Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hveitiakur í Úkraínu.
Hveitiakur í Úkraínu.
Mynd / Diana Vyshniakova - Insplash
Líf og starf 10. mars 2022

Heimsbyggðin horfir fram á töluverðan samdrátt í matvælaframleiðslu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Stríðið í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á hrávörumarkaði um allan heim. Þar skiptir verulegu máli að bæði Rússland og Úkraína eru meðal stærstu kornframleiðsluríkja heims og ýmsar afleiður í olíuiðnaði hafa líka veruleg áhrif. Varað hefur verið við miklum samdrætti í framboði á nauðsynjavörum.

Sjálfbærni þjóða og fæðuöryggi hefur ekki verið eins mikilvægt um áratuga skeið. Fyrirséð var fyrir stríðsátökin í Úkraínu að samdráttur yrði í framleiðslu á matvöru víða um heim vegna stórminnkaðs framboðs og verðhækkana á áburði sem orsökuðust af stórhækkun orkuverðs. Íslendingar komast ekki hjá því að taka mið af þessu og mun þetta verða mikil áskorun fyrir íslenska bændur og aðra matvælaframleiðendur að tryggja fæðuöryggi Íslendinga.  

Útflutningur á áburði frá Rússlandi stöðvast 

Í kjölfar átakanna í Úkraínu birtist frétt rússnesku fréttastofunnar TASS um að hætt yrði öllum útflutningi á áburði frá Rússlandi frá 31. mars allavega á meðan flutningar til og frá Rússlandi eru ekki með eðlilegum hætti. Stærstu skipafélögin, eins og A.P. Moller-Maersk A/S og Mediterranean Shipping Co, hafa hætt tímabundið öllum sínum siglingum til og frá Rússlandi.

Stærsti kaupandinn á áburði frá Rússlandi er Brasílía, sem er jafnframt stórframleiðandi á maís og nautakjöti. Þar hefur allt verið sett í gang til að reyna að tryggja áburð fyrir bændur, en vandséð er hvernig það mál verður leyst. Þá bætir ekki úr skák að verð á áburði í framvirkum samningum hefur hækkað um 32% frá 24. febrúar.

Rússland framleiðir um 50 milljón tonn af áburði á ári og er einn stærsti útflytjandi heims á  köfnunarefni, fosfór og kalíum. Belarus (Hvíta-Rússland), bandamaður Rússa í stríðinu í Úkraínu, er líka stór útflytjandi á kalíáburði.

Miklir áhrifavaldar í matvælaframleiðslu

Í síðustu viku hækkaði kornverð í framvirkum samningum á mörkuðum um 40% og hafði þá ekki verið hærra í tíu ár. Síðan hefur verðið bara hækkað en hefur samt ekki náð þeim himinhæðum sem kornverðið var í um mitt ár 2012. Í ársbyrjun hafði hins vegar verið spáð verðlækkunum á korni eftir hækkanir á síðasta ári. 

Rússland og Úkraína framleiða samanlagt um 14% af öllu hveiti í heiminum og hafa verið með um 29% af útflutningsmarkaðnum.  Á árinu 2021 flutti Rússland út um 35.000.000 tonn af hveiti og Úkraína um 24.000.000 tonn, en heildarútflutningsmarkaðurinn var um 208,5 milljónir tonna. Þá framleiða þessi tvö ríki um 14% af heimsframleiðslu á byggi og eru þar líka með um 33% af milliríkjaviðskiptunum á heimsmarkaði.

Um 76% af allri sólblómaolíu á heims­markaði kemur frá Rússlandi og Úkraínu. Verðið á jhenni hefur hækkað um

Það er þó ekki bara áburðurinn sem hefur hækkað í verði sökum minna framboðs, því gróðureyðingarefni, sem mikið eru notuð við ræktun á erfðabreyttu korni, hafa líka hækkað gríðarlega. Eru bandarískir bændur farnir að finna verulega fyrir því, samkvæmt frétt The Wall Street Journal. Fyrirséð er að afurðaverð muni hækka mikið af þeim sökum.  

Stórhækkanir á hráefni til iðnaðar

Samkvæmt Plus500 var verð á fötu (bushel) af korni (maís) í rúmum 750 dollara við opnun markaða miðvikudaginn 9. mars í framvirkum samningum og hafði þá heldur lækkað frá því á mánudag. (Ein fata „bushel” samsvarar tæpum 36,4 lítrum af korni). Hveiti var í 1.250 dollurum fatan.

Fyrir utan verð á korni, þá er afleiðingin af stríðinu að koma í ljós á fleiri sviðum. Olíuverð hefur rokið upp í hæstu hæðir og var hráolíutunnan við opnun á Brent markaði á þriðjudag komin í tæpa 127 dollara en fór í 122 á miðvikudagsmorgun.

Framleiðsla á bílum í Evrópu er farin að hökta verulega þar sem verksmiðjurnar fá ekki lengur íhluti í bíla sína sem framleiddir hafa verið í Úkraínu. Hefur þetta þegar haft áhrif á Groupe Renault, BMW, Jaguar, Land Rover, Stellantis og Volkswagen Group. Ekki má heldur gleyma því að sala evrópskra bíla í Rússlandi er umtalsverð. Rússland er áttundi stærsti bílamarkaður í heimi, en þar seldust á síðasta ári 1.666.780 bílar, eða fleiri en í Frakklandi og einnig fleiri en í Bretlandi og í Kanada. Þá hefur hráefni eins og platína frá námum í Síberu hætt að berast en það er mjög mikilvægt í hálfleiðara í tölvur og bíla.

Einnig er búist við samdrætti í framboði á liþíum sem er lykilhráefni í rafhlöður í tölvur og bíla. Kínverjar eru þar í kjörstöðu sem nánast eini viðskiptaaðili Rússa.

Þá eru Rússar með um 10% af heims­fram­leiðslunni á nikkel og er rússneska fyrirtækið MMC Norilsk Nickel PJSC stærsti framleiðandi heims á þeim málmi. Nikkel er líka mikilvægt í framleiðslu á rafhlöðum í rafmagnsbíla og til framleiðslu á ryðfríu stáli. Skortur á nikkel kemur ofan í 111% verðhækkun sem orðin var á þessum málmi á markaði þegar verðið fór í methæðir á dögunum, eða í 101.365 dollara tonnið. Voru viðskipti með nikkel stöðvuð á markaði LME í London á þriðjudagsmorgun eftir að verðið hafði óvænt rokið upp um 250%. Verð á gulli og sumum öðrum málm­tegundum eins og nikkel hefur líka hækkað veru­lega.

Þá tókst heldur ekki á fyrstu viku stríðsins að útvega íhluti frá Úkraínu fyrir stáliðnaðinn, samkvæmt frétt The Wall Street Journal,  og hefur það m.a. haft áhrif á stáliðnað í jafn fjarlægu landi og Japan. Þar spilar aðallega inn í að flugsamgöngur til og frá Úkraínu hafa lagst af.  

Fjármálakerfi heimsins nötrar

Áhrifin af stríðinu varða fleiri þætti í hagkerfum heimsins. Hlutabréfaverð hefur verið á miklu flökti í kauphöllum um allan heim. Hlutabréf í flugfélögum hefur t.d. hríðfallið samfara stórhækkun á verði þotueldsneytis (steinolíu). Á sama tíma hefur verð á góðu ræktarlandi stórhækkað að undanförnu, eða um nær fjórðung í mörgum ríkjum Bandaríkjanna samkvæmt tölum Market Watch.

Innspýting Evrópusambandsins upp á 1,8 billjón evra vegna Covid-19 hélt fjármálamörkuðum þó gangandi en ljóst er að setja þarf peningaprentunina á fullan snúning aftur vegna átakanna í Úkraínu. Peningaprentun án samsvarandi verðmætasköpunar getur þó aldrei verið til annars en að fleyta vandamálinu fram í tímann. Það mun trúlega leiða til viðvarandi verðbólgu og áframhaldandi vandræða í Evrópu.

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...