Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Álrafhlöðuframleiðsla í fyrsta sinn á Íslandi
Mynd / HKr.
Líf og starf 6. desember 2021

Álrafhlöðuframleiðsla í fyrsta sinn á Íslandi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslenska tæknifyrirtækið Alor ehf. var stofnað í þeim tilgangi að vinna að þróun og síðar framleiðslu á sjálfbærum álrafhlöðum sem er ætlað að hraða orkuskiptum m.a. í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og fjölbreyttum iðnaði.

Alor ehf. er í samstarfi við Háskóla Íslands og spænska fyrirtækið Albufera Energy Storage sem er leið­andi í þróun á álrafhlöðum í Evrópu og hefur unnið að þróun tækn­innar síðustu átta ár.

Álrafgeymar í færanlegum gámum geta nýst sem varaafl. Tækninni er m.a. ætlað að tryggja aukið afhendingaröryggi raforku þegar til þess kemur að flutningsleiðir rofna, t.d. sökum óveðurs, eldgosa eða annarra náttúruhamfara. Slíkar raforkugeymslur eiga að vera auðflytjanlegar og af þeim stafar hvorki eld- né sprengihætta. Mynd / ALOR

Um 95% endurvinnanlegar og engin eld- eða sprengihætta

Álrafhlöður Alor verða um 95% endurvinnanlegar, af þeim stafar hvorki eld- né sprengihætta auk þess sem þær eru hagkvæmar og hafa mikla afkastagetu. Þá eru notkunarmöguleikar álrafhlaðna fjölþættir, s.s. sem varaafl í ýmsum iðnaði og aflgjafar sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku. Einnig getur tæknin nýst í farartæki í stað blýsýrugeyma.

Þá vinnur Alor einnig að þróun og framleiðslu stórra orkugeymslna úr áli sem verður unnt að nýta til þess að geyma umfram framleidda raforku og stuðla að bættri nýtingu hennar. Þá mun tæknin stuðla að auknu afhendingaröryggi raforku þegar til þess kemur að flutningsleiðir rofna, t.d. sökum óveðurs, eldgosa eða annarra náttúruhamfara.

Umhverfisvæn tækni í stað mengandi orkugjafa

Linda Fanney Valgeirsdóttir, tók nýverið við starfi sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og segir hún spennandi verkefni fram undan enda ljóst að ákall eftir grænum lausnum hefur aldrei verið háværara. Markmið Íslands er að ná kolefnishlutleysi árið 2040 og að landið verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Sjálfbærar lausnir líkt og álrafhlöður munu spila stórt hlutverk á þeirri vegferð. Hún segir að tækifærin á markaði séu gríðarleg og áhugi fyrirtækja og stjórnvalda sé mikill.

Þá bendir Linda Fanney á að mikilvægt sé að framleiðsla rafhlaðna Alor ehf. er umhverfisvæn og unnt er að endurvinna um 95% hverrar álrafhlöðu. Hún segir að leiðarstef Alor sé að innleiða umhverfisvæna tækni sem leysir af hólmi mengandi orkugjafa.

Samstarfsaðilar

Samstarfsaðili Alor er Albufera Energy Storage sem er með höfuðstöðvar í Madrid á Spáni. Fyrirtækið hefur um árabil unnið að rannsóknum og þróun á álrafhlöðutækninni og fengið öflugan stuðning úr Evrópusjóðum.

Rannsóknar- og þróunarfasa tækninnar er að ljúka auk þess sem hún hefur farið í gegnum prófanir við erlenda háskóla. Unnið er að því að yfirfæra tækniþekkingu frá spænska fyrirtækinu til Íslands.

Alor er í samstarfi við Háskóla Íslands um að taka við tækninni og vinna að undirbúningi framleiðslu álrafhlaðna á Íslandi.

Linda Fanney segir að mikill áhugi sé á því að framleiðslu Alor verði hraðað og í því sambandi er unnið að samningum við nokkur öflug fyrirtæki sem munu koma að kostun frumgerðar álrafhlaðna. Slíkir samningar eru mikilvægir til þess að flýta ferlinu í því skyni að mæta þörfum fyrirtækjanna. Sem dæmi um þýðingarmikið samstarf má nefna samstarf Alor og Landsnets sem leggur áherslu á aukið afhendingaröryggi raforku sem hin nýja tækni mun stuðla að.

Frumgerð í apríl 2022

Fyrirhugað er að frumgerð álrafhlaðna verði tilbúin í apríl 2022. Í framhaldinu fara fram prófanir á tækninni í samstarfi við Háskóla Íslands og framtíðarviðskiptavini Alor, m.a. á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Á árinu 2023 er áætlað að tilraunaframleiðsla hefjist og framleiðslan verði aðlöguð að þörfum markaðarins.

Ætlað að gegna lykilhlutverki í orkuskiptunum

Valgeir Þorvaldsson er einn af stofnendum Alor ehf. Meðstofnendur hans í fyrirtækinu eru Joaquín Chacón, forstjóri Albufera Energy Storage á Spáni, Kanadamaðurinn og frumkvöðullinn Robert C.A Frederickson sem á fjölda einkaleyfa af margvíslegum toga, m.a. í líftækni og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur.

Valgeir segir að álrafhlöður Alor verði umhverfisvænar og muni gegna lykilhlutverki í orkuskiptunum. Þá segir hann að framleiðsla þeirra muni leiða til aukinnar verðmætasköpunar, fjölda starfa og nýrrar tækniþekkingar hér á landi.

Svona sjá menn fyrir sér mögulega orkugeymslusamstæðu álrafhlaðna. Fyrirhugað er að frumgerð álrafhlaðna verði tilbúin í apríl 2022. Í framhaldinu fara fram prófanir á tækninni í samstarfi við Háskóla Íslands og framtíðarviðskiptavini Alor, m.a. á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Mynd / ALOR

Verksmiðja í undirbúningi

– Hvar er fyrirhugað að hefja framleiðslu?

„Um þessar mundir er verið að skoða ákjósanlegan stað fyrir álrafhlöðuverksmiðju Alor hér á landi. Um verður að ræða verksmiðju sem mun ekki valda mengun í andrúms- lofti eða hafa skaðleg áhrif á náttúru. Fyrirhugað er að verksmiðja verði tilbúin á árinu 2025 og framleiðsla geti hafist í kjölfarið,“ segir Valgeir.

Framleiðsla á álrafhlöðum Alor verður því mjög ólík því sem þekkist við framleiðslu Lithium-Ion rafhlaðna sem eru þekktar í margvíslegum raftækjum og rafbílum. Til umfjöllunar hefur verið í erlendum fjölmiðlum eins og BBC að Lithium-Ion rafhlöður innihalda margvísleg eiturefni eins og þungmálmana liþíum, kóbalt, mangan og nikkel, sem auk þess finnast aðeins í mjög takmörkuðu magni á jörðinni. Ál, eða aluminium, er aftur á móti þriðja algengasta frumefnið á jörðinni á eftir súrefni og kísil og er sagt tólfta algengasta frumefnið í alheiminum.

Félagslíf og hagsmunir í forgrunni
Líf og starf 8. febrúar 2023

Félagslíf og hagsmunir í forgrunni

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) er opið öllum þeim sem náð haf...

Félagsstarf landshorna á milli
Líf og starf 6. febrúar 2023

Félagsstarf landshorna á milli

Þeir eru heldur betur hressir öðlingarnir hér á myndunum, en félagsstarf þeirra ...

Fagnar nýburum með veglegum gjöfum
Líf og starf 6. febrúar 2023

Fagnar nýburum með veglegum gjöfum

Það er gaman að segja frá því að Borgarbyggð fagnar öllum nýburum sveitarfélagsi...

Gráþröstur
Líf og starf 5. febrúar 2023

Gráþröstur

Gráþröstur eru algengir varpfuglar um Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu. H...

Við skurðgröft í  snarbrattri hlíð
Líf og starf 3. febrúar 2023

Við skurðgröft í snarbrattri hlíð

Hólmar Bragi Pálsson, áður búsettur á Minni-Borg í Grímsnesi en nú á Selfossi, v...

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi
Líf og starf 3. febrúar 2023

Þróa fyrsta samsetta fiskileðrið á Íslandi

Nýsköpunarfyrirtækið AMC hlaut nýverið Sprotastyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís ...

Ræðismaður skipaður í Moldavíu
Líf og starf 2. febrúar 2023

Ræðismaður skipaður í Moldavíu

Moldavía er landlukt land í Suðaustur-Evrópu og liggur milli Úkraínu og Rúmeníu....

Gerir allt með sóma
Líf og starf 1. febrúar 2023

Gerir allt með sóma

Að þessu sinni tók Bændablaðið til prufu hinn nýja Kia Niro EV. Forveri þessa bí...