Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ábúendur að Felli. hjónin Reimar Sigurjónsson og Dagrún Þórisdóttir.
Ábúendur að Felli. hjónin Reimar Sigurjónsson og Dagrún Þórisdóttir.
Líf og starf 22. desember 2016

Langar að fjölga geitunum og ferðamönnum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Að Felli við Finnafjörð er rekið sauðfjárbú með rúmlega 400 ám. Þar eru líka nokkrar geitur og gerðar tilraunir með framleiðslu á fetaosti og hafin uppbygging í ferðaþjónustu.

Ábúendur að Felli eru hjónin Reimar Sigurjónsson og Dagrún Þórisdóttir. Þau eiga fjórar dætur,   Unni Vilborgu og Helgu Björk sem búa í foreldrahúsum en Aníta Dröfn býr á Þórshöfn og Stefanía Margrét er í framhaldsskóla.

Reimar var talsvert í fjölmiðlum í haust eftir að hann lenti í hrakförum og festist á klettasyllu í Gunnólfsvíkurfjalli þegar hann var að sækja eftirlegukind. Honum var bjargað af syllunni eftir þrettán klukkustundir en að hans sögn tók eltingaleikurinn við kindina sextán tíma.

Gott land fyrir sauðfé

Á Felli eru 430 vetrarfóðraðar kindur, fjórtán geitur, sex gæsir, fimm endur, átta hestar og þrír hundar.

„Búskapurinn gengur vel sem slíkur en afkoman af honum er ekki beint til að hrópa húrra fyrir. Hér er mikið land og gott fyrir sauðfé enda jörðin tæpir 4000 hektarar að stærð. Afurðaverð fyrir lambakjöt hefur verið lágt og það lækkaði enn meira síðastliðið haust og við finnum verulega fyrir því. Það sem bjargaði okkur var að féð kom vænt að fjalli.“

Auk þess að reka búið að Felli starfar Reimar sem meindýraeyðir og vinnur í törnum við löndun. Dagrún er í 20% starfi hjá hreppnum auk þess sem hún er að prófa sig áfram með að sauma púða sem eru að hluta úr gærum af lömbum sem drápust í sauðburðinum síðastliðið vor. Reimar fláði lömbin og síðan eru skinnin sútuð og ótrúlega mjúk viðkomu.

Reimar segir að þau séu með geitur bæði til gamans og í alvöru. „Okkur finnst þær skemmtilegar skepnur og svo býr Dagrún til fetaost úr mjólkinni úr þeim. Osturinn er sem stendur einungis til heimabrúks en okkur langar til að fjölga geitunum upp í þrjátíu og hver veit nema við reynum að markaðssetja fetaostinn einhvern tíma í framtíðinni. Endurnar og gæsirnar eru aftur á móti bara til gamans.“

Ferhyrnt forustufé

Í fjárhúsunum að Felli er meðal annars að finna forustufé, ferhyrndar ær og eina sexhyrnda. Reimar segist vera að blanda saman ferhyrndum hrútum og forystufé og ætlunin sé að ná fram ferhyrndu forystufé.

"Ástæðan fyrir þessu er sú að hér á bæ er ferhyrnda féð rólegra en annað fé og ég kann vel við það þess vegna.“

Í góðu árferði eins og í ár lætur Reimar um 180 ær ganga úti í fjarðarbotni Finnafjarðar stóran hluta ársins. „Ég færi ánum þrjár heyrúllur á þriggja til fjögurra daga fresti en þess á milli eru þær í fjörubeit og éta þang og þara. Mín reynsla er sú og nánast óbrigðult að frjósemin er meiri í útigöngufénu en því sem er á húsi.“

Byggja upp ferðaþjónustu

Hjónin á Felli eru samhliða hefðbundnum búskap að byggja upp ferðaþjónustu og hafa þegar reist tvo gistiskála. Annar þeirra var í útleigu síðastliðið sumar og leigan gekk ágætlega, að sögn Reimars. Hitt húsið er á lokametrunum og verður komið í leigu næsta sumar.

„Við höfum fullan hug á að markaðssetja Finnafjörð sem áfangastað fyrir ferðamenn en fjöldi þeirra sem sækja hingað er að aukast jafnt og þétt. Það er að segja þeir sem láta lélegar vegasamgöngur ekki aftra sér.
Hér eru líka rekahlunnindi sem við nýtum aðallega til að kynda íbúðarhúsið með eins og er. Ég klýf stóra boli í staura en vantar sög til að saga borðvið.“

Ekki hrifinn af umskipunarhöfn

Að sögn Reimars er fábreytt atvinnulíf ein helsta ástæða þess að fólki fjölgar ekki í Langanesbyggð. Hann bindur vonir við að aukinn ferðamannastraumur geti bætt úr því að hluta en segir um leið að sú grein sé fallvölt og því ekki hægt að stóla eingöngu á hana.

„Sjálfur er ég ekki hrifinn af því að hér verði byggð risastór tollfrjáls umskipunarhöfn sem leggur undir sig hundruð hektara hér í firðinum. Náttúran hér er allt of dýrmæt og viðkvæm til þess. Hér fyrir utan eru til dæmis mikilvæg hrygningarmið fyrir þorsk og þau væru í hættu ef skip strandaði og af hlytist mengunarslys. Ég vona því að hugmyndin sé bara draumórar og að það verði aldrei neitt af þessum framkvæmdum.

Við höfðum talsverðar áhyggjur af þessu á tímabili en erum rólegri í dag og ætlum því að halda áfram að byggja upp búið og ferðaþjónustu tengda því og vera hér áfram.“

Mannlíf á Búnaðarþingi
Líf og starf 25. mars 2024

Mannlíf á Búnaðarþingi

Æðsta samkoma Bændasamtaka Íslands er Búnaðarþing. Í ár stóð það yfir frá fimmtu...

Stjörnuspá 21. mars - 11.  apríl
Líf og starf 21. mars 2024

Stjörnuspá 21. mars - 11. apríl

Vatnsberinn hefur lengi verið að velta því fyrir sér að flytja sig um set og jaf...

Félagsskapur eldri borgara
Líf og starf 19. mars 2024

Félagsskapur eldri borgara

Stofnfundur Félags eldri borgara í Hvalfjarðarsveit var haldinn sunnudaginn 11. ...

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...