Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Heimsborgarinn Anna frá Moldnúpi - Athafnakona og ferðalangur
Líf og starf 27. september 2021

Heimsborgarinn Anna frá Moldnúpi - Athafnakona og ferðalangur

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Þó hún teljist ef til vill ekki til þekktustu skáldkvenna Íslands er ekki annað hægt að segja en að Sigríður Anna Jónsdóttir frá Moldnúpi hafi leynt skemmtilega á sér, og þá á fleiri hátt en einn.

Anna, eins og hún var kölluð, fæddist í Gerðakoti undir Vestur-Eyjafjöllum árið 1901, Skaftfellingur að ætt en fluttist ung að árum með foreldrum sínum í bæinn Moldnúp. Var haft eftir henni að undir Eyjafjöllum byggi besta fólk á Íslandi því hvergi skini sólin bjartar auk þess sem fátæklingar liðu þar aldrei skort.

Móðir hennar varð ekki langlíf, og ólst Anna, elst þriggja systkina, upp undir handleiðslu föður síns, sótti með honum sjóróðra auk hefðbundinna starfa en mat hún hvað helst hversu menningarlegt uppeldi hann reyndi að veita þeim systkinum – auk þess sem sjálfstæði Önnu var haft í hávegum. Svipað og ástatt var hjá mörgum börnum á þessum tíma var skólasókn stopul, en naut Anna þó tveggja mánaða farkennslu veturna 1911-1915 auk þess sem hún meðtók auðveldlega það sem fyrir augu og eyru bar.

Námskeið Sigrúnar Blöndal

Anna var fljót að tileinka sér önnur tungumál og náði meðal annars góðu valdi á ensku, þýsku og dönsku, eða þannig að hún gat gert sig vel skiljanlega. Á unglingsárunum sótti hún fimm vikna námskeið í vefnaði hjá frú Sigrúnu Blöndal, sem var afar virt á því sviði fyrir þekkingu sína og handbragð. Sú mæta kona var meðal annars handavinnudómari á Landsýningunni í Reykjavík árið 1930, samdi kennslubók í vefnaði árið 1932 og sótti ótrauð þing norrænna heimilisiðnaðarfélaga erlendis. Frumkvöðull á sínu sviði og má segja að frú Sigrún Blöndal hafi staðið að endurreisn íslensks heimilisiðnaðar. Að auki var hún ein stofnenda Húsmæðraskólans á Hallormsstað. En jæja.

Anna naut afar góðs af vefnaðarnámskeiðinu, fékk lof fyrir listileg vinnubrögð og átti eftir að vefa margan strangann næstu árin sér til hagnaðar. Lítið stóð henni til viðbótar hvað varðaði skólagöngu fyrr en hún var farin að nálgast þrítugt, en árið 1929 settist Anna hnarreist á skólabekk Alþýðuskólans á Laugarvatni.

Í kjölfarið vaknaði í henni einhver ævintýralöngun og hélt hún því til Reykjavíkur í fyrsta skipti ævinnar, árið eftir. Þar leigði Anna ofnlausa og ískalda herbergiskytru, að eigin sögn, og las námsefni sér til stúdentsprófs sem hún hafði mikinn hug á að þreyta hjá Lærða skólanum. Prestnám heillaði, en ekki tókst betur en svo að samspil náms og vinnu varð Önnu ofviða.

Einhvern veginn fór það þannig, eins og segir í viðtali Morgunblaðsins árið 1952, „Ég varð að leggja allan lestur á hilluna í þrjú ár. Ég virtist öll vera af mér gengin. Höfuðið gerði verkfall og taugarnar sömuleiðis.“

Anna ílengdist hins vegar í Reykjavík og eftir að hafa náð sér sæmilega tók hún til við barnakennslu auk almennrar byrjunarkennslu almennings í ensku. Ekki þótti henni það þó gefa nóg í aðra hönd og óf því og seldi vefnað næstu árin eða til ársins 1945 þegar annar handleggur hennar fór illa í lömunarveiki. Lömunarveikisfaraldurinn sem þá lagðist á almenning, einn nokkurra síðan árið 1924, var eðlilega mörgum til ama – en ekki var farið að bólusetja við slíku fyrr en árið 1956.

Ingimar Jónsson?

Anna lét þó aldrei bilbug á sér finna þó ýmislegt bjátaði á. Jafnframt því að hokra hálflömuð í höfuðborginni stóð hún í bréfastríði við Sverri nokkurn Kristjánsson, sagnfræðing og mann á svipuðum aldri. Þau virtust hafa ­lúmskt gaman af að kýta opinberlega, en meðal annars í ársbyrjun árið 1943 skrifar Sverrir í Þjóðviljann, þar sem hann vill meina að sú manneskja sem kallar sig Önnu frá Moldnúpi sé ekki til heldur komi viðkomandi fram undir dulnefni.

Hann vísar í lesendahorn Alþýðublaðsins sem kallað er „Hannes á horninu“ – að þar spyrji bréfritarar Hannesar hver í kapp við annan, hver þessi manneskja sé.

(Sverrir) „… Sagt er, að Hannes gangi nú hnugginn um holt og mó, leggjandi eyrun við freðinn svörðinn, ef verða mætti að í einhverjum hólnum heyrðist „Hó, hó og hæ, hæ, Hannes ei veit hvað ég heiti, ég heiti?“Vesalings litli Hannes, ef ófreskja drægi hann nú inn í Moldnúp. Af því að mér er vel við Hannes vil ég ráðleggja honum að segja við Önnu þegar hún kemur, á sumardaginn fyrsta: Ekki vænti ég að þú heitir Ingimar?“

Gilitrutt, réttmætur fulltrúi alþýðunnar

Á móti skrifar Anna í Þjóðviljann tveimur dögum síðar, telur sér skylt að uppræta þennan misskilning og þvo allan grun af bæði Ingimar, (sem er Ingimar Jónsson, skólastjóri við Gagnfræðaskóla Reykjavíkur) sem og af öðrum mætum mönnum bæjarins. Hins vegar skemmtir hún sér yfir kaldhæðni örlaganna þegar Sverrir líkir henni við Gilitrutt.

(Anna) „Hitt virðist aftur á móti undarleg kaldhæðni örlaganna, að hinn sagnfróði maður hittir hér á að líkja mér við Gilitrutt, og er það hér fyrst, sem ég heyri þig fara með reglulega staðreynd. Ég er nefnilega gamall vefari undan Eyjafjöllum, eins og Gilitrutt þjóðsagnanna.“ Og klykkir út, í lok greinar: „ ..að ef þú þurfir að þreifa á til að sannfærast, skaltu heimsækja mig á vefstofu mína, Sjafnargötu 12, og þá muntu sjá, að það er ekki Ingimar, heldur bara ég, Sigríður Anna Jónsdóttir frá Moldnúpi.

Gaman væri að vita hvort Sverrir hafi gert sér ferð á Sjafnargötuna, en alkunna var að hann taldi besta ráðið til þess að sigrast á freistingum – væri að falla fyrir þeim. Í minningargrein kom fram að hann væri allt í senn; „… sagnfræðingur og bókmenntamaður, orðræðumaður og rithöfundur, kommúnisti og fagurkeri, rómantíker og raunsæismaður, gleðimaður og þjóðfélagsgagnrýnandi …“

Sverrir var þó ekki eini maðurinn sem Anna skiptist á skoðunum við yfir samfélagsmiðla og háði hún ritdeilur við aðra þjóðþekkta menn. Anna hafði sterkar skoðanir og taldi þær vel mega heyrast þó hún tilheyrði ekki hinni æðri þjóðfélagsstétt. Sem fulltrúi alþýðunnar leist henni svo á að hún hefði jafnan rétt til að koma skoðunum á framfæri og voru það meðal annars réttmæt málefni sveitunga sinna og annarra utanbæjarmanna.

Út vil ek

Anna var bæði málefnaleg og greind og stóð fast á sínu. Lærdómsfús og forvitin að venju auk þess sem löngunin til að víkka sjóndeildarhringinn blundaði alltaf undir niðri. Kom enda að því, að henni tókst að safna sér fyrir utanlandsferð, þá á fimmtugsaldri er henni fannst hún þurfa hressingar við. Óvanalegt var á þessum tíma að konur í hennar stöðu geystust eitthvert út fyrir landsteinana en Anna lét ekkert stöðva sig þegar hún hafði tekið ákvörðun.

Út skyldi hún. Og það gerði hún vorið 1947, fyrst hringinn í kringum Ísland og þá áleiðis til Danmerkur. Eftir það ævintýri tók hún sig til, skrifaði og gaf út á eigin kostnað bókina „ Fjósakona fer út í heim“ árið 1950, auk þess að sjá um sölu á doðrantinum. Fjósakona fer út í heim, sem er rúmlega 450 síðna bók, hefur notið mikilla vinsælda bæði hérlendis og erlendis en hún var þýdd á ensku árið 2010 undir nafninu „A Dairymaid Travels the World.“

Sætir, feitir strákar

Í kjölfar Danmerkurferðarinnar tekst Önnu að nurla saman fyrir utanlandsferð árið eftir til Frakklands, svo fimm ferða innan Vestur-Evrópu til viðbótar – auk þeirrar síðustu, sem var til Bandaríkjanna árið 1964. Þá komin á sjötugsaldur.

Anna í Englandi með vinkonu sinni og gestgjafa, frú King, á leið í spássitúr.

Anna hreifst af menningu þeirra landa sem hún heimsótti, skoðaði kirkjur og söfn af miklum móð auk þess sem hún sætti færi á að kynnast innfæddum. Tók hún upp bréfaskriftir við nokkra nýja erlenda vini og héldust þau bönd ævina út. Bjartsýni og æðruleysi litaði ferðir hennar og má finna skemmtilegar og hnyttnar lýsingar á því sem fyrir augu bar. Þrátt fyrir reglulega peningaþurrð tókst Önnu ætíð að komast leiðar sinnar og hafa í sig og á enda með óbærilega trú á sjálfið, með guð sinn að leiðarljósi.

Anna var einhvern veginn aldrei við karlmann kennd þó tilvera þeirra hafi síður en svo farið fram hjá henni. Lýsingar hennar á hinu kyninu, þá sérstaklega eftir utanlandsferðir, er eitthvað sem hún smjattar á og lýsir fjálglega „… sætir og feitir með stór brún augu …“

Þó eiga þeir ekki alltaf upp á pallborðið hjá henni þessir útlensku, ens og kemur fram í bókinni Ást og Demantar. „ Í svipinn stórþótti mér við allt karlkyn og ég hugsaði með mér, mikið get ég nú verið vitlaus að halda að það þýði að brosa sakleysislega og frjálslega, við þessum skepnum, eins og þetta væru einhverjar göfugar verur.“

Heimsborgarinn Anna

Anna, sem hóf feril sinn sem ferðalangur um miðjan aldur, tók á sama tíma einnig upp feril rithöfundar af mikilli alvöru og gaf út bók eftir hverja ferð. Sá hún fyrir sér að lífga upp á tilveru þeirra sem heima sætu, en þó er haft eftir henni að ekki hafi hún í raun yndi af að skrifa. Hún ætti hins vegar mjög létt með það, verst væri að saman færi ekki alltaf hugur og hönd og hún, óafvitandi, væri stundum byrjuð að krota næsta orð á blaðið áður hið fyrra væri komið niður. Urðu bækur hennar sjö talsins, en síðasta bókin, sem gefin var út árið 1972, innihélt endurminningar hennar um föður sinn.

Þegar öllu er á botninn hvolft er einhvern veginn ekki hægt annað en að hugsa til hennar með aðdáun, handskrifandi mörg hundruð síður minninga sinna um útlöndin auk þess að standa keik á skoðunum sínum og lífssýn. Safna fyrir utanlandsferðum og útgáfukostnaði til viðbótar við að hafa í sig og á. Ímynd hinnar íslensku alþýðukonu, einstæðings sem samt nýtur þess hispurslaust að skreppa og skoða heiminn.

Sigríður Anna Jónsdóttir frá Moldnúpi lést svo södd lífdaga þann 28. september árið 1979, en eftir hana standa eftirfarandi bækur:

1950 Fjósakona fer út í heim
1952 Förukona í París
1954 Ást og demantar
1957 Eldgamalt ævintýri
1961 Ég kveikti á kerti mínu.
1970 Tvennar tíðir
1972 Í gengin spor

Að eldast með reisn
Líf og starf 26. janúar 2023

Að eldast með reisn

Öll skulum við ganga með sæmd og veita öðrum af visku okkar svo lengi sem við dr...

Sveitarfélög styðja hestamenn
Líf og starf 25. janúar 2023

Sveitarfélög styðja hestamenn

Sveitarfélögin fjögur í uppsveitum Árnessýslu, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafn...

„Viðurkenning fyrir að vera moldugur og á vaðstígvélum“
Líf og starf 24. janúar 2023

„Viðurkenning fyrir að vera moldugur og á vaðstígvélum“

Hafberg Þórisson, garðyrkjumaður og forstjóri garðyrkjustöðvarinnar Lambhaga, hl...

Tré ársins og pálmar í Sahara
Líf og starf 23. janúar 2023

Tré ársins og pálmar í Sahara

Annað tölublað skógræktarritsins 2022 kom út skömmu fyrir síðustu jól. Að venju ...

Tæknilegur Finni
Líf og starf 23. janúar 2023

Tæknilegur Finni

Bændablaðið fékk að prufa nýjan traktor á dögunum sem Aflvélar flytja inn. Eins ...

„Þetta var bölvaður bastarður “
Líf og starf 19. janúar 2023

„Þetta var bölvaður bastarður “

Sigurður Lyngberg Magnússon verktaki gerði út jarðýtur, valtara og aðrar vinnuvé...

Verðum að temja okkur breytt viðhorf
Líf og starf 18. janúar 2023

Verðum að temja okkur breytt viðhorf

Þórunn Wolfram tók við stöðu framkvæmdastjóra Loftslagsráðs um áramótin en síðus...

Vallarrýgresi ákveðið draumagras
Líf og starf 17. janúar 2023

Vallarrýgresi ákveðið draumagras

Fyrir jól gaf Landbúnaðarháskóli Íslands út ritið Fóðurgildi nokkurra nýrra gras...