Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ragna Erlingsdóttir á Svalbarðseyri hefur ástríðu fyrir að nýta það sem náttúran gefur og rekur nú fyrirtækið R-rabarbari utan um framleiðslu á ýmsum vörum úr rabarbara.
Ragna Erlingsdóttir á Svalbarðseyri hefur ástríðu fyrir að nýta það sem náttúran gefur og rekur nú fyrirtækið R-rabarbari utan um framleiðslu á ýmsum vörum úr rabarbara.
Mynd / ehg
Líf og starf 26. janúar 2021

Heldur í hefðirnar í vörulínu úr rabarbara

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Ragna Erlingsdóttir á Svalbarðs­eyri sagði upp starfi sínu sem leikskólastjóri til 18 ára fyrir nokkrum árum og hugsaði í framhaldinu hvað hún ætti að taka sér fyrir hendur. Hún skráði sig á námskeið árið 2016 hjá Brautargengi, sem er námskeið fyrir konur sem hyggja á atvinnurekstur, án þess í raun að vera með nokkuð ákveðið í huga. Eftir hugmyndavinnu, styrk og mótun varð til vörulína úr rabarbara og hefur starfsemin undið upp á sig ár frá ári. Fyrirtækið fékk nafnið R-rabarbari. „Þetta byrjaði eiginlega sem tilraun. Ég er úr sveit, frá Þverá í Dalsmynni, þar sem ég er fædd og uppalin. Bróðir minn og hans kona búa þar í dag og reka þar fjárbúskap. Mér bauðst smá landskiki á Þverá fyrir rabarbararæktunina sem var gamalt hestahólf. Bróðir minn plægði hann fyrir mig og setti skít í og við girtum hann svo og þá var skikinn tilbúinn fyrir mig til að hefjast handa,“ útskýrir Ragna sem setti niður 130 hnausa í byrjun.

Rögnu finnst mikilvægt að framsetning varanna sé falleg þegar hún fer á markaði og segir hún styrk sem hún fékk í byrjun til tækjakaupa og þróunar algjöran grundvöll fyrir því að hugmyndin varð að veruleika.

Á haustin fer Ragna út í náttúruna til að tína lyng í kransa sem hún gerir fyrir jólin en einnig vinnur hún að því á sumrin. Segja má að kransarnir hennar séu sannkölluð listasmíð.

Styrkurinn grundvöllur til að byrja

Ragna hefur alltaf verið mikil útivistarkona og um árabil safnað lyngi á haustin sem hún nýtir til að búa til kransa úr fyrir jólin og gerður er góður rómur að. Hún bæði selur þá og gefur.

„Ég fór á brautargengisnámskeið fyrir konur inni á Akureyri og var með öran hjartslátt þegar ég kom þar inn því ég var ekki með neina fastmótaða hugmynd í kollinum. Það voru svo flottar konur á námskeiðinu með góðar hugmyndir sem hafa orðið að veruleika, eins og bókaútgáfa, hönnunarfyrirtæki og opnun á salatbar og fleira og fleira. Ég var búin að fá margar hugmyndir og safna þeim í trekt. Einhvers staðar hafði ég séð hversu hátt hlutfall er selt hérlendis af innfluttum rabarbara og það fannst mér verulega skrýtið. Á námskeiðinu kom sem sagt hugmyndin að framleiðslu úr rabarbara niður úr trektinni og ég hófst handa við að gera viðskiptaáætlun,“ segir Ragna og bætir við:

„Þannig að segja má að ég hafi byrjað árið 2017 með ákveðna hugmynd hvað ég ætlaði að gera. Um þetta leyti benti bróðir minn mér á auglýsingu í Dagskránni þar sem hægt var að sækja um nýsköpunarstyrki til uppbyggingarsjóðs Eyþings sem skila átti inn daginn eftir. Ég settist því við tölvuna og sendi inn umsókn. Það kom mér síðan reglulega á óvart að ég fékk styrk en vegna hans náði ég til dæmis að kaupa tæki og tól, umbúðir og útbúa lógó (vörumerki) til að byrja almennilega og var algjör grundvöllur þess að eitthvað gæti orðið úr hugmyndinni.“

Eftirréttur úr rabarbarahófum

Þá fór boltinn að rúlla hjá Rögnu sem hófst handa við að búa til rabarbarasaft eftir gamalli uppskrift og í kjölfarið varð til hlaup úr rabarbara, sultur, bökur, eftirréttir og mauk í nokkrum bragðtegundum.

„Ég fór til baka og horfði í það sem ég hafði alist upp við en mér finnst mjög skemmtilegt að halda í hefðirnar. Þannig fór ég að gera rabarbarahlaup með bláberjum og ýmislegt sem ég hafði lært hjá móður minni. Auk þess sem ég tók upp eftir henni að gera eftirrétt úr rabarbarahófum sem voru nýttir hér áður fyrr því þeir voru kjarnmestir. Þá sýður maður niður rabarbara og sveskjur í sykurvatni og fyrr á tímum var þetta borðað með ís eða þeyttum rjóma á sunnudögum. Mamma var uppi á þeim tíma sem allt var nýtt til hins ýtrasta og reynt að drýgja eins og hægt var. Síðan leitaði ég í bók Helgu Sigurðardóttur sem heitir Matur og drykkur og sá þar ýmislegt fróðlegt.“

Ræktun og framleiðsla fer fram á æskuslóðum Rögnu að Þverá en þar er viðurkennt eldhús til framleiðslunnar.

„Ég tek upp rabarbara tvisvar til þrisvar yfir sumarið. Síðan var ég svo heppin að komast í kynni við mann inni á Akureyri sem er með mjög stóran garð og aðeins brotabrot af honum er nýtt. Þar fæ ég að taka upp rauðan rabarbara. Ég sel líka ferskan rabarbara og frosinn sem ég er þá búin að vakúmpakka. Mín sýn er að geta nýtt sem mest af því sem jörðin gefur án þess að kosta miklu til og nota til dæmis Spánarkerfil sem vex upp við húsið á Þverá til að fá anísbragðið.“

Elskar að vera sjálfs síns herra

Ragna er búin að vera dugleg að fara með vörur sínar á markaði sem hefur gengið framar vonum að hennar sögn. Einnig er hún aðili að Beint frá býli og Samtökum smáframleiðenda. Þá eru vörurnar hennar til sölu í Gott og blessað í Hafnarfirði.

„Ég er aðallega í þessu mér til skemmtunar en þetta er orðið meiri vinna en ég bjóst við. Mér finnst skemmtilegt að fara á markaði, hitta fólk og selja. Það skiptir mig miklu máli að básinn minn sé fallegur og að það sjáist að ég sé að vanda mig. Mér finnst áhugavert að sjá hvað selst öðruvísi hér fyrir norðan en fyrir sunnan og selst til dæmis gamaldags rabarbarasulta mjög vel fyrir sunnan,“ segir Ragna brosandi og bætir við:

„Það gerðist heilmikið hjá mér í þessu á síðasta ári þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn, eins og til dæmis varðandi að bæta merkingar. Nú er ég í þeirri stöðu fyrir næsta sumar að ég þarf að útvega mér meira hráefni, vera duglegri að taka meira upp af rabarbara yfir sumarið til að eiga nóg í framleiðsluna út árið. Þannig að þetta sem byrjaði hjá mér sem smá flipp og ævintýri hefur aðeins undið upp á sig og það er mjög skemmtilegt, enda elska ég að vera sjálfs míns herra.“

Skylt efni: rabarbari | R-rabarbari

Huldufreyjur Dalrúnar
Líf og starf 30. september 2022

Huldufreyjur Dalrúnar

Sagnfræðingurinn Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir útskrifaðist með doktorspr...

Íslensk matarveisla úr lífrænum hráefnum
Líf og starf 29. september 2022

Íslensk matarveisla úr lífrænum hráefnum

Fyrsti lífræni dagurinn var haldinn sunnudaginn 18. september á Neðra-Hálsi i...

Allur húsakostur hitaður upp með afurð úr eigin skógi
Líf og starf 28. september 2022

Allur húsakostur hitaður upp með afurð úr eigin skógi

Þessa dagana eru merk tímamót í orkuskiptum hjá bændum að eiga sér stað í ...

Saumaskapur unninn með nál hafinn til vegs og virðingar
Líf og starf 28. september 2022

Saumaskapur unninn með nál hafinn til vegs og virðingar

Margt verður til í kvenna höndum er nafn á sýningu í félagsheimilinu Goðal...

Land Rover með leikaraferil
Líf og starf 28. september 2022

Land Rover með leikaraferil

Á Hvammi í Hvítársíðu er Land Rover jeppi sem hefur öðlast frægð á síðus...

Augnablik í lífi þeirra yngstu þetta sumarið
Líf og starf 27. september 2022

Augnablik í lífi þeirra yngstu þetta sumarið

Ungviðið leikur við hvern sinn fingur yfir sumartímann enda svo margt skemmtile...

Ungir bændur taka við keflinu á Brúsastöðum
Líf og starf 27. september 2022

Ungir bændur taka við keflinu á Brúsastöðum

Skafti Vignisson og Lisa Inga Hälterlein tóku um síðustu áramót við búinu ...

Ómar Ragnarsson heiðraður
Líf og starf 27. september 2022

Ómar Ragnarsson heiðraður

Ómar Ragnarsson umhverfisverndarsinni hlaut Náttúruverndarviðurkenningu Sigri...