Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Það er oft fallegt umlits á hafinu.
Það er oft fallegt umlits á hafinu.
Mynd / Þröstur Njálsson
Líf og starf 28. september 2023

„Þar kalla menn ekki allt ömmu sína“

Höfundur: Þorvaldur B Arnarson

Þröstur Njálsson er fyrrverandi togarasjómaður sem snapaði sér sína fyrstu veiðiferð upp úr aldamótum til að ná endum Visareiknings saman eftir skemmtiferð til Spánar.

Þröstur Njálsson í fullum herklæðum.

„Mín sjómennska hófst árið 2001. Ég var þá tiltölulega nýkominn heim frá Costa Del Sol og stóð uppi með Visa-reikning sem ég hafði svo sem ekki endilega efni á nákvæmlega þá,“ segir Þröstur. Hann afréð því að falast eftir veiðiferð á frystitogara og hafði erindi sem erfiði þegar honum lánaðist að tryggja sér afleysingapláss á Venus Hf-19.

Skipið var á þeim tíma gert út frá Hafnarfirði og laut skipstjórn hins goðsagnakennda skipstjóra og netagerðarmeistara, Guðmundar Jónssonar.

„Ég kunni vel við mig á sjó. Sjómennskan í heild sinni átti vel við mig, en það sem alltaf stóð upp úr fyrir mér var mannskapurinn. Þetta voru, heilt yfir, harðduglegir og almennilegir karlar,“ segir Þröstur.

Sjómenn við störf á dekki.

Á Venus sigldi hann um höfin blá í 13 ár, og kunni þá sjómennsku upp á hár. Eftir að skipið var á endanum selt, hélt Þröstur yfir á ísfiskarann Ásbjörn Re-50.

„Ég get bara orðað það með þeim hætti fyrir þig að þar á bæ kalla menn ekki allt ömmu sína. Þetta var hörkustarf og hörkuáhöfn, og vafalaust ekki fyrir hvern sem er að klára sig af á þeim bæ,“ segir hann.

„Þar réri ég í 5 ár en bauðst svo pláss á glænýju fjölveiðiskipi, Engey Re-1. Þar opnaðist bara hreinlega annar heimur enda er ég kominn þar á gríðarstórt skip þar sem allt er sjálfvirkt í vinnslunni, sem er allt annað en ég hafði átt að venjast frá Ásbirninum,“ segir Þröstur.

Á sjó er unnið nótt sem nýtan dag.

Eftir að Engey var seld færði Þröstur sig yfir á Helgu Maríu, þar sem hann starfaði allt fram til 12. desember 2022, en þá lauk hann sínum sjómannsferli.

Að sögn Þrastar eru fjarverurnar hvað mest krefjandi þáttur sjómannslífsins. „Og brælurnar. Þær eru oft ekkert lamb að leika sér við,“ segir hann og meðfylgjandi mynd ber svo sannarlega vitni um að svo er alls ekki. Aðspurður að því hvort eitthvað standi sérstaklega upp úr í minningunni að sjómannsferlinum loknum nefnir Þröstur rannsóknarferð til Grænlands.

„Þar var sjólagið allt öðruvísi en ég hafði áður átt að venjast. Eins má nefna ísjakana; þeir eru þarna á víð og dreif og setja gríðarlegan svip á landslagið, sem er nú ekki alltaf mjög fjölbreytt til sjós eins og gefur að skilja,“segir hann.

Inntur eftir því hvort hann myndi ráðleggja börnum sínum að gerast sjómenn er svarið einfalt.

„Nei. Ég myndi ekki gera það,“ segir hann.

Raðað í kör í lestinni á Ásbirni. Eins og sjá má er plássið af skornum skammti.

Skylt efni: Nytjar hafsins

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...