Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Gömul Austurlambsauglýsing.
Gömul Austurlambsauglýsing.
Líf og starf 15. september 2023

Austurlamb á undan sinni samtíð

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Árið 2003 sameinuðust tuttugu sauðfjárbændur á Austurlandi um sölu upprunamerkts lambakjöts á netinu í gegnum vefsíðuna Austurlamb. Ýmist gekk það vel eða erfiðlega en svo fór að þátttakendum fækkaði og Austurlamb hætti starfsemi 2011.

Austurlamb gaf neytendum kost á að kaupa upprunamerkt lambakjöt milliliðalaust af bændum, frá Héraði og allt suður á Djúpavog. Var boðið upp á sérvalið og sérverkað úrvalslambakjöt frá tilteknum bændum og gátu kaupendur kynnt sér með einföldum hætti framleiðsluaðferðir, þ.e.a.s. búskaparhætti seljenda og valið stærð og gæðaflokka.

Matreiðslumenn höfðu á þessum tíma sumir hverjir kvartað nokkuð yfir seigu, morknu og bragðlitlu kjöti þrátt fyrir fagmannlega meðhöndlun fyrir eldun. Röktu þeir það til rangrar meðferðar sláturfjár, hraðrar kælingar eftir aflífun og stutts kælitíma fyrir frystingu. Þeir voru hins vegar ánægðir með Austurlambskjötið og sögðu það bragðgott, mjúkt og vel fitusprengt, auk þess sem villibragðið af kjötinu hefði verið markvert.

Sigurjón Bjarnason.

„Óhætt er að fullyrða að framtak okkar Austfirðinga hafi orðið nokkur hvatning fyrir þá bændur sem vilja selja vöru sína beint til neytenda undir kjörorðinu „Beint frá býli“, sögðu forsvarsmenn Austurlambs.

Sigurjón Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sláturfélags Austurlands, sem stóð að baki verkefninu, segir neytendur ekki hafa verið tilbúna fyrir netviðskipti af þessu tagi og krafan um lágt verð á lambakjöti hafi gengið að Austurlambi dauðu.

Milliliðalaus markaðssetning

„Þetta var tilraun til að markaðssetja lambakjöt án milliliða,“ segir Sigurjón Bjarnason. „Hugmyndin var einnig sú að kaupendur gætu raunverulega valið framleiðandann.“ Var þetta fyrsta tilraun í þá átt hérlendis, að hans sögn.

„Upphafið var að við höfðum ekki ráð á því að slátra hér á Austurlandi, né markað. Lambakjötsmarkaðurinn var búinn að einangra sig við tiltekin sláturhús og þau tvö sláturhús sem voru á Austurlandi höfðu hreinlega ekki aðgang að íslenskum markaði. Þá stóðum við frammi fyrir því að þurfa að selja okkar kjöt til þeirra sem höfðu markaðinn og voru raunverulega í beinni samkeppni við okkur í sambandi við slátrun. Þá varð ekkert eftir, menn fengu ekki upp í framleiðslukostnaðinn,“ segir hann.

„Við vorum með vef þar sem fólk gat séð á hverju kindin nærðist, sem sagt allt um fóðrun, hvernig hún var ættuð, hvað hún var mikið úti að vetrinum og þar fram eftir götunum. Ég veit ekki hvort neytandinn var nokkuð að spekúlera í þessu en við lögðum áherslu á þetta.“

Í byrjun skráðu tuttugu bændur sig í Austurlamb og segir Sigurjón það hafa verið harla góð viðbrögð. „Svo kom í ljós að sumir seldu mjög lítið í gegnum vefinn og duttu fljótlega út, en aðrir héldu áfram og voru dálítið að harka sjálfir við að selja í gegnum þetta.“ Fenginn var sérhæfður kjötiðnaðarmaður á Reyðarfirði í að hluta sundur skrokkana eftir að þeir komu frá sláturhúsinu á Húsavík, til að tryggja að neytandinn fengi gott kjöt og taka út það af skrokknum sem menn höfðu ekki áhuga á að selja.

„Þetta þurfti að fara í gegnum sláturhús á Húsavík og þeir sáu um að taka frá fyrir okkur skrokka í réttum fituflokkum,“ heldur Sigurjón áfram. „Við vorum ekki með það feitasta í þessu og ekki heldur það magrasta heldur völdum úr vinsælustu flokkana. Við tókum heldur ekki mjög þunga skrokka né þá léttustu. Þetta var allt saman stillt inn í hugbúnað sem var settur upp á Húsavík fyrir Austurlamb.“ Áhöld hafi þó verið um hvort sá búnaður virkaði sem skyldi og stóðu bændur stundum sjálfir í sláturhúsinu til að tryggja skrokkavalið.

Skylt efni: Austurlamb | Múlaþing

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...