Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Íslenskar fléttur
Líf og starf 4. júlí 2016

Íslenskar fléttur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fléttur eru sambýlislífverur sveppa og þörunga. Hörður Kristinsson grasafræðingur er höfundur nýrrar bókar sem heitir Íslenskar fléttur. Bókin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og stórmerkilegt framlag til náttúrufræðirannsókna á Íslandi.

„Fléttur sem vitað er um á Íslandi eru í kringum 800 og í bókinni er fjallað um 392 tegundir eða nálægt helming þeirra. Í bókinni eru myndir af öllum tegundunum sem fjallað er um, lýsing á þeim og útbreiðslukort. Kortið er misnákvæmt fyrir mismunandi tegundir. Í sumum tilfellum sýnir kortið útbreiðsluna nokkuð ítarlega en fyrir aðrar tegundir er nánast tilviljun hvar þær hafa verið greindar. Sumar fléttur sjást illa og fólk tekur ekki eftir þeim og eru því víðar en fram kemur í bókinni en aðrar eru mjög sjaldgæfar og finnast einungis á örfáum stöðum á landinu,“ segir Hörður.

Bókin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og fyrsta bókin um fléttur á Íslandi. Hörður hóf rannsóknir á fléttum og fór að taka myndir af þeim upp úr 1960 og því er bókin afrakstur rúmlega hálfrar aldar vinnu samhliða öðrum störfum.

Fléttur eru sveppir

Að sögn Harðar eru fléttur á ýmsan hátt sérkennilegar lífverur og ekki lengur taldar til plantna eins og áður var, en flokkast nú sem sveppir. „Fléttur eru í raun sveppir sem lifa í sambýli við þörunga. Þörungarnir eru ljóstillífandi og framleiða þannig næringarefni en sveppurinn klæðir fléttuna að utan og hýsir þörungana og kemur lífverunni í samband við steinefni í undirlaginu.“

Almenningur þekkir fléttur líklega best sem hvítar og gular skellur á steinum. Hörður segir að margar tegundir flétta myndi hvítar skellur á steinum. „Sumar eru algengar um allt land en aðrar eru landshlutabundnar. Gulgrænu skellurnar eru oft tegund sem kallast landfræðiskóf og er svo algeng að hún finnst nærri því á hverjum steini.

Ættkvíslina Rhizocarpon sem landfræðiskófin eða landfræðiflikran eins og ég nefni hana í bókinni, tilheyrir, nefni ég flikrur, enda eru þær allar flikróttar á litinn. Þar skiptast svartar askhirslurnar á við ljóst þal.“

Hörður telur  að fjallað sé um hátt á annað hundrað ættkvíslir af fléttum í bókinni. Ættkvíslunum hefur fjölgað verulega síðustu árin eftir því sem rannsóknum á fléttukerfinu miðar áfram með erfðafræðilegum aðferðum.    

Vaxtarga og fuglaglæða

Einungis fáar fléttur báru íslensk heiti áður en Hörður hóf rannsóknir á þeim og vinnu við bókina. „Tegundirnar sem höfðu nafn eru helst þær sem mest er af og fólk hefur tekið eftir eða haft nytjar af á einhvern hátt. Hin nöfnin hef ég aftur á móti búið til.“

Dæmi um heiti sem Hörður hefur búið til er vaxtarga sem er algeng hrúðurflétta á steinum um allt land. „Ættkvíslarheitið targa þýðir lítill skjöldur og nafnið er dregið af því að þessar fléttur hafa  disklaga askhirslur með ljósum barmi og líkjast því skildi í laginu. Einnig má nefna fuglaglæðu sem vex á stöðum þar sem fuglar setjast og drita. Fuglaglæða er því algeng á toppum steina, á girðingastaurum og jafnvel á trjágreinum þar sem fuglar sitja mikið.“

Af gömlum nöfnum á fléttum í bókinni má nefna engjaskóf sem vex á jarðvegi og annað er geitaskóf sem vex á klettum.

Fléttur er víða að finna sé leitað eftir þeim. Hörður segir að þær vaxi á margs konar undirlagi. „Gömlum, hefluðum spýtum, trjáberki, á steinum, steinsteypu og jarðvegi, utan á mosa og jafnvel á járni. Ég hef fundið skófir á gömlum jarðvinnsluverkfærum og brúarhandriðum úr járni.“

Viðamikil starfsreynsla

Hörður lærði grasafræði í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan árið 1966. Að námi loknu fékk hann styrk til að fara til Bandaríkjanna og vann að rannsóknum á íslenskum fléttum þar í fjögur ár. Eftir það flutti hann til Íslands og fékk starf við Náttúrugripasafnið á Akureyri og vann þar í átta ár. Því næst var Hörður prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands í tíu ár og svo forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Norðurlands. Sú stofnun var seinna sameinuð Náttúrufræðistofnun Íslands og breytt í Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar og starfaði Hörður við setrið þar til hann fór á eftirlaun.

Meðfram þessum störfum hefur Hörður rannsakað og greint fléttur á Íslandi og safnað upplýsingum um þær auk þess sem hann hefur rannsakað háplöntur og unnið að umhverfisrannsóknum. Hörður segir að þótt grunnurinn á bókinni hafi byggst upp á löngum tíma hafi mesta vinnan við fléttubókina farið fram á síðustu árum eftir að hann fór á eftirlaun.

Nytjar af fléttum

„Skófir eða fléttur hafa verið nytjaðar til litunar og tvær eða þrjár tegundir verið kallaðar litunarmosi og ekki gerður greinarmunur á þeim. Fjallagrös þekkja margir og þau hafa verið nytjuð til manneldis og lækninga, til dæmis við hósta og kvefi.

Fléttur framleiða mikið af efnum sem kallast fléttusýrur og notaðar hafa verið í margvíslegum tilgangi. Það eru meðal annars þær sem gefa fléttunum litunareiginleika sína, og aðrar eru bakteríudrepandi og geta því nýst til lækninga. Fléttusýrurnar eru einnig notaðar til að greina á milli tegunda, þar sem hver tegund hefur venjulega ákveðið mynstur af fléttusýrum,“ segir Hörður.

Ljósmyndir og lýsingar

Uppbygging  bókarinnar er þannig að fremst eru almennir kaflar um fléttur og ýmislegt sem tengist innri og ytri byggingu þeirra, hvernig þær eru greindar, og efnaframleiðslu þeirra. Meginhluti bókarinnar er umfjöllun um fléttur þannig að á hverri síðu er umfjöllun um eina tegund ásamt mynd og útbreiðslukorti hennar. Aftast eru svo grófir lyklar til að auðvelda notkun bókarinnar, ásamt myndum af askgróum ýmissa tegunda. Bókin Íslenskar fléttur er því uppbyggð á svipaðan hátt og Íslenska plöntuhandbókin sem Hörður gaf út fyrir nokkrum árum.

Gráþröstur
Líf og starf 5. febrúar 2023

Gráþröstur

Gráþröstur eru algengir varpfuglar um Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu. H...

Við skurðgröft í  snarbrattri hlíð
Líf og starf 3. febrúar 2023

Við skurðgröft í snarbrattri hlíð

Hólmar Bragi Pálsson, áður búsettur á Minni-Borg í Grímsnesi en nú á Selfossi, v...

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi
Líf og starf 3. febrúar 2023

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi

Nýsköpunarfyrirtækið AMC hlaut nýverið Sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís ...

Ræðismaður skipaður í Moldavíu
Líf og starf 2. febrúar 2023

Ræðismaður skipaður í Moldavíu

Moldavía er landlukt land í Suðaustur-Evrópu og liggur milli Úkraínu og Rúmeníu....

Gerir allt með sóma
Líf og starf 1. febrúar 2023

Gerir allt með sóma

Að þessu sinni tók Bændablaðið til prufu hinn nýja Kia Niro EV. Forveri þessa bí...

Rispuhöfrungar ráku á land í Hrútafjarðarbotni
Líf og starf 1. febrúar 2023

Rispuhöfrungar ráku á land í Hrútafjarðarbotni

Um miðjan júlí síðastliðinn rak á land í botni Hrútafjarðar tvo fremur óvenjuleg...

Smáforrit sem mælir kolefnisbindingu trjáa
Líf og starf 31. janúar 2023

Smáforrit sem mælir kolefnisbindingu trjáa

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Orb vinnur að hugbúnaði sem mælir og áætlar kolefn...

Breyttir tímar
Líf og starf 31. janúar 2023

Breyttir tímar

Dagana 12. og 13. janúar var haldin í Hörpu ráðstefnan „Psychedelics as Medicine...