Mynd/Sigfús Helgason Sigurbjörg Níelsdóttir frá Bústólpa sem gaf verðlaun, þá Atli Már Atlason sem varð í þriðja sæti, Gunnar Halldórsson í öðru sæti, Kristján Elvar Gíslason, Íslandsmeistari í járningu 2018 og Björn Jóhann Jónsson.
Líf og starf 03. desember 2018

Kristján Elvar Íslandsmeistari í járningum 2018

Margrét Þóra Þórsdóttir
Kristján Elvar Gíslason varð Íslandsmeistari í járningum árið 2018, en mótið fór fram í Léttishöllinni á Akureyri á dögunum. Það var haldið í samstarfi Járningamannafélags Íslands og Hestamannafélagsins Léttis. 
 
Keppnin var spennandi og svo mjótt á munum að annar dómarinn, Anton Páll Níelsson, tók sér í munn nýyrði þegar hann sagði að það hefði tæplega slimmfjöður komist á milli þeirra er unnu til verðlauna. 
 
Gestur Páll Júlíusson hélt magnaðan fyrirlestur um kynbótajárningar og nýjar áherslur í þeim efnum. Var það samdóma álit manna er á hlýddu að orð hafi þar verið í tíma töluð. Trausti Óskarsson var skráður með fyrirlestur um hælahæð og olnbogaágrip og viðeigandi sýnikennslu, en vegna veðurs var ekki flogið þannig að Trausti ræddi við gesti í gegnum skype. Sýnikennsla var í kynbótatálgun og járningum áður en Íslandsmótið í járningum hófst.
 
Kristján Elvar Gíslason varð í fyrsta sæti og þar með Íslandsmeistari í járningum árið 2018, í öðru sæti var Gunnar Halldórsson og í því þriðja Atli Már Atlason.
 
Nýkrýndur Íslandsmeistari í járningum, Kristján Elvar Gíslason.