Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri kjötvinnslu SS á Hvolsvelli, með Olgu Mörk Valsdóttur framleiðslustjóra, sem hefur unnið í 21 ár hjá SS, og Oddi Árnasyni fagmálastjóra, sem hefur starfað í að verða 35 ár hjá félaginu.
Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri kjötvinnslu SS á Hvolsvelli, með Olgu Mörk Valsdóttur framleiðslustjóra, sem hefur unnið í 21 ár hjá SS, og Oddi Árnasyni fagmálastjóra, sem hefur starfað í að verða 35 ár hjá félaginu.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf og starf 20. maí 2021

Starfsemin gengur glimrandi vel

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Ég hóf störf hjá félaginu 10. janúar 1994 og fór þá að læra kjötiðn. Ég er nú fæddur og uppalinn á Selfossi og vann hjá þeim góða manni Ingólfi Bárðarsyni í kjötvinnslu KÁ í tvö sumur og þá kviknaði einhver áhugi á faginu en það var ekki pláss fyrir nema á þeim tíma hjá honum þannig að það varð úr að ég fór austur á Hvolsvöll að læra.

Ég hef búið á Hvolsvelli nær allan tímann síðan þá. Ég tel að það hafi verið mjög mikil lukka fyrir mig persónulega að hafa flutt austur og hafa kynnst öllu því góða fólki sem ég þekki í dag. Ég er líklega orðinn meiri Rangæingur en Árnesingur eftir þessi ár á Hvolsvelli.

Því hefur stundum verið hent fram að Hvolsvöllur sé nafli alheimsins og ég held að það sé bara nokkuð til í því,“ segir Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri kjötvinnslu SS á Hvolsvelli, þegar hann er spurður hvenær hann hóf störf hjá félaginu og hvað kom til.
1.maí síðastliðinn voru 30 ár frá því að kjötvinnslan hóf starfsemi á Hvolsvelli en ekki var hægt að halda upp á tímamótin með opnu húsi eða slíku vegna Covid 19. Blaðamaður settist niður með Benedikt til að forvitnast um starfsemina á Hvolsvelli.

Hér er verið að pakka SS vínarpylsunum, sumar fara í 10 pylsu pakkningar á meðan aðrar fara fimm saman í pakkningu.

Áttu fullkomið sláturhús á Hvolsvelli

Þegar talið berst að því af hverju sláturfélagið ákvað að setja sig niður á Hvolsvelli en ekki á Hellu eða Þykkvabænum er Benedikt með svarið á reiðum höndum. Já, SS átti á þessum tíma fullkomið sláturhús á Hvolsvelli og menn sáu möguleika á að breyta því í kjötvinnslu sem var og gert. Þarna höfðu þeir menn áræði, sem komu að málinu og voru framsýnir þrátt fyrir mjög ótrúlega þrönga stöðu sem SS var í á þeim tíma. Þessi ákvörðun var gríðarlega happadrjúg, bæði fyrir SS og ekki síður fyrir sveitarfélagið. Það er margt fólk sem fær atvinnu hjá okkur og auk þess mörg afleidd störf í ýmiss konar þjónustu við okkur og aðra. Það vinna um 160 manns hjá okkur og fjöldi íbúa í sveitarfélaginu eru um 2.000 talsins, þannig að það er ansi hátt hlutfall sem vinnur hjá SS,“ segir Benedikt.

Stöðug þróun í gangi

Kjötvinnslan á Hvolsvelli er alltaf að stækka og stækka með tilheyrandi þróun í tæknibúnaði og öðru slíku.

„Já, já, það er stöðug þróun í vinnslu, vélvæðing hefur verið töluvert undanfarin ár. Vinnslan hefur verið stækkuð í tvígang frá 1991, síðast 2008 þegar vöruafgreiðslan var flutt á Hvolsvöll frá Reykjavík og þá komu 10-15 störf með. Við erum að framleiða rúmlega 500 vörunúmer í dag og stöðug vöruþróun er í gangi. Vöruþróunarferlið okkar er þannig að við erum með vöruþróunarhóp sem hittist einu sinni í mánuði. Í hópunum eru aðilar úr framleiðslunni, sölu- og markaðsdeild. Margt er prufað en það fer ekki nærri allt í sölu,“ segir Benedikt.

SS pylsurnar langvinsælastar

Benedikt er næst spurður hvað sé vinsælasta og vinsælustu vörur kjötvinnslunnar á Hvolsvelli.

„SS pylsurnar eru vissulega okkar vinsælasta vara en 1944 réttirnir eru einnig gríðarlega vinsælir og viðskiptavinir eru mjög ánægðir með þá breiðu vörulínu sem við framleiðum en við erum einmitt að setja nýjan rétt á markað þessa dagana en það er Panang kjúklingur. Grillkjötið okkar er líka mjög vinsælt og seljum við töluvert mikið af því. Einnig eru grillpylsurnar okkar mjög vinsælar eins og Ostapylsur, Pólskar pylsur og Pylsur fagmannsins, sem eru Chilli ostapylsur. Það er algjör nauðsyn að grilla pylsur í „forrétt“ þegar staðið er við grillið og borða þær berar,“ segir Benedikt og glottir.

Starfsmenn frá Íslandi, Póllandi og Búlgaríu

Í dag eru starfsmenn kjötvinnslunnar um 160 í 150 stöðugildum. Starfsmenn vinnslunnar koma frá Íslandi, Póllandi og Búlgaríu.

„Við erum með margt fólk af erlendu bergi brotið. Við erum ótrúlega heppin á Íslandi að fá þetta fólk til okkar. Það er gaman að vinna í svona margmenningarsamfélagi eins og við erum í. Þó svo að tungumál geti stundum verið hamlandi þá eru margir sem tala reiprennandi íslensku og alltaf einhverjir sem eru í íslenskunámi. Þau segja nú mörg að íslenskan sé erfið að læra sem ég skil mjög vel. Ég fór sjálfur á pólskunámskeið fyrir nokkrum misserum síðan og hún er ansi erfið en þetta er auðvitað alltaf spurning um æfingu því hún er nauðsynleg,“ segir Benedikt aðspurður um þjóðerni starfsfólksins.

Styrkir til nærsamfélagsins

- Sláturfélagið hefur verið mjög duglegt að styrkja alls konar starfsemi í nærsamfélagi sínu og munar um minna þar.
„Já, SS hefur í gengum árin styrkt æskulýðs- og ungmennastarf ríkulega bæði með beinum peningum og framleiðsluvörum. Ég tel að það sé frábært fyrir SS að vera á Hvolsvelli og happadrjúg ákvörðun að vinnslan hafi flutt á sínum tíma og sömuleiðis gott fyrir Rangárþing eystra að SS sé hér, það græða allir,“ segir Benedikt.

Þróast áfram til enn betri vegar næstu 30 árin

- Benedikt er að lokum spurður hvernig hann sjái næstu 30 árin fyrir sér hjá kjötvinnslunni?

„Já, þú segir nokkuð. Starfsemin mun vafalaust þróast áfram til enn betri vegar næstu árin og vöruþróun er í stöðugum gangi. Við erum heppin að búa að því góða starfsfólki sem vinnur hjá fyrirtækinu og það mun hjálpa okkur áfram til framtíðar.
Ég vil bara fá að nota tækifærið og koma kærum þökkum til þeirra neytenda, sem velja okkar góðu vörur á diskinn sinn.“

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, er mjög ánægð, eins og allir íbúar sveitarfélagsins, að SS hafi valið að opna kjötvinnslu sína á Hvolsvelli fyrir 30 árum. Mynd / MHH

SS er langstærsti vinnustaðurinn á Hvolsvelli

„Þegar SS flutti hingað með kjötvinnsluna árið 1991 var það gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulífið hér í Rangárvallasýslu. Á þessum tíma var skortur á atvinnu og það að fá hingað hundrað störf á einni nóttu var ómetanlegt. Það var svo fljótlega ráðist í viðbyggingu þar sem starfsemin óx og dafnaði vel hér, svo sambúðin er góð.

Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað hér í Rangárþingi eystra, enda ákaflega gott að vera hér. Fyrst um sinn voru eingöngu Íslendingar sem unnu í kjötvinnslunni, en með aukinni fjölbreytni og framboði af atvinnu hafa komið hingað erlendir starfsmenn sem hafa svo sannarlega sett sinn svip á mannlífið. Flestir koma frá Póllandi og mjög mörgum líkar vel hér og flytjast hingað alfarið og koma sér vel fyrir með fjölskyldu sína,“ segir Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri Rangárþings eystra, þegar hún var spurð út í 30 ára afmæli kjötvinnslunnar og hvernig starfsemin hefur þróast.

Stærsti vinnustaðurinn

SS er stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu og munar um minna að hafa svona flott fyrirtæki á Hvolsvelli.

„Já, SS er enn stærsti vinnustaðurinn í okkar sveitarfélagi svo eðli málsins samkvæmt skiptir starfsemin miklu máli fyrir svæðið. Erlendir starfsmenn vinnslunnar hafa sett svip sinn á Hvolsvöll og næsta nágrenni.

„Já, já, það hafa í gegnum árin flutt hingað margir einstaklingar og fjölskyldur fyrir tilstuðlan SS. Það er mjög skemmtilegt hversu vel fólk hefur aðlagast samfélaginu, nú eða samfélagið fólkinu. Þessir kærkomnu íbúar sækja einnig í önnur störf sem eðlilegt er og ég held að flestir vinnustaðir hafi notið góðs af starfskröftum þeirra. Mannlífið verður líka fjölbreyttara svo það eru mörg tækifæri sem fylgja fjölmenningarsamfélagi. Það er líka frábært hvað SS hefur verið ötull styrktaraðili íþróttafélaganna á svæðinu, bæði með fjárhagslegum styrkjum sem og með sínum frægu pylsum, sem nær alltaf eru í boði þegar hér eru hátíðir af hvaða tagi sem er,“ segir Lilja. Hún bætir því við að hún vilji í lokin óska forsvarsmönnum og starfsfólki hjartanlega til hamingju með þessi tímamót og vonar að sambúð SS og Rangárþings eystra eigi eftir að vaxa og dafna enn frekar á næstu áratugum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...