Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Önnur kynslóð Volkswagen Amarok mun veita öðrum pallbílum öfluga samkeppni. Kraftmikil þriggja lítra dísilvél, öflugt fjórhjólakerfi og þægileg innrétting eru meðal helstu eiginleika.
Önnur kynslóð Volkswagen Amarok mun veita öðrum pallbílum öfluga samkeppni. Kraftmikil þriggja lítra dísilvél, öflugt fjórhjólakerfi og þægileg innrétting eru meðal helstu eiginleika.
Mynd / ÁL
Líf og starf 8. ágúst 2023

Evrópsk-amerískur pallbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk á dögunum til prufu splunkunýjan Volkswagen Amarok. Þetta er önnur kynslóð pallbíla með þessu nafni frá þýska bílaframleiðandanum, en sú fyrri gat sér góðan orðstír. Amarok myndi teljast til millistórra pallbíla og keppir þá helst við Toyota Hilux, Isuzu D-Max og Ford Ranger.

Þróun Amarok var unnin í nánu samstarfi við bandaríska bílaframleiðandann Ford. Þessi pallbíll situr á sama undirvagni og notar sömu vél og drifrás og Ford Ranger. Á móti fær Ford að nýta undirvagninn sem Volkswagen þróaði fyrir rafmagnsbílinn ID.3. Engir boddíhlutir eru sameiginlegir með Ranger og er innréttingin alfarið runnin úr ranni Volkswagen.

Ef einhver hefur náð tökum á smíði pallbíla, þá er það Ford, á meðan sá framleiðandi sem er einna bestur í að setja saman notendavænar innréttingar er Volkswagen. Niðurstaða þessa samstarfs getur því ekki verið annað en góð.

Myndarlegur í persónu

Volkswagen Amarok er einn þeirra bíla sem lítur mun betur út í persónu en á myndum. Útlitið er kraftalegt, með stóru grilli og háu húddi. Það þarf enginn að vera í vafa um að þetta sé Volkswagen, því Amarok minnir um margt á aðra jeppa frá sama framleiðanda, eins og Tiguan. Svo er VW merkið í miðju grillsins á stærð við kökudisk.

Bíllinn sem Bændablaðið fékk til prufu var af Pan Americana útgáfunni, sem er næstdýrasta týpan og með öllum þeim búnaði sem hugurinn girnist. Enn fremur var Hekla búin að setja 32 tommu dekk undir bílinn, sem var hægt að gera án breytinga. Stór dekkin gera útlitið enn kraftalegra en ella.

Þótt Amarok sé með fágaða hönnun, þá er þetta vinnubíll. Að aftan er stór pallur, nógu breiður til að rúma EURO-bretti á þverveginn.

Amarok er vinnutæki með stórum palli. Á milli hjólaskálanna er nægt rými fyrir EURO-bretti á þverveginn.

Innrétting fyrir augað

Þegar sest er um borð tekur á móti manni týpísk Volkswagen innrétting. Allar línur og hlutföll eru úthugsuð og er hún mikið fyrir augað. Enn fremur virðist allt vera vel skrúfað saman og smíðað til að endast.

Í miðju innréttingarinnar er stór margmiðlunarskjár sem snýr ekki á breiddina, heldur hæðina. Volkswagen fékk stýrikerfið að láni frá Ford, en hefur breytt öllu viðmótinu þannig að það lítur út eins og allt annað frá Volkswagen.

Að mörgu leyti er þetta gott margmiðlunarkerfi – til að mynda tekur enga stund að tengja síma þráðlaust með Android-Auto eða AppleCarplay – en það hefur líka nokkra galla. Þar má helst nefna að engir hnappar eru til að stjórna miðstöð. Því þarf ökumaðurinn að beina óþarflega mikilli athygli til að hitta akkúrat rétt á snertiskjáinn og fara í gegnum öll þau skref sem nauðsynleg eru til þess eins að stilla blásturinn.

Á móti þessu vegur stór kostur, sem er frábært 360° gráðu myndavélakerfi. Þótt Amarok sé stærðarinnar bifreið, þá er leikur einn að leggja henni, þar sem margmiðlunarskjárinn sýnir skýrar og bjartar myndir úr öllum áttum.

Það er mikil synd að myndavélakerfið nýtist ekki þegar ekið er utanvegar, en það er fljótt að slökkva á sér um leið og ekið er áfram.

Innréttingin er mjög sambærileg þeim sem eru í öðrum Volkswagen bifreiðum. Margar stillingar eru í sætum og stýri, en sessan er í styttra lagi.

Duglegur á jeppaslóðum

Amarok er prýðilegur torfærujeppi. Það er býsna hátt undir bílinn og eru 32 tommu dekkin, sem Hekla setti undir, með öflugu gripi. Í þjóðvegaakstri er Amarok almennt í afturhjóladrifi, en með snúningstakka í miðjustokknum er hægt að velja fjórhjóladrif, læsa millikassa og setja í lága drifið. Jafnframt kemur bíllinn með driflæsingu að aftan.

Þegar ekið er niður brekkur er hægt að láta bílinn halda hraðanum rafrænt við 3–4 kílómetra hraða, en hann fer hraðar niður brekku í fyrsta gír í lága.

Hekla setti 32 tommu dekk undir bílinn, sem gerir hann kraftalegan á að líta og gefur góða torfærueiginleika.

Afslappandi þjóðvegabíll

Ein sterkasta hlið Amarok er hversu góður bíllinn er á þjóðvegum. Ökumannshúsið er vel hljóðeinangrað og er algjörlega á pari við fólksbíla frá Volkswagen. Fullkomin akstursaðstoð, eins og skynvæddur hraðastillir og akreinavari, er staðalbúnaður. Þjóðvegaakstur er því afslappandi.

Sætin eru með rafmagnsstillingum og ættu lágir sem háir að geta komið sér vel fyrir. Rétt er þó að nefna að sjálf sessan er full stutt og stíf, sem gerir ökumanninn þreyttan í lærunum eftir langan akstur.

V6 vélin er öflug og er bíllinn enga stund að ná hámarkshraða. Þegar gefið er inn heyrist þýður ómur sem einkennir sex strokka vélar. Tíu þrepa sjálfskiptingin er hnökralaus og maður veit ekkert af henni. Í lausagangi berst nokkur titringur frá vélinni inn í ökumannshúsið, sem minnir mann á að Amarok er í grunninn vinnubíll.

Þrír fullorðnir geta setið án mikilla vandræða í aftursætunum.

Tölur

Helstu mál Amarok eru: hæð, 1.884 mm; breidd, 1.917 mm; lengd, 5.390 mm. Burðargeta á palli er 1.000 kg og er dráttargetan 3.500 kg. Verðið á Amarok Life, með minni vél og sjálfskiptingu, er 10.790.000 kr. Volkswagen Amarok Pan Americana er á 14.390.000 kr. án stærri dekkja. (Verð með vsk.)

Að lokum

Volkswagen Amarok er góður pallbíll og veitir öfluga samkeppni á sínum markaði. Allir pallbílar eru vinnutæki, en Volkswagen hefur náð að fela það að mestu með þykku lagi af fágun og þægindum. Sterkustu hliðar Amarok eru þær að þetta er pallbíll með aksturseiginleika á þjóðvegum og í þéttbýli á pari við Volkswagen Golf. Amarok hefur ágæta eiginleika til utanvegaaksturs, en á markaðnum eru margir jeppar sem eru umtalsvert öflugri torfærutæki.

Skylt efni: prufuakstur

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...

Þýzka stálið
Líf og starf 24. nóvember 2023

Þýzka stálið

Bændablaðið fékk til prufu dráttarvél af þriðju kynslóð 300 línunnar hjá Fendt s...

Konunglegur smjörkálskjóll
Líf og starf 22. nóvember 2023

Konunglegur smjörkálskjóll

Á tískuviku Lundúnaborgar nú í september vakti athygli sjálfbær tíska hönnuðanna...

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum
Líf og starf 21. nóvember 2023

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum

Nemendur í blómaskreytingum hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands fóru ásamt kennurum o...

Fjáreigendafélag Reykjavíkur  er menningarverðmæti
Líf og starf 16. nóvember 2023

Fjáreigendafélag Reykjavíkur er menningarverðmæti

Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út bók dr. Ólafs Dýrmundssonar Sauðfjárh...

Málgagnið finnst víða
Líf og starf 15. nóvember 2023

Málgagnið finnst víða

Hjörleifur Jóhannesson tók þessa skemmtilegu mynd af búðareiganda í Tam Duong í ...

Saumum nú jólaskraut
Líf og starf 15. nóvember 2023

Saumum nú jólaskraut

Í stjórn Íslenska bútasaums- félagsins sitja nokkrar mætar konur, en ein þeirra,...