Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Minkafitan orðin að verðmætum heilsuvörum
Mynd / Gunnhildur Gísladóttir
Líf&Starf 16. nóvember 2016

Minkafitan orðin að verðmætum heilsuvörum

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Á bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði er stunduð umfangsmikil loðdýrarækt ásamt öðrum búskap.
 
Flestir hafa þá mynd af loðdýrabúskapnum að þar séu aðallega unnin loðskinn sem seld eru utan landsteinanna. Bændurnir á Syðra-Skörðugili, þau Einar E. Einarsson og Sólborg Una Pálsdóttir, hafa hins vegar gengið lengra og hafið framleiðslu á smyrslum undir vöruheitinu „Gandur“. Um er að ræða smyrsl fyrir mannfólkið, leðurfeiti og græðandi smyrsl fyrir hross eða önnur dýr. Fyrirtækið heitir Urðarköttur en að því standa ábúendurnir á Syðra-Skörðugili. 
 
Einar E. Einarsson, bóndi og fyrrverandi ráðunautur í loðdýrarækt, er einn aðstandenda Urðarkattar ehf. en hann segir að hugmyndin hafi byrjað smátt en síðan undið upp á sig.
 
„Móðir mín byrjaði að prófa að bræða fitu á eldavélinni og setja á dósir. Þessar dósir fóru síðan í notkun á bæði múkk í hestum og hjá fólki sem var með húðvandamál og vildi prófa. Góð viðbrögð og afrakstur af því varð hvatning að næstu skrefum,“ segir Einar.  
 
Minkaolían sjálf, sem er grunnurinn að vörunum, er unnin úr fitu sem fellur til sem aukaafurð við skinnaframleiðsluna, það er að segja við verkun skinnanna. Einar segir að menn hafi lengi vitað um jákvæð áhrif minkaolíunnar á húð en þau hafi viljað kynna fyrir fólki einstaka eiginleika hennar. „Við vinnum eftir þeirri hugsjón að dýrin okkar þurfi jafn góðar vörur og mannfólkið og sömu gæðakröfur eru gerðar til smyrsla fyrir dýr og mannfólk.“ 
 
Umhverfisvænar náttúruvörur
 
Þetta eru mjög umhverfisvænar náttúruvörur þar sem grunnhráefnið er minkaolía en hún hefur mjög hátt hlutfall af ómega þrjú, sex og níu fitusýrum. Einar segir að olían sé afskaplega mjúk og smjúgi vel inn í húðina án þess þó að skilja eftir sig fitukennda áferð á yfirborði. „Jurtirnar sem við notum í smyrslin eru þekktar fyrir lækningaeiginleika sína og hafa verið nýttar bæði hérlendis og erlendis til lækninga og heilsubóta í mörg hundruð ár,“ segir hann. 
 
 
Fjölþætt samstarf skilaði árangri
 
Urðarköttur hefur notið þess að fá þróunarstyrki frá ýmsum aðilum. „Við fengum tveggja ára styrk frá Tækniþróunarsjóði á sínum tíma og fleiri aðilum eins og Vaxtarsamningi Norðurlands vestra, Impru og Framleiðnisjóði. Á grundvelli þessara styrkja fórum við í samstarf við Matís um þróun á vinnslu bæði jurtanna og fitunnar en þetta samstarf skilaði okkur miklum árangri,“ segir Einar. Hann bætir því við að þau hafi einnig verið í samstarfi við Listaskólann á Akureyri um hönnun á kennimerki Gands. 
 
Smyrsl fyrir menn 
 
„Í dag erum við með tvær gerðir smyrsla á markaði fyrir fólk en það eru Sárabót og Hælabót. Sárabót er nærandi og mýkjandi húðsmyrsl ætlað á sár, þurrkbletti og viðkvæma húð. Hælabótin er aftur á móti fótasmyrsl sem við þróuðum í samvinnu við Fótaaðgerðastofuna Táin á Sauðárkróki en það er sérstaklega ætlað á þurra hæla og þurra húð á fótum.  Við vinnum sjálf bæði olíuna og jurtirnar en Pharmarctica á Grenivík setur smyrslin á túbur,“ segir Einar. Umboðsaðili Urðarkattar fyrir Sárabót og Hælabót er fyrirtækið Icecare sem sér um dreifingu og markaðssetningu í apótek og heilsuvöruverslanir en í dag má kaupa þau smyrsl í flestum apótekum landsins og mörgum öðrum verslunum.
 
Smyrsl fyrir dýr
 
Húðsmyrslið er fjölnota smyrsl og nýtist bæði mönnum og dýrum að sögn Einars. „Við höfum hins vegar mest markaðssett það gagnvart hestamönnum en mjög góð reynsla er komin á það við að græða múkk í hestum eða slysa- og bitsár. Kúabændur nota það líka á spenasár eða önnur sár. Í öllum smyrslunum er sama olían en mismunandi tegundir af jurtum og ilmefnum greinir þau í sundur,“ segir Einar. 
 
Leðurfeiti
 
„Leðurfeitina framleiðum við í tveimur stærðum, 300 og 500 ml dósum, en þar er minkaolían aðaluppistaðan. Leðurfeitin er ætluð á reiðtygi, gönguskó eða aðrar leðurvörur. Minkaolían fer vel inn í leðrið þannig að t.d. gönguskór eða reiðtygi verða vel vatnsvarin en mjúk á sama tíma. Leðurfeitin hefur fengið mjög góðar viðtökur en bæði hana og smyrsl fyrir hestana er nú hægt að kaupa í öllum helstu búvöru- og hestavöruverslunum um land allt.“
 
Útflutningur hafinn
 
Að sögn Einars er fyrirtækið farið að flytja framleiðsluvörurnar á erlenda markaði en húðsmyrslið fyrir hesta er komið í sænskar og danskar verslanir. „Umbúðirnar eru merktar á sænsku og dönsku og við höfum líka gert bæklinga og heimasíðu á sömu tungumálum. Við höfum verið í samvinnu við bæði dýralækna og hrossaræktendur í Svíþjóð og Danmörku sem hafa getað prófað húðsmyrslið fyrir okkur við mismunandi aðstæður. Það sem hefur komið mest á óvart í því ferli er hversu vel smyrslið reynist við sumarexemi á hestum en það vandamál herjar á hluta íslenskra hesta sem eru erlendis. Í framtíðinni er samt ekki ætlunin að einblína eingöngu á eigendur íslenskra hesta því allir glíma við einhvers konar sár og vandamál sem þeir vilja gjarnan leysa með græðandi smyrsli sem inniheldur hrein náttúruefni og enginn paraben- eða pensilín-efni,“ segir Einar. 
 
Viðbrögðin góð
 
Einar segir að viðbrögð kaupenda við vörunum séu góð. „Það má segja að þessi viðbrögð sé það sem fyrst og fremst hefur hvatt okkur áfram í þessu fjölskylduverkefni hér á Syðra-Skörðugili. Á sýningum, eins og t.d. á Handverkshátíðinni á Hrafnagili og atvinnulífssýningum sem við höfum mætt á, hittir maður marga og fær reynslusögur beint í æð frá fólki. Notkunin hjá fólki er fjölbreytt en stutta lýsingin er að fólk með þrálát húðvandamál af ýmsum gerðum eða með þurra húð notar vörurnar mest og er ánægðast.“
 
Fleiri vörur á hugmyndastigi
 
„Við tökum eitt skref í einu en það hafa komið fram hugmyndir um fleiri vörur fyrir bæði menn og dýr.  Við erum að skoða ýmislegt og vonandi koma frá okkur á einhverjum tímapunkti fleiri vöruflokkar þar sem eiginleikar minkaolíunnar fá notið sín,“ segir Einar E. Einarsson á Syðra-Skörðugili að lokum.  
Ítarlegri upplýsingar um vörurnar frá Syðra-Skörðugili er hægt að finna á heimasíðunni www.gandur.is 

7 myndir:

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...