80 þúsund gestir á síðasta ári
Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársverk hjá fyrirtækinu og er starfsemin í gangi allt árið um kring. Árið 2024 tók fyrirtækið á móti um 80 þúsund gestum.
Erlendir og innlendir ferðamenn sækja böðin í ríkum mæli, en einnig eru heimamenn duglegir að nýta sér aðstöðuna. Stofnun Sjóbaðanna á sínum tíma byggði á viðleitni heimamanna til að nýta vannýtta staðbundna auðlind á sjálfbæran hátt. Ármann Örn Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Geosea, segir sumarið hafa farið mjög vel af stað og spenna sé fyrir komandi mánuðum.
„Veðrið hefur verið mun betra en í byrjun sumars í fyrra og við fögnum því með bros á vör. Sjóböðin eru staðsett við vitann á Húsavík, aðeins fyrir utan bæinn, alveg úti á klettabrún. Þaðan er ótrúlegt útsýni yfir Skjálfandaflóa. Heita vatnið sem við notum kemur úr tveimur borholum hér í nágrenninu. Önnur þeirra var boruð um 1960 með það í huga að nota vatnið í hitaveitu. En það kom í ljós að vatnið var mjög salt og fullt af steinefnum og í raun bara sjóðandi sjór. Hún lá ónotuð þar til á tíunda áratugnum, þegar bæjarbúar settu þar gamalt ostakar sem heitan pott og hann var notaður í tæp 30 ár. Hin holan er nær höfninni og úr henni dælum við u.þ.b. 20 gráðu heitum sjó sem við notum til að kæla niður vatnið úr ostakarsholunni,“ segir Ármann Örn. Böðin voru hönnuð af Basalt Arkitektum og alls staðar má sjá samspil steinsteypu og harðviðar.
Baða sig í miðjum snjóstormi
„Við höfum tekið á móti 70–80 þúsund gestum árlega frá því við opnuðum árið 2018. Við erum mjög ánægð með þann fjölda, þó við getum klárlega tekið á móti fleirum, sérstaklega á veturna. Á síðasta ári voru gestirnir einmitt um 80 þúsund,“ segir Ármann Örn.
Ármann Örn segir að gestir sjóbaðanna séu almennt mjög ánægðir og hafa gjarnan orð á því við starfsfólkið en auðvitað geti upplifunin verið misjöfn eftir árstíðum. „Já, klárlega, að baða sig í stillu á sumardegi eða í snjókomu og vetrarstormi er ólík upplifun. En margir erlendir gestir tala sérstaklega um hvað það er mögnuð tilfinning að baða sig í heitu vatni í miðjum snjóstormi,” segir Ármann Örn hlæjandi. Um 60% gesta eru erlendir ferðamenn, 10% eru innlendir ferðamenn og 30% eru árskortshafar af svæðinu sem koma reglulega í böðin.
12 ársverk
Sjóböðin eru í eigu Norðurbaða, Pétur Stefánsson ehf., Jarðbaðanna við Mývatn og Orkuveitu Húsavíkur. Ármann Örn sér um reksturinn ásamt frábæru starfsfólki. „Við erum með um 12 stöðugildi yfir árið, en starfsfjöldi sveiflast þó eftir árstíðum. Þó við séum opin allt árið dregur aðeins úr starfsmannahaldi yfir veturinn,” segir Ármann Örn.
