Feitur maður fótbrotnar
Eitt af svipmeiri stórbýlum landsins er Vallanes á Héraði, eða Vallanes á Völlum eins og staðurinn var jafnan nefndur. Þar glóa víðáttumiklir akrar milli hárra skjólbelta og flest vex þar og dafnar sem annars fær sprottið hér á landi. Bændurnir reka kaffihús sem smíðað er úr heimagrónum stofnum og ætti enginn að fara um Austurland án þess að koma þar við og smakka á gróðri jarðar.
Vallanes hefur alltaf verið myndarjörð og má til dæmis sjá af manntalinu 1703 að ásamt Skriðuklaustri, Bustarfelli í Vopnafirði og Eydölum í Breiðdal var Vallanes fjölmennasta býli á Austurlandi með um 30 manna áhöfn. Þar bjó þá sóknarpresturinn Ólafur Stefánsson með konu sinni, Halldóru Björnsdóttur, og krakkaskara, vinnufólki, fylgifiskum og óvinnufærum karliggjendum. Allt um kring voru svo smákot og húsmennskubýli þar sem búskapurinn var reyrður saman við starfið á höfuðbúinu með kvöðum, landskuldum og afgjöldum. Efstur í þessu litla héraðsríki trónaði svo sóknarpresturinn sem jafnframt var staðarbóndinn.
Séra Ólafur Stefánsson var heimamaður, fæddur í Vallanesi 1658 og alinn þar upp, sigldur maður. Hann hafði farið til Kaupmannahafnar til að nema guðfræði við háskólann og var þar samtíða Árna Magnússyni handritasafnara og urðu þeir miklir mátar og aðstoðaði Ólafur félaga sinn síðan löngum við handritasöfnunina. Kona hans, Halldóra, var dóttir eins skrautlegasta karakters landsins á þessum árum (og er þá mikið sagt), Björns Magnússonar, sýslumanns og klausturhaldara á Munkaþverá í Eyjafirði.
Björn var af mektugum kominn en kaus að eyða ævinni í sífelldu málaþvargi við ættingja og venslafólk, ekki síst systur sína, og tapaði smám saman auði og æru vegna skapgerðarbresta, átti í vandræðum með brennivín, var í sífelldu brasi, kærður fyrir vanrækslu og eyddi ótal árum í að verjast ásökunum óvina sinna og gat ekki á meðan goldið til krúnunnar það sem hann rukkaði inn af landsetum á klausturjörðum og af sektargjöldum. Hann var í Kaupmannahöfn árum saman að reka mál sín með misjöfnum árangri, missti öll sín embætti og dó tignum rúinn á leið til Íslands með fari Reyðarfjarðarkaupmanns. Líkinu var dröslað um Fagradal heim í Vallanes til Halldóru og Ólafs og þar liggur Björn grafinn.
Góðir dagar
Þrátt fyrir ótal góða kosti og gáfur hefur Ólafs Stefánssonar ekki verið minnst í þjóðarsögunni. Öllu kunnari er hins vegar faðir hans, Vallanessbóndinn Stefán Ólafsson, höfundur þjóðkunnra kvæða á borð við Meyjarmissi („Björt mey og hrein / mér unni ein“) og Grýlukvæðis („Ég þekki Grýlu / og ég hef hana séð“). Stefán fæddist úti í Tungu, á Kirkjubæ, líklegast árið 1618, sonur prófasts Múlasýslu, lærdómsmanns og skálds, Ólafs Einarssonar. Þar óx Stefán úr grasi með systkinum sínum með gríðarútsýni í allar áttir, Dyrfjöll hér og Snæfell þar, og í kvæði eftir hann minnist hann einnig á þann fjölda af verum og vættum sem bjuggu í túnfætinum, svo sem skötuna í fossinum í Lagarfljóti þar sem nú er Lagarfossvirkjun, sel mikinn sem fór um fljótið og náttúrlega orminn sjálfan.
Stefán lærði í Skálholti, fór svo til Kaupmannahafnar í framhaldsnám. Hann lauk prófi vorið 1648 og kom aftur heim með Eyrarbakkaskipi því hugsunin var að hitta fyrst velgjörðarmann sinn, Brynjólf biskup Sveinsson í Skálholti, en hann tafðist nokkuð sunnanlands sökum þess hve lítt reiðhestar voru framgengnir eftir hörmungavor. Að endingu brögguðust þó klárar Sunnlendinga nægilega til að hægt væri að ríða austur. Í föðurgarð á Kirkjubæ kom hann síðsumars 1648 og fékk um það leyti veitingu fyrir Vallanesi. Hann var vígður til embættis í ársbyrjun 1649, dreif í að gifta sig vel ættaðri stúlku frá Auðbrekku í Hörgárdal, Guðrúnu Þorvaldsdóttur, og bjó síðan í Vallanesi til æviloka 1688. Eignaðist hóp barna, þar á meðal synina Þorvald, sem varð prestur á Hofi í Vopnafirði, og svo fyrrgreindan Ólaf, auk dætranna Þóru, Rannveigar, Guðrúnar og Önnu, sem allar giftust prestum og er sægur fólks af þeim systkinum kominn, sumt nafntogað.
Stefán varð fyrst og fremst kunnur af skáldskapargáfu sinni. Skáldskapur hans er afar fjölbreyttur og má heita að ekki sé til sú kveðskapargrein sem til var um hans daga að hann hafi ekki reynt fyrir sér í henni. Í kvæðum hans er áberandi tónn kerskni og kátínu sem getur fljótt slegið yfir í ádeilu. Af skáldskapnum má sjá að hann hafði lifandi áhuga á umhverfi sínu og öllum þeim sem hírðust á kotunum í kringum Vallanes sem og raunar um allt Hérað. Kvæðin geyma mýgrút smámynda af fólki við dagleg störf en líka mýgrút smámynda um aulagang, hyskni, tilgerð, hvinnsku og klaufsku þessa almúgafólks. Frá þessu er þó sagt á þann hátt að erfitt er annað en að kíma við, jafnvel hrífast, því frá öllu er greint af einstakri orðkynngi.
Vel við vöxt
En svo kom að því að örlögin gripu í taumana. Í kvæði sem hefur yfirskriftina „Svanasöngur“ í flestum handritum segir Stefán í guðfræðilegum búningi söguna af sjálfum sér. Hann kemur í Vallanes vorið 1649 og tekur við mektarbýli. Þessi árin var veðurfar óvenjulega gott á landinu, þótt auðvitað kæmi hret við og við. Sagnfræðingar eru nú á því að einn helsti blómatími fyrri alda hafi verið tímabilið frá 1640 að telja til 1670. Búskapurinn gekk því vel, Stefán var forvígismaður í sinni sveit, varð prófastur Múlaþings, hlóð niður krökkum og samdi kvæði og söng lög. Svo gerist það þegar Stefán segist hafa verið búinn að renna „tvisvar tvenna“ áratugi ævi sinnar að hann veikist. Stefán tilgreinir ekki sjálfur í kvæðinu með neinni nákvæmni hvað hafi komið fyrir, lætur nægja að segja að þá hafi hafist „heilsuránið“. Í Eyrarannál er þess hins vegar getið að árið 1658 hafi Stefán fótbrotnað. Stefán var það stór kall að það þótti fréttnæmt vestur við Ísafjarðardjúp að hann hefði misstigið sig.
Um þennan atburð spunnu Austfirðingar þjóðsögur, svo sem að Hornfirðingar, sem sérstaklega þóttu hafa farið illa út úr kerskniskvæðum Stefáns, hefðu hefnt sín með sendingu á hann. Opinberar heimildir sýna að eitthvað var að, Stefán þurfti aðstoðarpresta til að embætta fyrir sig fljótlega eftir þetta. Enn aðrar heimildir segja svo frá líkamlegu standi hans. Stefán hreinlega var orðinn allt of feitur. Hann gat ekki staðið almennilega á fótunum, né gátu aðrir hestar en alhörðustu áburðarklárar borið hann.
Ekki þótti honum þetta þó alslæmt sjálfum. Hann hafði nefnilega fyrir sið að senda nýjustu tölur um mittismál sitt á vin sinn í Njarðvík eystri hvert haust og fá samsvarandi tölur frá hinum til baka. Þannig lögðu stórmenni 17. aldar mat á eigin verðleika. Því feitari, því betra. Þangað til að fæturnir báru mann ekki lengur. Stefán varð þannig fórnarlamb þeirrar einstöku hamingju að fá að búa í Vallanesi á Völlum.
