stærri verkefnum. Það fyrsta sem ég hannaði af slíkum stærri byggingum er líklega tilraunafjósið á Möðruvöllum, síðan tilraunafjósið á Stóra-Ármóti, fjósið á Hvanneyri og síðan Nautastöðin á Hesti. Allt voru þetta stórbyggingar sem var gaman að hanna og teikna.“
 
Um 1.100 verk á 24 árum
 
Magnús segir að hann viti ekki hversu mörg gripahús hann hefur hannað og teiknað í gegnum tíðina. 
„Þau eru rosalega mörg, bæði fjós, fjárhús, svínahús og hesthús. Verknúmerin alls hjá teiknistofu Byggingarstofnunarinnar, frá því að hún var stofnsett árið 1990, eru rúmlega ellefuhundruð. Það eru allt frá einföldum vélageymslum og upp í hátæknifjós, bæði viðbyggingar og nýbyggingar. Ég hef verið svo heppinn að hafa með mér góða samstarfsfélaga þessi ár. Sigurður Sigvaldason verkfræðingur starfaði með mér fyrstu árin sem burðarvirkishönnuður, síðan Davíð Arnljótsson, Sigurður Björnsson og nú síðast Sæmundur Óskarsson.“
 
Mikilvæg þjónusta fyrir bændur
 
Sú þjónusta sem Byggingaþjónustan hefur boðið bændum upp á hefur skipt miklu máli í íslenskum landbúnaði að mati Magnúsar.
„Ég tel að þetta hafi verið gríðarlega mikilvæg þjónusta fyrir íslenska bændur. Það er nú einu sinni þannig að þegar menn ákveða að byggja upp fyrir framtíðar búrekstur eru þeir að leggja í gríðarlega mikla fjárfestingu og því afar mikilvægt að vel takist til. Við höfum alla tíð haft yfir að ráða mikilli þekkingu og miklum upplýsingum um landbúnaðarbyggingar, tækni í húsum og samspil þar á milli auk vinnuhagræðingar og aðbúnað gripa. Það hefur að mínu mati verið mjög mikilvægt fyrir bændur að geta sótt þessa þekkingu til okkar og fengið hér allar teikningar á einum stað.“
 
Framkvæmdir sem skiluðu bullandi mínus
 
All nokkuð dró úr eftirspurn eftir þjónustu byggingaþjónustunnar eftir efnahagshrunið. Árin þar á undan hafi hins vegar verið gífurlega mikið að gera.
„Eftirspurnin minnkaði töluvert eftir bankahrunið en á árunum 2002 og fram til ársins 2007 var gríðarleg eftirspurn eftir okkar þjónustu. Á þeim tíma var ekkert vandamál fyrir bændur að fá lán til framkvæmda, þeir voru nánast eltir uppi og spurðir hversu mikið þeir vildu fá. Síðan tóku bankastofnanir bara veð í jörðunum. Framkvæmdir voru því kannski sumar hverjar ekki byggðar á nægilega öruggum rekstraráætlunum. Það er hins vegar afar mikilvægt þegar menn ætla að fjárfesta í búskap að menn greini reksturinn til framtíðar rækilega. Hvernig á að standa undir fjárfestingunni, skilar hún arði eða mun dæmið bara koma út í bullandi mínus? Sums staðar var það því miður þannig.“
 
Ráðgjöf reyndist heilladrjúg
 
Þegar Magnús fór í heimsóknir til bænda sem voru að hugsa um framkvæmdir á þessum tíma fékk hann iðulega héraðsráðunauta til að koma með sér í slíkar heimsóknir. 
„Þeir þekktu betur aðstæður bændanna og komu inn í málið á forstiginu og við gátum leiðbeint mönnum. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að það hafi í einhverjum tilfellum komið í veg fyrir að bændur reistu sér hurðarás um öxl í framkvæmdum. Þessir ráðunautar höfðu flestir starfað um árabil á svæðinu, þekktu bændur, þeirra búskap og getu þeirra til að standa undir fjárfestingum. Það var hlustað á okkur þegar við komum í þessar ferðir og ég tel að í mörgum tilfellum hafi okkar ráðgjöf reynst bændum heilladrjúg að þessu leyti.“
 
Verður ekki verklaus
 
Þrátt fyrir að Magnús hætti nú störfum hjá Bændasamtökunum segir hann það fjarri lagi að hann verði verklaus. Hann og Marta keyptu árið 2001 jörðina Neistastaði í Flóahreppi og hafa þau stundað skógrækt þar af miklum móð í samstarfi við Suðurlandsskóga auk þess að vera með góða aðstöðu fyrir hross en Magnús er hestamaður mikill. Þau hjón byggðu sér þar fallegt bjálkahús og segist Magnús eiga von á því að dvelja enn meira á Neistastöðum nú eftir að hann lætur af starfi. Þá gefist meiri tími fyrir hestaferðir og skíðamennsku en þau hjón eru skíðafólk gott og hafa gjarnan farið í skíðaferðir í Alpana að vetrum. 
„Það má svo vel vera að ég reyni að fara að sveifla golfkylfu. Ég hef aðeins gert það og hef gaman að og sérstaklega hefur konan gaman að því. Það kemur því sterklega til greina að ég reyni að mennta mig meira í því svo ég fari að geta eitthvað enda er aðstaða til golfiðkunar í Mosfellsbæ geysilega góð með tvo golfvelli við bæjardyrnar.“
 
Þó Magnús hætti nú störfum segir hann vel koma til greina að taka að sér teikniverkefni fyrir bændur ef eftirspurn væri eftir því, þá gjarnan í samstarfi við Byggingaþjónustuna. 
„Ég gæti vel hugsað mér það. Þessi tími sem ég hef starfað við þetta er búinn að vera afskaplega góður og skemmtilegur.“

5 myndir:

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...