Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Caterpillar D6C jarðýta var sérútbúin til að draga lokræsisplóginn. Meðal aukabúnaðar voru spil á tönninni til að draga ýtuna úr festu. Auðvelt var að losa plóginn aftan úr.
Caterpillar D6C jarðýta var sérútbúin til að draga lokræsisplóginn. Meðal aukabúnaðar voru spil á tönninni til að draga ýtuna úr festu. Auðvelt var að losa plóginn aftan úr.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 16. mars 2023

Gerði lokræsi um land allt

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Pálmi Jónsson fór um land allt og útbjó lokræsi í ræktarlandi bænda með plógi smíðuðum á Íslandi. Plógurinn er enn til, en Pálmi, sem verður níræður í sumar, vann síðast á honum 82 ára gamall. Plógurinn sker ferhyrningslaga streng undir yfirborðinu, færir til hliðar og skilur eftir ferstrent ræsi.

Pálmi Jónsson, jarðýtustjóri frá Sauðárkróki, fór um land allt með lokræsisplóg og ræsti fram mýrar.

Um miðja 20. öldina var mikill gangur í að breyta mýrum í ræktarland. Þar sem aðstæður leyfðu var hægt að ná enn betri þurrkun með því að útbúa lokræsi undir yfirborðinu og þar með minnka þörfina á opnum skurðum. Árni Snæbjörnsson gerir mismunandi aðferðum við gerð lokræsa góð skil í 17. tölublaði Freys árið 1987. Þar skrifar hann að fyrst um sinn hafi aðallega verið notast við svokallaða kílplóga, þar sem sívalningur var dreginn neðanjarðar, þrýsti jarðveginum í sundur og skildi eftir sig kílræsi.

Vélasjóður hafði forgöngu fyrir því að flytja inn finnskan lokræsisplóg árið 1962 og byggir plógurinn hans Pálma að einhverju leyti á þeirri fyrirmynd. Nokkrar gerðir lokræsisplóga voru í notkun á áratugunum þar á eftir og unnu þær á svipaðan hátt. „Aðalplógurinn lyftir jarðveginum upp, undir er svo minni plógur sem sker streng (20x30 cm) og færir hann til hliðar undir jarðveginum sem lyft var. Eftir stendur svo ferstrent ræsi,“ skrifar Árni Snæbjörnsson.

Þversnið af lokræsinu sem plógurinn skilur eftir sig. Láréttur skeri lyftir upp torfunni og er ferstrendur strengur færður til hliðar undir yfirborðinu.

Upphaflega Eggerts-plógurinn

Eggert Hjartarson frá Hvammstanga smíðaði svokallaðan Eggerts-plóg árið 1963. Hann vann á honum næstu sumur, en Pálmi Jónsson keypti plóginn og jarðýtuna árið 1967. Þessi tæki eru til enn í dag en Pálmi gerði nokkrar breytingar í gegnum tíðina. Plógur Eggerts var upphaflega með tvo skera sem fóru niður í jörðina hlið við hlið. „Ég breytti honum í það að skera niður á einum stað. Þegar hann tók niður á tveimur stöðum tók hann oft jarðveginn með sér upp og það kom ekki nógu vel út,“ segir Pálmi.

Hallinn á yfirborðinu á lárétta skeranum lyftir jarðveginum upp sem nemur tuttugu sentímetrum til þess að pláss sé fyrir strenginn. Á meðfylgjandi skýringarmynd sést hvernig strengurinn veltir um níutíu gráður þegar hann leggst til hliðar við rásina. Þar sem skurðurinn upp á yfirborðið er til hliðar við rásina sekkur jarðvegurinn síður niður í tómarúmið. Á vellinum sést rás eftir lóðrétta skerann og jarðvegurinn fyrir ofan strenginn er ögn hærri.

Plógurinn er dreginn af Caterpillar D6C jarðýtu. Tvö hjól er á plóginum sem er hægt að hækka og lækka eftir þörfum. Vinnsludýptin er á bilinu einn til einn og hálfur metri, en algengast var að ræsin væru 120 sentímetra neðan við yfirborðið og væru lögð með sex metra millibili. „Ég bakkaði plóginum á hjólunum að skurðbakkanum og slakaði honum svo niður í skurðinn. Þá fóru hjólin upp og plógurinn niður. Svo þegar ég fór að taka plóginn upp úr mýrinni þá setti ég tjakk í gang sem setti hjólin niður og plógurinn kom upp,“ segir Pálmi.

Pálmi kom fyrir tveimur öflugum spilum framan á jarðýtutönninni. „Hún gat dregið sig upp sjálfa ef hún sökk niður. Ég festi hana oft smávegis, en ég náði henni yfirleitt alltaf upp,“ segir Pálmi, en hann þurfti þó stöku sinnum utanaðkomandi aðstoð. Þar sem plógurinn var laustengdur við jarðýtuna var auðvelt að losa hann frá ef vélin var föst.

Hringferð í kringum 1970

Pálmi hefur lengst af búið á Sauðárkróki, en fór með plóginn um land allt. Á árunum í kringum 1970 fór hann í hringferð sem tók nokkur sumur. „Það var þó nokkuð að gera austur á Héraði, og Árnessýslan og Rangárvallasýslurnar voru mjög drjúgar,“ segir Pálmi, en eini landshlutinn sem hann sinnti ekki voru Vestfirðir.

Mikil eftirspurn var eftir hans þjónustu og segist hann hafa farið hringinn að hluta til aftur. „Það voru víða menn sem tóku þetta ekki fyrst en sáu svo hvernig þetta kom út hjá öðrum og sáu eftir því. Ég sé hérna í gamalli bók hjá mér að ég hef verið á Seljavöllum 1970 – hjá Agli bónda, þannig að það hefur verið eitthvað fyrir þann tíma sem ég byrjaði á þessu,“ segir Pálmi, en hringferðin hófst í Húnavatnssýslunum.

Ræsin virkuðu strax

Yfirleitt voru lokræsin lögð í mýrar sem átti eftir að rækta. „Ég var með tveggja metra prjón sem ég bjó mér til úr stáli. Með því að stinga honum niður í jarðveginn fann ég hvernig landið lá,“ segir Pálmi, en plógurinn virkaði ekki nema í mjúkum mýrarjarðvegi.

„Ég byrjaði neðst í skurðinum og fór upp í móti, þannig að vatnshalli væri á lögninni,“ segir Pálmi, en þannig gat vatnið átt greiða leið. Lengd ræsanna fór eftir lögun og stærð túnanna, en Pálmi segir að þau hafi oft verið á bilinu 100-300 metrar. „Ef það fór yfir það gat vatnsmagnið orðið hættulega mikið að það gæti grafið sig. Það kom fyrir ef það var blaut mýri að það var farið að flóðrenna úr ræsinu þegar ég kom til baka.

Við vorum yfirleitt tveir. Þetta var unnið á vöktum nótt og dag,“ segir Pálmi. Einungis var hægt að sinna þessari vinnu á sumrin og því var reynt að afkasta sem mestu á sem skemmstum tíma.

Nýleg mynd tekin á Suðurlandi.

Hyggst nota plóginn áfram

Heimir Pálmason vann á tímabili með föður sínum á plóginum. „Fyrstu árin var alveg óskaplega mikið að gera í þessu. Þetta var niðurgreitt af ríkinu. Mig minnir að bóndinn hafi þurft að borga þrjátíu prósent og ríkið sjötíu prósent,“ segir Heimir. Hann bætir við að þetta hafi verið gott starf, en oft fylgdi þessu mikið strit ef mýrin var blaut og ýtan festist. „Pabbi fór einu sinnu ofan í mógröf og reis upp á endann við að fara upp úr henni og þá bræddi jarðýtan úr sér.“

Núna er jarðýtan og plógurinn staðsett í Flóanum. „Þar endaði pabbi síðast og fékk að geyma hana hjá bóndanum. Þannig var það hjá pabba alltaf, hann fékk að skilja tækin eftir á hinum og þessum bæjum yfir veturinn.“ Heimir hefur tekið við vörslu vélarinnar og stefnir að því að nota hana áfram ef ræktendur óska eftir hans þjónustu, enda virka jarðýtan og plógurinn enn.

Skylt efni: saga vélar

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...