Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Ég hef lagt niður vopnin“
Mynd / Páll Imsland
Fréttir 13. maí 2022

„Ég hef lagt niður vopnin“

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Sigríður Jónsdóttir bóndi og fjölskyldan í Arnarholti í Biskups­tungum ætla að hætta að halda blóðmerar.

Sigríður hefur farið fyrir hags­muna­gæslu hrossabænda sem halda stóðmerar og setið í samninganefnd bænda við fulltrúa líftæknifélagsins Ísteka ehf. Samningafundir við fyrirtækið hafa engan árangur borið að hennar sögn.

Sigríður Jónsdóttir, bóndi í Arnarholti.

„Ég met það svo núna að það sé fyrir bestu að hætta, fyrir margra hluta sakir. Fyrst og fremst er afkoman af starfseminni engin, bara kostnaður. Verðið sem Ísteka setur upp núna felur ekki í sér neinar verðhækkanir, einungis tilhliðranir. Verðið sem þeir bjóða borgar með naumindum útlagðan kostnað á heyi fyrir merarnar. Bændur fá ekkert upp í fastan kostnað og engin laun. Þetta er bara ekki hægt, því miður,“ segir Sigríður.

Hún segir það afar þungbæra ákvörðun að fella hrossin sín en sjái ekkert annað í stöðunni. „Við munum ekki hleypa til meranna í vor. Þær fá að ala folöldin sín upp í sumar. Svo erum við búin að panta fyrir helming þeirra í sláturhús í haust. Nokkrar eru í eigu annarra sem við munum skila og nokkrar ætlum við að eiga upp á litafjölbreytni og ef til vill annað. Framtíðin mun leiða í ljós hvað verður.“

Þá segir hún gott að halda hross á beit á landi svo það leggist ekki í órækt. „Grasgefið land virkar betur af sér ef það er beitt. Hrossin hreinsa í burt sinu og halda grasinu í vexti. Áður en við hófum blóðmerabúskap fyrir þremur árum þá sótti féð okkar í nágrannabæinn, á þau stykki þar sem hross eru. Í dag hefur þróunin snúist við. Féð okkar er hætt að flýja að heiman og féð af hinum bænum sækir til okkar. Það segir okkur að beitin er orðin betri. Við getum ekki haldið úti hrossastóði til þess eins að hafa gott land til beitar fyrir féð. En það er svo margt sem virkar betur þegar hlutum er blandað saman.“

Hvetur Samkeppniseftirlitið til að rannsaka Ísteka

„Ég hef lagt niður vopnin. Ef ég berðist áfram fyrir framtíð blóðmerabúskapar á Íslandi, væri ég bara að berjast fyrir Ísteka. Það fyrirtæki hefur ákveðið að bændur fái minna en ekkert í sinn hlut. Fyrirtækið ætlar sér að halda áfram að féfletta stóðbændur en Ísteka hefur rakað til sín gríðarlegum gróða hvert einasta ár í sinni 20 ára sögu. Árið 2002 fengu tveir eða þrír einstaklingar þessa starfsemi afhenta frá ríkinu. Það má kalla vel heppnaða einkavinavæðingu af íslensku gerðinni. Afleiðingarnar eru þessar:

Bændur sitja eftir í sárum. Heiður þeirra og fjárhagur er í rúst og ekkert fram undan annað en hrun. Þeir sem fengu fyrirtækið afhent á sínum tíma eru nú vellauðugir. Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið sé á tröppunum hjá þeim, bæta þeir enn í fólskuleg samkeppnislagabrot sín gagnvart bændum. Annaðhvort eru eigendur Ísteka blindir og heyrnarlausir á eigin hegðun eða þeir eru vissir um að yfirvöld líti til þeirra með velþóknun og að þeir muni komast upp með þetta. Ég skora á Samkeppniseftirlitið að láta verða af því að taka starfsemi Ísteka til raunverulegrar athugunar. Satt best að segja held ég að skattrannsóknarstjóri ætti að gera það líka,“ segir Sigríður Jónsdóttir, bóndi í Arnarholti. 

Skylt efni: blóðmerar

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.