Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Tjörvi Bjarnason á nýjum vettvangi Matlands.
Tjörvi Bjarnason á nýjum vettvangi Matlands.
Mynd / smh
Líf og starf 17. maí 2022

Matland er nýr vefmiðill og markaðstorg sem er helgað íslenskum matvælum

Höfundur: smh

Tjörvi Bjarnason er kunnur af störfum sínum í útgáfu- og kynningarmálum fyrir Bændasamtök Íslands. Hann opnaði á dögunum aðgang fólks að Matlandi, nýjum vef sem helgaður er að mestu leyti íslenskum matvælum; matvælaframleiðslu og matreiðslu.

Um vefmiðil er að ræða þar sem fjallað er um mat í máli og myndum – auk þess sem þar verður veflægt markaðstorg fyrir búvörur og ýmis önnur matvæli.

Að verkefninu standa, auk Tjörva sem er útgefandi, þeir Hörður Kristbjörnsson, grafískur hönnuður, og Hilmar Steinn Grétarsson, framkvæmdastjóri Grapevine.

„Við opnuðum vefsíðuna Matland rétt fyrir sumardaginn fyrsta. Miðillinn er búinn að vera í þróun um nokkurra mánaða skeið en grafísk hönnun og forritun tók sinn tíma. Viðtökurnar hafa verið fínar og núna erum við í því að safna fólki á póstlista og einnig að byggja upp Facebook-síðuna okkar. Ég hvet alla til að slást í lið með okkur og fylgjast með Matlandi,“ segir Tjörvi.

Hann segir, spurður um fjárhagslega bakhjarla, hvorki mera- né kvótakónga standa á bak við Matland. „Við þrír stofnuðum útgáfuna sem heitir Matfélagið ehf. og leggjum til eigið fjármagn til að koma okkur af stað. Við erum með skrifstofu í Hafnarstræti 15 í Reykjavík, sama húsi og veitingastaðurinn Hornið og Grapevine-útgáfan.“

Frjáls framlög notenda

„Rekstur fjölmiðla hefur breyst mikið á síðustu árum og það þarf að leita fjölbreyttra leiða til að láta hlutina ganga upp,“ segir Tjörvi um rekstrarmódel miðilsins. „Við seljum auglýsingar og bjóðum líka lesendum og fyrirtækjum að styrkja miðilinn með mánaðarlegu framlagi. Það er ekki ósvipað því sem nokkrir innlendir fjölmiðlar hafa gert á síðustu árum með ágætum árangri.

Við trúum því að ef efni er vel unnið og áhugavert að þá vilji lesendur borga fyrir það. Það er lág upphæð sem hver og einn greiðir en ef nógu margir standa við bakið á okkur þá getum við eflt miðilinn og látið hann dafna. Þar að auki rekum við vefverslun með upprunamerktar matvörur, bækur, hnífa og fleira sem tengist mat og matvælaframleiðslu.“

Mikill almennur áhugi á mat

Að sögn Tjörva er ætlunin að sinna allri matvælaframleiðslu á Íslandi. „Já, við ætlum að fjalla um alla matvælaframleiðslu, hvort sem það er landbúnaður, sjávarútvegur, matvælaiðnaður eða ferðaþjónusta- og veitingageirinn.

Segjum fréttir og verðum með ýmiss konar umfjallanir um fólkið sem starfar í þessum atvinnugreinum. Þetta er stór hópur, eða á bilinu 20-25 þúsund manns.
Svo vitum við að almenningur hefur mikinn áhuga á mat og mörgu sem honum tengist þannig að við veðjum á vænan hóp lesenda. Miðillinn styður svo við Markaðinn þar sem við ætlum að bjóða upp á upprunatengdar matvörur og fleira.“

Hann segir að til að byrja með verði einn blaðamaður í hálfu stöðugildi við miðilinn, en um 15 lausapennar hafa lagt honum lið með góðu efni. „Við bjóðum líka lesendum að senda okkur greinar sem tengjast matvælaframleiðslunni með einhverjum hætti. Þá er vefhluti tileinkaður umhverfismálum en þar munu sérfræðingar fjalla um samspil matvælaframleiðslu og umhverfis, lausnir í loftslagsmálum og hvað framleiðendur og ekki síst neytendur geta lagt af mörkum. Nýfengið styrkloforð úr Loftslagssjóði mun gera okkur kleift að búa til gott efni í umhverfishlutann.“

Samstarf við Pylsumeistarann

Matland fékk nýlega starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að selja matvörur. „Við ákváðum að opna vefverslunina hægt og rólega. Nú er starfsleyfið klárt og við erum komin með nokkra framleiðendur í samstarf, svo sem Sláturhús Vesturlands í Brákarey í Borgarnesi, Biobú, fiskvinnsluna Djúpið, Kaffibrugghúsið, heildverslunina Mundo sem selur matarolíur og nokkra bændur.

Við viljum þó gjarnan komast í samband við fleiri sem hafa áhuga á að selja vörurnar sínar í gegnum Matland, sérstaklega garðyrkjubændur. Veitingastaðir hafa lýst yfir miklum áhuga á samstarfi við okkur sem er spennandi. Þeir vilja kaupa vörur sem ekki fást víða og í takmörkuðu magni. Þar erum við sannarlega til í að miðla hráefnum frá bændum til veitingamanna.“

Einn aðalsamstarfsaðili Matlands er Sigurður Haraldsson, eigandi Pylsumeistarans og nýkrýndur Kjötmeistari Íslands. „Við ætlum að dreifa vörunum í gegnum hans vinnsluhúsnæði í Kópavogi og þaðan eru þær keyrðar út til kaupenda. Við bjóðum líka upp á að fólk geti sótt vörurnar í verslun Pylsumeistarans á Hrísateig í Reykjavík.“

Ísland getur auðveldlega framleitt meiri og fjölbreyttari matvörur

Óhjákvæmilegt er að spyrja Tjörva, sem lengi stóð í eldlínu hagsmunabaráttu bænda, að því hvernig málefni íslensks landbúnaðar blasi við honum í dag – frá nýju sjónarhorni. „Það er allt á fleygiferð í matvælaframleiðslunni á Íslandi. Þrátt fyrir ýmsar blikur á lofti, til dæmis vegna heimsfaraldursins, stríðsins í Úkraínu, hlýnandi loftslags víða um lönd og verðhækkanir á aðfangamörkuðum, þá eru mýmörg tækifæri í þessum geira.

Við þurfum að róa að því öllum árum að gera framleiðsluna hagkvæmari, efla menntun og fjölga fólki sem vill vinna í matvælagreinunum. Það er mikil og vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum og Ísland getur auðveldlega framleitt meiri og fjölbreyttari matvörur úr sínum auðlindum. Stjórnvöld og atvinnugreinarnar sjálfar hafa sem betur fer tekið sig á í stefnumörkun og það er mjög jákvætt. Við þurfum að vita hvert við ætlum að fara og hvernig við komumst þangað til að ná árangri.“

Skylt efni: Matland

Eyrugla
Líf og starf 20. mars 2023

Eyrugla

Eyrugla er nýlegur landnemi hérna á Íslandi. Hún var áður reglulegur gestur en u...

Mesta áskorunin er að stoppa upp uglur
Líf og starf 17. mars 2023

Mesta áskorunin er að stoppa upp uglur

Brynja Davíðsdóttir hefur getið sér gott orð fyrir uppstoppun á ýmsum tegundum d...

Dráttarvél mýkri en Range Rover
Líf og starf 17. mars 2023

Dráttarvél mýkri en Range Rover

Undanfarna þrjá áratugi hefur hinn breski vinnuvélaframleiðandi JCB framleitt dr...

Gerði lokræsi um land allt
Líf og starf 16. mars 2023

Gerði lokræsi um land allt

Pálmi Jónsson fór um land allt og útbjó lokræsi í ræktarlandi bænda með plógi sm...

Steinefna- og próteinríkur afskurður
Líf og starf 16. mars 2023

Steinefna- og próteinríkur afskurður

Mikið fellur til af stilkum, laufblöðum og öðrum afskurði frá íslenskri garðyrkj...

„Ég brenn fyrir góðum jarðvegi“
Líf og starf 15. mars 2023

„Ég brenn fyrir góðum jarðvegi“

Þann 2. mars síðastliðinn hélt fagráð í lífrænum landbúnaði málþing á Sólheimum ...

Beinajarl krýndur
Líf og starf 8. mars 2023

Beinajarl krýndur

Gradualekór Langholtskirkju hélt upp á kjötsúpuhátíð sunnudaginn 12. febrúar síð...

Danskar heiðar viði vaxnar
Líf og starf 7. mars 2023

Danskar heiðar viði vaxnar

Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina sótt fróðleik til frænda okkar Dana. Sú te...