Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Dýrafjarðargöng eru án efa glæsilegustu göng sem grafin hafa verið á Vestfjörðum til þessa. Það var tékkneski verktakinn Metrostav og íslenski verktakinn Suðurverk sem sáu um gangagerðina, en tilboð þeirra í verkið nam 8,7 milljörðum króna, eða 93% af kostnaðaráætlun.
Dýrafjarðargöng eru án efa glæsilegustu göng sem grafin hafa verið á Vestfjörðum til þessa. Það var tékkneski verktakinn Metrostav og íslenski verktakinn Suðurverk sem sáu um gangagerðina, en tilboð þeirra í verkið nam 8,7 milljörðum króna, eða 93% af kostnaðaráætlun.
Mynd / Haukur Már Harðarson
Líf og starf 9. nóvember 2020

Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra opnaði Dýrafjarðargöng í dag ásamt forstjóra Vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur. Opnunin var með óvenjulegum hætti vegna COVID19 og hringdi ráðherra úr Vegagerðinni í Reykjavík vestur á Ísafjörð í vaktstöð Vegagerðarinnar. Þar lyftu menn síðan slánum upp frá báðum gangamunnum. Við munnana beið mikill fjöldi Vestfirðinga í löngum bílaröðum til að fá að komast í gegn og geta þannig fagnað þessari miklu samgöngubót sem göngin eru.

Það var tékkneski verktakinn Metrostav og Suðurverk sem sáu um gangagerðina, en þau fyrirtæki áttu lægsta tilboðið í verkið, eða upp á 8,7 milljarða króna. Var það 630 milljónum undir kostnaðaráætlun eða 93% af 9,3 milljarða kostnaðaráætlun. Gekk framkvæmdin afskaplega vel. 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra opnar Dýrafjarðargöng með símtali í vaktstöð Vegagerðarinnar á Vestfjörðum. Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, fylgist með. Á skjánum sést rúta með grunnskólabörnum á Þingeyri bíða eftir að fara fyrst í gegnum göngin. 
Mynd / Samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytið

Óvenjuleg opnunarathöfn 

Hinni óvenjulegu opnunarathöfn var streymt á netinu frá Reykjavík en einnig var streymt myndum að vestan sem tengdust streyminu frá Reykjavík. Öllu tali var einnig útvarpað á FM í og við göngin þannig að þeir sem biðu í bílum sínum gátu hlustað á ávörp ráðherra og vegamálastjóra.

Það voru börn úr Grunnskólanum á Þingeyri sem fóru fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng en með þeim í för var Gunnar G. Sigurðsson, sem mokað hefur Hrafnseyrarheiði í nærri hálfa öld. Síðustu ár hafa börn í skólanum tekið virkan þátt í að þrýsta á samgöngubætur.

„Skipta sköpum fyrir byggðir og búsetu“

„Dýrafjarðargöng skipta sköpum fyrir byggðir og búsetu á Vestfjörðum. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km og þau leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi, sem oft hefur reynst erfiður og hættulegur farartálmi. Göngin bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár. Með nýjum göngum og vegaframkvæmdum á Dynjandisheiði verður til ný heilsársleið og hringtenging um Vestfirði. Það er ekki spurning í mínum huga að Dýrafjarðargöng munu koma Vestfjörðum í heilsársvegasamband og styrkja atvinnugreinarnar, fiskeldi og ferðaþjónustu og skila sér margfalt til baka til samfélagsins,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra í ávarpi sínu.

Ljóst er að Dýrarfjarðargöng ein og sér gera ekki mikið til að bæta samgöngur í landshlutanum. Því er afar brýnt að uppbyggingu heilsársvegar yfir Dynjandisheiði verði lokið sem fyrst. Eru framkvæmdir þegar hafnar á suðurenda þeirrar leiðar niður í Penningsdal og niður í Vatnsfjörð.  

Tíu ár frá opnun Bolungarvíkurganga

Nú eru 10 ár síðan Bolungarvíkurgöng á milli Hnífsdals og Bolungarvíkur voru opnuð þann 25. september 2010, en þau leystu af hólmi Óshlíðarveg. Sá vegur hefur löngum verið talinn einn hættulegasti vegur á Íslandi. Var lagning hans mikið þrekvirki en hann var ruddur með einni lítilli og frumstæðri Allis Chalmers jarðýtu og af handafli. Óshlíðarvegur var opnaður 1949. Var gangagerð þar orðin aðkallandi enda er aðeins tímaspursmál hvenær gríðarlega stór bergfylla mun hrynja þar í sjó fram úr austanverðri Óshyrnu. Búast menn við að sú skriða geti jafnvel orsakað talsverða flóðöldu í Ísafjarðardjúpi.

Vestfjarðagöng verða flöskuháls í vegakerfinu

Nú eru 24 ár síðan önnur aðkallandi göng voru grafin á Vestfjörðum, en það voru Vestfjarðagöng. Þau tengja Skutulsfjörð, Súgandafjörð og Önundarfjörð. Voru þau opnuð 14. september 1996 og leystu þá af hólmi mjög erfiða fjallvegi um Breiðadals og Botnsheiðar. Þetta eru mjög sérstök göng með gatnamótum inni í miðju fjalli. Frá Tungudal í Skutulsfirði eru tvíbreið 2.103 metra löng göng inn að gatnamótum við afleggjarana til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar. Frá gatnamótum í Botnsdal niður í Súgandafjörð eru 2.907 metrar og 4.150 metrar yfir í Breiðadal í Önundarfirði. Samtals eru Vestfjarðagöng því 9.113 metrar að lengd. 

Þó þessi göng séu ekki ýkja gömul, þá þótti ekki verjandi að hafa þau öll tvíbreið, heldur einungis stysta legginn frá Tungudal að gatnamótum ganganna. Allt annað eru einbreið göng. Í dag er Vegagerðin hætt að hanna einbreið göng, enda hefur sýnt sig að þau mæta illa umferðarþróun og standast vart þær öryggiskröfur sem gerðar eru í dag. 

Með tilkomu Dýrafjarðarganga þykir ljóst að umferðarstraumurinn til og frá Ísafirði mun í auknum mæli flytjast yfir á vesturleiðina. Það þýðir að Breiðadalsleggur Vestfjarðaganga mun verða flöskuháls á þeirri leið. Þá mun betri hringvegatenging um Vestfirði án efa auka straum ferðamanna um Vestfjarðakjálkann sem mun enn þyngja á umferð um Vestfjarðagöngin. Því er eðlilegt að spurt sé hvernig menn hyggist leysa það mál. 

Skutulsfjarðargöng og göng undir Hálfdán

Þar fyrir utan bíða sveitarstjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum svo í ofvæni eftir að gerð jarðganga á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar verði sett á kortið. Þau munu leysa af annan erfiðan veg um Súðavíkurhlíð sem lokast mjög oft vegna snjóflóða á hverjum einasta vetri. Einnig hafa íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum sett fram óskir um jarðgöng undir fjallið Hálfdán á milli Tálknafjarðar og Bíldudals. 

Skylt efni: Dýrafjarðargöng

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...