Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Útskrift og afmælisfögnuður Annríkis 5. júní 2021. Nemendur og gestir mættu prúðbúnir og fögnuðu áfanganum.
Útskrift og afmælisfögnuður Annríkis 5. júní 2021. Nemendur og gestir mættu prúðbúnir og fögnuðu áfanganum.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 19. júlí 2021

Fólk streymir á námskeið til að sauma sér langþráðan þjóðbúning

Höfundur: Magnús Hreiðar Hlynsson

Annríki - Þjóðbúningar og skart ehf. er fyrirtæki í Hafnarfirði sem sérhæfir sig í öllu er viðkemur íslenskum þjóðbúningum. Það var stofnað 1. júní 2011 og er því 10 ára. Eigendur eru Guðrún Hildur Rosenkjær, klæðskera- og kjólameistari og sagnfræðingur, og Ásmundur Kristjánsson, vélvirki og gullsmiður. Þau sérhæfa sig í öllu sem viðkemur íslenskum þjóðbúningum og hafa menntað sig til að vera betur fær um að sinna því starfi. Í dag reka þau saumastofu og sérhæfða verslun með efni og tillegg í búningana. Þau smíða líka þjóðbúningaskart og eiga stórt þjóðbúningasafn sem fólk getur komið og skoðað. Auk þess býður Annríki upp á fjölbreytt búninga- og handverksnámskeið, bæði í Annríki og víða um land, ásamt fyrirlestrum og fræðslu. Fyrirtækið er staðsett að Suðurgötu 73, Hafnarfirði. Guðrún Hildur, alltaf köllu Hildur, svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Þjóðbúningakennsla í 14 ár

– Hvað kom til að þið stofnuðuð fyrirtækið á sínum tíma?
„Eftir að ég hafði leiðbeint við þjóðbúningakennslu hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í 14 ár og rekið Þjóðbúningastofuna frá 2001 var kominn tími til að taka ný skref. Með námi okkar beggja veittust tækifæri til rannsókna á sögu búninganna og þeirri þekkingu vildum við deila með fleirum. Með þeirri sérhæfingu sem við höfum nú hefur okkur tekist að vekja enn frekari áhuga fólks á þessum mikilvæga menningararfi,“ segir Hildur.

Landsbyggðin þakklát

– Hvernig hefur gengið í þessi 10 ár og hvernig hefur starfsemin vaxið frá ári til árs?
„Það má segja að fyrirtækið hafi frá upphafi vaxið og dafnað og aldrei skortur á verkefnum. Alger sprenging varð í námskeiðahaldinu strax frá upphafi og stöðugt fjölgar þeim sem vilja sauma sér búninga. Fólk á landsbyggðinni er afar þakklátt fyrir að fá námskeið í heimabyggð og þeirri þjónustu viljum við sinna vel. Í upphafi voru yfirleitt tvö námskeið á önn, eitt námskeið í Annríki og annað á landsbyggðinni en þau eru kennd um helgar (4 helgar á önn). Nú er svo komið að hægt væri að kenna flest kvöld vikunnar og flestar helgar og því nauðsynlegt að skipuleggja starfsemina vel,“ segir Hildur og bætir við: „Fjöldi nemenda telst í hundruðum og þannig höfum við eignast góða vini í gegnum árin. Í kringum störf okkar á landsbyggðinni hafa orðið til félög sem nemendur stofna, t.d. Þjóðbúningafélag Vestfjarða, Þjóðbúningafélagið Auður í Vesturbyggð, Pilsaþytur í Skagafirði og nýjast er Hollvinafélag Annríkis sem skipað er hópi fólks sem vill styðja við fræðastörf okkar.“

Námskeiðin hafa slegið í gegn

– Ef marka má áhugann á námskeiðum ykkar þá eruð þið að gera mjög góða hluti þar. Hvers konar námskeið eruð þið aðallega að bjóða upp á og hvaða námskeið eru vinsælust og fá bestu viðtökurnar?
„Já, við bjóðum upp á ellefu vikna námskeið í að sauma upphlut, peysuföt eða barnabúninga. Þau eru alltaf vinsæl og vel sótt. Herrabúningar eru líka kenndir á ellefu vikna námskeiðum og hefur áhugi karlmanna stóraukist. Stóru fald-, kyrtil- og skautbúningsnámskeiðin, sem eru þriggja ára námskeiðsraðir, hafa gert mikla lukku. Þetta eru mjög umfangsmikil námskeið þar sem nemendur læra fjölbreytt handverk og skreytiaðferðir við gerð búninganna. Miðað við fjölda slíkra búninga má segja að þau hafi slegið í gegn. Þessi áhugi liggur ekki síst í þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur með rannsóknum og fræðastarfi á undanförnum árum og deilum með áhugasömum nemendum.“

Sérsniðnir búningar á hvern og einn

– Hvað eru vinsælustu búningarnir til að sauma og af hverju heldur þú að þeir búningar séu vinsælli en aðrir?
„Langflestir nemendur eru konur sem koma að sauma sér langþráðan þjóðbúning sem í hugum flestra er upphlutur 20. aldar og peysuföt. Margar konur sauma líka á dætur, tengdadætur og barnabörn. Ekki er óalgengt að þær komi á mörg námskeið og fá þá búningana tilsniðna, leiðsögn og mátun. Búningarnir eru því sérsniðnir á hvern og einn og fara vel. Auk þess njóta þær félagsskaparins og fræðslunnar en í þeim hópi eigum við marga trygga vini og félaga. Búningar 20. aldar eru þeir búningar sem landsmenn þekkja best og við munum eftir virðulegum formæðrunum uppábúnum. Víða í fjölskyldum er líka til skart sem á að nota og Ási sér þá um að lagfæra og fríska upp á það ef með þarf. En eftir því sem við rannsökum betur búninga fortíðar þá vaknar áhugi fólks á þeim líka,“ segir Hildur.

Ullin var mikilvæg

– Svona að lokum, saga íslenska þjóðbúningsins í stuttu máli, hver er hún og hvað er merkilegt við þann búning í samanburði við aðrar búninga í öðrum löndum?
„Já, þú segir nokkuð. Bún­inga­­saga Íslendinga er í flestu lík sögu annarra þjóða en þó með greinilegum íslenskum einkennum. Fatnaður er ávallt unninn úr því hráefni sem völ er á hverju sinni og á Íslandi var ullin mikilvæg. Landnámsmenn báru vitanlega búninga samkvæmt sinni tísku, sem skreyttir voru bæði með útsaumi og skarti en einnig eftir tísku og þróun samfélaga í gegnum aldirnar. Um miðja 18. öld fjölgaði ferðum erlendra landkönnuða til landsins og vitanlega beindist áhugi þeirra að lífsháttum og siðum landsmanna. Faldbúningar kvenna vöktu mikla athygli enda þóttu þeir ólíkir því sem gerðist á meginlandinu. Ýmist þóttu þeir glæsilegir eða til óprýði og tóku margir íslenskir karlmenn undir ógagn þeirra. Málið var rætt víða, m.a. í Kaupmannahöfn á fyrri hluta 19. aldar í hópi menntamanna sem í hringiðu sjálfstæðisrómantíkur töldu það nauðsyn hverrar þjóðar,“ segir Hildur og bætir strax við: „Með aðkomu Sigurðar málara Guðmundssonar um miðja 19. öld urðu verulegar breytingar og til urðu skautbúningur, kyrtill og upphlutur, sem ásamt peysufötum þróuðust inn í 20. öldina. Þannig hélt þjóðleg tíska velli og í dag berum við stolt búninga formæðra og -feðra sem sparibúninga á tyllidögum.“

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...

Fræ í frjóa jörð
Líf og starf 8. apríl 2024

Fræ í frjóa jörð

Fræbankar hafa á síðustu árum skotið upp kollinum hér og þar, en Svanhildur Hall...

Skyndibitar fyrir sálina
Líf og starf 5. apríl 2024

Skyndibitar fyrir sálina

Veitingar á vegum úti hafa í gegnum tíðina helst hljóðað upp á undirstöðugóðan a...

Íslensk tunga kveikir elda
Líf og starf 4. apríl 2024

Íslensk tunga kveikir elda

Undir Eyjafjöllunum skín alltaf sól segja sumir. Tíðarfarið, eins og víðast anna...