Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hannes Rútsson hefur átt þessa JCB traktorsgröfu í næstum þrjá áratugi. Alla tíð hefur hann haldið henni vel við og vekur hún athygli þar sem hún er yfirleitt á áberandi stað við Reykjaveginn í Laugardal.
Hannes Rútsson hefur átt þessa JCB traktorsgröfu í næstum þrjá áratugi. Alla tíð hefur hann haldið henni vel við og vekur hún athygli þar sem hún er yfirleitt á áberandi stað við Reykjaveginn í Laugardal.
Mynd / ÁL
Líf og starf 24. nóvember 2022

Grafan í Laugardalnum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Fyrir utan einbýlishús skammt frá Laugardalslauginni stendur traktorsgrafa sem er orðin að kennileiti. Þessi grafa er af gerðinni JCB 3D II og var framleidd árið 1979. Hannes Rútsson hefur átt hana frá því árið 1993 og hefur haldið henni í góðu ástandi alla tíð.

Þegar þessi grafa var seld ný fór Globus hf. með umboðið fyrir JCB vinnuvélar. Fyrsti eigandi þessa eintaks var verktakafyrirtækið Vélgrafan ehf. á Selfossi. Þorsteinn Bjarnason, einn af þremur stofnendum þess fyrirtækis, man lauslega eftir þessari JCB gröfu. Helstu verkefni hennar voru skurðgröftur fyrir raf- og hitaveiturnar á Selfossi. Þar sem fyrirtækið átti margar vélar man hann ekki hver eignaðist þessa tilteknu gröfu þegar þeir seldu hana.

Sveinbjörn Jóhannsson, bóndi á Snorrastöðum við Laugarvatn, var á tímabili eigandi gröfunnar. Sonur hans, Jóhann Reynir, man ágætlega eftir þessari vél og segir hann að hún hafi verið á Snorrastöðum í nokkur ár. Eitt helsta verkefni hennar þegar hún var í eigu Sveinbjörns var að moka möl úr á, sem var notuð sem efni í vegi í sumarbústaðalöndum í nágrenninu. Líklegt verður að teljast að Sveinbjörn hafi keypt vélina af Vélgröfunni og þar með verið annar eigandi gröfunnar, þó það sé ekki alveg staðfest.

Setti nýtt ökumannshús

Þegar Hannes keypti vélina árið 1993 var hún í eigu Sveinbjarnar, en þá var kominn tími á nokkra yfirhalningu. Ári eftir að hann eignaðist gröfuna pantaði Hannes nýtt ökumannshús í gegnum Globus hf. Alla þá næstum þrjá áratugi sem Hannes hefur verið eigandi gröfunnar hefur hann passað upp á að halda henni í góðu ástandi. Allt virkar eins og það á að virka og myndi hún rjúka í gegnum skoðun samkvæmt Hannesi.

Á þessum árum starfaði Hannes við jarðvinnu á höfuðborgarsvæðinu og var grafan keypt til að sinna verkefnum því tengdu. Hann hefur átt fleiri vinnuvélar, og þar af tvær frá JCB, en er þetta sú eina sem hann á enn þá. Aðspurður um kosti grafanna frá þessum framleiðanda, þá segir Hannes að þær séu mun skemmtilegri en vélar frá öðrum merkjum sem algeng voru á þessum árum, eins og Case.

Þessi tiltekna vél er „gamlingi“ eins og Hannes orðar það. Öllu er stjórnað með gamaldags vökvastöngum og er nær ekkert rafmagn sem kemur við sögu. Þar að auki er hún ekki útbúin framhjóladrifi. Þrátt fyrir þetta hefur hún reynst Hannesi vel, enda er hún mjög sterkbyggð.

Ekki í reglulegri vinnu í 15 ár

Undanfarin 15 ár hefur vélin ekki verið í reglulegri vinnu. Síðasta stóra verkið hennar var mokstur á lóðinni í kringum einbýlishúsið þar sem Hannes býr. Að öðru leyti er hún ekkert notuð nema til að moka snjó rétt í kringum heimilið.
„Ég verð einhvers staðar að hafa þetta grey,“ segir Hannes aðspurður um ástæðu þess af hverju svona vel með farin 43 ára gömul traktorsgrafa er geymd við einbýlishús í íbúðahverfi. Hann stefnir þó að því að koma henni norður á Siglufjörð þar sem hann hefur aðstöðu til að geyma vélina.

Síðasta stóra verkið sem Hannes vann á vélinni var endurnýjun lóðarinnar á heimili sínu. Mynd/Aðsend


Skemmdist í sprengju

Skammt frá heimili Hannesar er stórt bílastæði sem fylgir Laugardalsvellinum. Núna forðast hann að geyma gröfuna þar eftir að spellvirki voru unnin á henni þar á gamlárskvöld 2019. Í kringum miðnætti heyrði hann sprengjuhvell sem var hærri en eðlilegt var. Hannes leit þá út um gluggann og sá hvar grafan stóð í björtu báli, en þá hafði hópur ungmenna komið sprengju fyrir inni í ökumannshúsinu. Með snöggu viðbragði náði hann að slökkva eldinn, en tjónið var umtalsvert. Í kjölfarið þurfti Hannes að endurnýja allar rúður og klæðningar í húsinu og endurnýja hluta af rafkerfinu.

Ýmsir hafa sýnt vélinni áhuga í gegnum tíðina og óskað eftir að kaupa hana. Enginn þeirra hefur þó boðið Hannesi fjárupphæð sem hann hefur sætt sig við.

Skylt efni: saga vélar

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...