Sumarsýning og opnun Jennýjarstofu
Mynd / Aðsendar
Menning 24. maí 2023

Sumarsýning og opnun Jennýjarstofu

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Lögð er áhersla á ferskar hugmyndir og vandað handverk, glerblástur, útsaum, silfursmíði, keramik, ljósmyndun, dúkþrykk og margvíslega unnin viðarverk á nýjum sýningum í Safnasafninu á Svalbarðseyri.

Jenný Karlsdóttir við faldbúning, elstu gerð íslenskra faldbúninga.

Þar eru verk eftir fimmtán listamenn og nemendur í leikskólanum Álfaborg og Valsárskóla.

„Minnst er þriggja látinna myndlistarmanna sem lífið fór hörðum höndum um og eru sýningar þeirra hannaðar undir kjörorðunum Skapað úr safnkosti. Þá er skoðað hvernig myndtjáning getur hjálpað til við að losna undan sjálfskaða og loka hann inni í skáp. En þrátt fyrir alvarleika inngildingar og alþjóðlegra markmiða eru sýningar safnsins bjartar og litríkar og höfða til allra skilningarvita, ekki síst barna og unglinga sem taka þátt í starfi þess og gleðja gesti með hugmyndum sínum um fjölskyldu og vini,“ segir í tilkynningu frá safninu.

Á hlaðinu eru verk eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Eggert Magnússon, Hauk Halldórsson, Helga Valdimarsson og Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi og á bílastæði Safnvörðurinn frægi eftir Huglistarhópinn. Í anddyri og blómaskála er sýningin Fjölskylda og vinir með verkum eftir Guðjón R. Sigurðsson frá Fagurhólsmýri, Helga Þórsson og nemendur í Valsárskóla á Svalbarðsströnd og börn í Leikskólanum Álfaborg. Við sólpall að vestan er tréskúlptúrinn Bæn eftir Hjalta Skagfjörð Jósefsson.

B. Sóley Pétursdóttir við verk sín.

Í Brúðustofu eru sem endranær brúður til sýnis frá öllum heimshornum, og sérsýning í skáp með verkum eftir B. Sóley Pétursdóttur sem ber titilinn Þöggun – aldrei aftur.

Í miðrými er minningarsýning með verkum Pálma Kristins Arngrímssonar (1930–2015) og í vestursal er sýning sem ber titilinn Í björtum sal, með raðir málverka eftir Hjálmar Stefánsson (1913–1989) frá Smyrlabergi. Í Austursal er önnur minningarsýning með verkum eftir lífskúnstnerinn Nonna Ragnars (1951–2019).

Safnið fékk að gjöf 2.500 skráð textílverk sem Jenný Karlsdóttir hefur safnað og fara þau í sérstaka stofu henni til heiðurs. Þau verða aðgengileg á vefsíðu með haustinu en þangað til verða útsaumsverk úr safni hennar á sýningunni Heimilisprýði, einnig útsaumsverk og plattar eftir Sísí Ingólfsdóttur. Opnun Stofu Jennýjar Karlsdóttur, eða Jennýjarstofu, í Safnasafninu fór fram samhliða opnun sumarsýningarinnar.

„Jenný Karlsdóttir hefur viðað að sér þekkingu á handverki alla tíð. Hún safnaði handverki og munstrum í áratugi. Safnið hennar er einstaklega fjölbreytt og vandað, þ.m.t. vandaður faldbúningur,“ segir í tilkynningu.

Í Langasal eru sýnd verk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur, í Norðursölum sýna Klemens Hannigan og saman þær Anna Hallin og Olga Bergmann, og hjónin Guðmundur Ármann og Hildur María Hansdóttir.

„Við megum ekki gleyma því að handverkið er sá menningararfur sem gerði okkur kleift að lifa af harðindi, hungur og drepsóttir. Mér finnst virkilega gaman að fá tækifæri til að taka þátt í að koma á framfæri þessum hluta sögu okkar sem konur hafa skapað og lofa honum að skína til að vera metin að nýju fyrir eljuna, vandvirknina og listina sem handverkið er. Það sem var er grundvöllur að því sem er,“ er haft eftir Jennýju Karlsdóttur í tilkynningunni.

Í bókastofunni eru í ár sýnd verk Stefáns Tryggva- og Sigríðarsonar sem öll eiga það sameiginlegt að vera unnin í við, en með ólíkum hætti. Verk þessa fjölhæfa manns bera merki um þolinmæði, yfirlegu og natni.

Safnasafnið er opið daglega frá kl. 10–17 út sumarið, eða til 10. september.

Skylt efni: söfnin í landinu

Snjór í sauðburði
Líf og starf 29. maí 2023

Snjór í sauðburði

Tíðarfarið í maí hefur ekki verið hagstætt fyrir sauðburð. Kalt var í veðri og v...

Skaði asparglytta myndaður með dróna
Líf og starf 29. maí 2023

Skaði asparglytta myndaður með dróna

Rannsóknarsvið Skógræktarinnar á Mógilsá verður með spennandi verkefni í sumar, ...

Vakta gróður og jarðveg
Líf og starf 26. maí 2023

Vakta gróður og jarðveg

Landgræðslan stóð fyrir opnum kynningar- og samráðsfundi um verkefnið GróLind í ...

Fundarhamar úr peruvið
Líf og starf 25. maí 2023

Fundarhamar úr peruvið

Fallegt íslenskt handverk var í lykilhlutverki á lokaathöfn leiðtogafundar Evróp...

Puttalingar eru snakkpylsur úr ærkjöti
Líf og starf 24. maí 2023

Puttalingar eru snakkpylsur úr ærkjöti

Fyrir rúmu ári var veflæga markaðstorgið Matland (matland. is) opnað matgæðingum...

Fjárfestingarátak fyrir ung og lítt þróuð félög
Líf og starf 24. maí 2023

Fjárfestingarátak fyrir ung og lítt þróuð félög

Nýsköpunarsjóður hefur hafið fjárfestingarátak fyrir félög sem komin eru skammt ...

Breskur vélaiðnaður sem lifir enn
Líf og starf 24. maí 2023

Breskur vélaiðnaður sem lifir enn

Bændablaðinu var boðið að skoða höfuðstöðvar JCB í Staffordskíri á Englandi. JCB...

Gamla kirkjan nýtt sem svíta
Líf og starf 24. maí 2023

Gamla kirkjan nýtt sem svíta

Mánudaginn 15. maí opnaði Hótel Blönduós dyr sínar á nýjan leik eftir gagngerar ...