Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
JCB Fastrac 4210 iCON er dráttarvél með mikla sérstöðu bæði hvað varðar útbúnað og útlit. Þökk sé vökvafjöðrun á öllum hjólum líður vélin yfir ójöfnur og helst mjög stöðug á mikilli ferð.
JCB Fastrac 4210 iCON er dráttarvél með mikla sérstöðu bæði hvað varðar útbúnað og útlit. Þökk sé vökvafjöðrun á öllum hjólum líður vélin yfir ójöfnur og helst mjög stöðug á mikilli ferð.
Mynd / ÁL
Líf og starf 17. mars 2023

Dráttarvél mýkri en Range Rover

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Undanfarna þrjá áratugi hefur hinn breski vinnuvélaframleiðandi JCB framleitt dráttarvélar með óhefðbundinni nálgun.

Bændablaðið tók til prufu nýjustu útgáfu JCB Fastrac 4220 iCON, sem er með fullkomnara hemla- og fjöðrunarkerfi en aðrir framleiðendur bjóða. Þetta er stór dráttarvél með miklum búnaði sem keppir við John Deere 6R og Fendt 724 – jafnvel Unimog.

Útlit JCB Fastrac er ólíkt öðrum dráttarvélum og er skemmtilegt að sjá framleiðanda taka nálgun ólíka meginstraumnum. Hér er ökumannshúsið staðsett fyrir miðju vélarinnar og eru allir hjólbarðarnir af sömu stærð. Frá upphafi hefur ætlun JCB verið að framleiða dráttarvél sem kemst hratt og vísar nafnið til þess (e. fast tractor). Fulltrúar JCB segja að í upphafi hafi Fastrac fengið orðstír fyrir að vera betri á malbiki en í mold, en með nýjustu útgáfunum hafi framleiðandinn lagt kapp á að gera dráttarvél sem er jafnvíg á báðum sviðum.

Fastrac dráttarvélin er sér á báti að því leyti að vera með diskabremsur á öllum hjólum og ABS hemlakerfi af sama styrkleika og í vörubílum. Þetta hemlakerfi er nauðsynlegt, því hámarks ökuhraðinn á vélinni í þessum prufuakstri var 60 km/klst., en stærri útgáfa Fastrac kemst upp í 70 km/klst. Dráttarvélin er byggð á grind og er enginn burður í gegnum vélarblokk, eins og tíðkast oft. Mótorinn skilar 218 hestöflum og er frá Sisu – sama framleiðanda og framleiðir margar vélar í Valtra. Skiptingin er stiglaus og er úr smiðju AGCO samsteypunnar, sem framleiðir m.a. Valtra, Fendt og Massey Ferguson dráttarvélar.

Diskabremsur eru á öllum hjólum og ABS hemlakerfi gefa möguleika á 60 kílómetra hámarkshraða. Því ræður Fastrac vel við vagnadrátt á þjóðvegum.

Stjórnborð afar fullkomið

Ytra útlit Fastrac hefur ekki tekið breytingum í nokkur ár, en þegar stigið er upp í vélina blasa við miklar uppfærslur á stjórnborðinu, sem er á pari við það besta á markaðnum. Allar stillingar eru í gegnum notendavænan LCD snertiskjá og stýrikerfi sem JCB eyddi 32.000 vinnustundum í að þróa. Í gegnum skjáinn er hægt að breyta virkni flestra hnappanna, gera aðgerðaraðir, stilla aksturshraða o.fl. o.fl. Þrír stjórnpinnar eru á stjórnborðinu. Einn fyrir ámoksturstækin, annar til að stjórna aukabúnaði og þriðji til að stjórna aksturshraða. Pinninn fyrir ámoksturstækin er fastur, en þumallinn stýrir hreyfingu tækjanna með hnúði efst á pinnanum – svona eins og á PlayStation fjarstýringu. Rúmgott ökumannshúsið gefur pláss fyrir farþegasæti í fullri stærð.

Vökvaskiptingin er einföld í notkun. Ökumaðurinn velur akstursstefnu með vendigír og vélin hreyfist ekki fyrr en stigið er á fótstigið eða stjórnpinna ýtt fram. Hægt er að hafa snúningshraða vélarinnar óháðan aksturshraða – og öfugt.

Stjórnborð á pari við þau bestu sem bjóðast. Allar stillingar fara í gegnum stóran snertiskjá.

Fjöðrun í sérflokki

Þegar ekið er af stað finnst að Fastrac er alveg einstök dráttarvél. Margir betri traktorar eru með fjaðrandi framöxul, en Fastrac er líklega sú eina sem er með fjöðrun á báðum öxlum. Þetta er engin venjuleg fjöðrun, heldur vökvafjöðrun (e. hydropneumatic suspension) sem vinnur á sama hátt og fjöðrunarkerfið í Citroën forðum daga – en auðvitað talsvert sterkbyggðara en í fólksbílunum frönsku.

Þar sem aðrar dráttarvélar eru með fastan afturöxul, hreyfist ökumannshúsið mikið eftir ójöfnum í undirlaginu. Því er mjög sérstök upplifun að þjóta yfir skökk ristahlið og djúpar holur án þess að kastast til. Við þetta bætist ökumannssæti á dúnamjúkri loftpúðafjöðrun sem fullkomnar dempunina. Því er JCB Fastrac líklega margfalt þægilegra ökutæki en Range Rover ef aka á hratt yfir mjög ójafnt undirlag. JCB ætti að senda traktorinn í Dakar rallið!

Vökvafjöðrunin aðlagast aðstæðum og þyngdarmismun á milli hjóla sem gerir þyngdarklossa að framan óþarfa í flestum tilfellum. Fjöðrunin heldur vélinni mjög stöðugri og þrátt fyrir að farið sé geysihratt í beygju með ámoksturstækin í efstu stöðu fær ökumaðurinn ekki það á tilfinninguna að vélin ætli að fara um koll. Ólíkt öðrum traktorum fjaðrar húsið ekki neitt, enda óþarft.

Staðsetning ökumannshússins gefur möguleika á að setja aukahluti eða þyngdarklossa á stallinn aftan við húsið, án þess að teppa þrítengið aftast. Þökk sé vökvafjöðruninni er hægt að lækka vélina til að koma búnaði fyrir á stallinum. Gott útsýni er í allar áttir, sérstaklega niður með hliðunum. Beint útsýni að dráttarkróknum teppist vegna stöðu hússins, en JCB hefur komið fyrir myndavél sem bætir úr því.

Ökumannshúsið er rúmgott og fullyrða starfsmenn JCB að farþegasætið sé það stærsta á markaðnum.

Fjórhjólastýri

Beygjur eru á öllum hjólum sem hægt er að beita á nokkra vegu. Með aðstoð GPS er hægt að láta báða öxlana vinna saman að því að lágmarka skörun og helgidaga við áburðardreifingu. Einnig er hægt að halda réttri akstursstefnu þegar ekið er í miklum hliðarhalla.

Við þröngar aðstæður eykur fjórhjólastýri lipurleika til muna, en þegar ekið er yfir 20 km/klst. réttast afturhjólin sjálfkrafa, en virkjast aftur þegar ferðin er hægð á ný.

Þetta er fjölhæf vél sem er jafnvíg á vinnu úti á túni sem og á vagnadrátt á miklum hraða úti á þjóðvegum. Þyngd vélarinnar er 8,5 tonn og samkvæmt fulltrúa JCB takmarkast dráttargetan einungis af reglugerðum um heildarþunga ökutækja.

Útsýnið fram úr vélinni er afar sambærilegt því sem er í öðrum dráttarvélum.

Niðurstaða

JCB Fastrac er dráttarvél engu lík. Öflugt fjöðrunarkerfi og hár hámarkshraði ættu að vera eiginleikar sem verktakar og bændur sem vinna á stóru svæði ættu að sækjast eftir. Einnig hafa þær reynst vel í snjómokstur á Norðurlöndunum.

Hjá Vélfangi kostar Fastrac 4220 iCON frá 26.300.000 krónum án vsk. en sú sem tekin var fyrir í þessum prufuakstri kostar 33.500.000 krónur án vsk. miðað við gengi EUR 150.

Skylt efni: prufuakstur

Jólamarkaðir í desember
Líf og starf 30. nóvember 2023

Jólamarkaðir í desember

Hinn árlegi Jólamarkaður Miðjunnar verður haldinn í Framsýnarsalnum 1. desember ...

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...

Þýzka stálið
Líf og starf 24. nóvember 2023

Þýzka stálið

Bændablaðið fékk til prufu dráttarvél af þriðju kynslóð 300 línunnar hjá Fendt s...

Konunglegur smjörkálskjóll
Líf og starf 22. nóvember 2023

Konunglegur smjörkálskjóll

Á tískuviku Lundúnaborgar nú í september vakti athygli sjálfbær tíska hönnuðanna...

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum
Líf og starf 21. nóvember 2023

Heimsmeistaramót í blómaskreytingum

Nemendur í blómaskreytingum hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands fóru ásamt kennurum o...

Fjáreigendafélag Reykjavíkur  er menningarverðmæti
Líf og starf 16. nóvember 2023

Fjáreigendafélag Reykjavíkur er menningarverðmæti

Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út bók dr. Ólafs Dýrmundssonar Sauðfjárh...

Málgagnið finnst víða
Líf og starf 15. nóvember 2023

Málgagnið finnst víða

Hjörleifur Jóhannesson tók þessa skemmtilegu mynd af búðareiganda í Tam Duong í ...