Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Dan Best, stofnandi Sacramento-bændamarkaðarins.
Dan Best, stofnandi Sacramento-bændamarkaðarins.
Mynd / Svavar Jónatansson
Líf&Starf 7. júní 2017

Gjöfulasta landbúnaðarsvæði heims lætur á sjá vegna ofnotkunar á vatni

Höfundur: Svavar Jónatansson
Í Los Angeles, sunnan við San Gabriel-fjöllin, óx upp kvikmyndaiðnaður við upphaf 20. aldar, kenndur við Hollywood, og nærði óseðjandi hungur almennings fyrir afþreyingu.
 
Norðan við sömu fjöll er landsvæði sem fæðir annars konar hungur, kennt við Central Valley og hefur frá lokum 19. aldar orðið að umfangsmesta og gjöfulasta landbúnaðarsvæði heims. 
 
Tegundir nytjaplantna, uppruni vinnuafls og þróun landbúnaðar í dalnum eru allt í senn saga fjölbreytni, nýbreytni, tækni og fjármagns. Hins vegar hafa ýmsar afleiðingar þessarar sögu komið fram sem skýr merki um hættuástand sem bregðast ber við. Rót vandans er að hluta til sjálfur landbúnaðurinn og fyrirkomulag sem fest hefur í sessi undanfarna öld. 
 
Landbúnaðarsaga Kaliforníu
 
Central Valley er stærsta landsvæði af hágæða jarðvegi í heiminum.
 
Þegar Spánverjar komu til svæðisins við lok 18. aldar eru frumbyggjar taldir hafa verið um 300.000 og höfðu fram að því stundað ólíkar tegundir veiða og landbúnaðar í yfir 10.000 ár. Skipulagður landbúnaður Spánverja notaðist við vinnuafl frumbyggja, gjarnan neyddir til vinnu og skírnar við kaþólska trú. Korn- og nautgriparækt Spánverja var undir umsjón trúboðsstöðva (Mission) sem voru þungamiðja valds og framkvæmda um gervalla Kaliforníu.
 
Með sjálfstæði Mexíkó frá Spáni árið 1821 og yfirtöku þeirra á landsvæði núverandi Kaliforníu gerðu lýðveldissinnar kröfu um eignarupptöku á löndum spænsku kirkjunnar og skildi helmingur eigna tilheyra frumbyggjum svæðisins. 
 
Lönd lentu þó að mestu leyti í höndum valdamikilla fjölskyldna frá Mexíkó, og við tók tímabil stórra nautgripabúgarða sem seldu húðir til vaxandi markaða á austurströndinni. 
 
Undir 25 ára stjórn Mexíkó jókst íbúafjöldi þessa fyrrum fámenna landsvæðis hægt með samsetningu Mexíkóbúa og aðfluttra íbúa Bandaríkjanna, en áhugi hinna síðarnefndu á að ná svæðinu undir sína stjórn fór vaxandi. Rimma á landamærum Texas og Mexíkó árið 1846 gaf James Polk forseta átyllu til stríðs við nágranna sína, sem tveimur árum síðar höfðu glatað öllu landsvæði Kaliforníu auk svæða sem nú samanstanda af 8 ríkjum Bandaríkjanna.
 
Tímamót urðu í Kaliforníu þegar gull fannst nálægt Sacramento árið 1848 og við tók tímabil gríðarlegrar fólksfjölgunar landnema og innflytjenda með vaxandi eftirspurn eftir jarðnæði með hnignun nautgripabúa sem misstu beitarlönd og starfskraft. 
 
Landbúnaður á tímum gullæðisins var að miklu leyti takmarkaður við nautgripi og korn en önnur matvæli gjarnan innflutt, skýr merki um vannýtingu landsvæðisins. 
 
Mikill vöxtur upp úr 1890 einkenndist af aukinni ræktun ávaxta í stað korns og náðu býli ríkisins hámarki árið 1949, samtals 137.000. Ekrufjöldi minnkaði fyrir vikið, en gjöfull jarðvegur, heppilegt loftslag og notkun nýjustu véltækni gaf af sér uppskeru sem líkt og í tilfelli bómullar var tvöföld landsmeðaltali. Helmingur allra traktora Bandaríkjanna voru árið 1951 á ökrum Kaliforníu, sem vísar í framúrstefnu bænda ríkisins og stöðu þess sem leiðandi á ýmsum sviðum. Notkun grunnvatns jókst hratt upp úr 20. öldinni með aukinni ræktun vatnsfrekra tegunda og var dæling grunnvatns hvorki mæld né takmörkuð með lögum þar til árið 2014. Afleiðingarnar eru ógn við landbúnað sem og stöðugleika mannvirkja í Kaliforníu.
 
Á markað
 
Vaxandi borgir líkt og San Francisco hafa frá miðri 18. öld verið mikilvægur markaður fyrir landbúnaðarafurðir í Kaliforníu, allt frá upphafi gullæðis til uppgangs tölvutækninnar í Sílikondalnum. Auk stórmarkaða hafa íbúar flestra borga ríkisins aðgang að bændamörkuðum sem eru gjarnan haldnir um helgar.
 
Meðal frægra markaða Kaliforníu má nefna Ferry Building markaðinn í San Francisco, þar sem landbúnaðarafurðir eru markaðssettar og verðlagðar fremur sem lúxusvörur, en hins vegar er fjöldi bændamarkaða að evrópskri fyrirmynd sem veita bændum ódýran vettvang til að selja vörur sínar milliliðalaust um helgar, líkt og undir I-80 hraðbrautinni í Sacramento. 
 
Skuggi af hraðbrautinni er kærkominn yfir sumarmánuðina, en á febrúarmorgni eru seljendur flestir í þykkum jökkum þær fjórar klukkustundir sem markaðurinn er opinn.
 
Pallbílum er lagt fyrir aftan bása og borð sem bera ólíkar afurðir, enda ríkið eitt fjölbreyttasta landbúnaðarsvæði heims með um 250 tegundir í ræktun. 
 
Jarðarberjabóndi ók sex klukkustundir frá Ventura-héraði nálægt Los Angeles vegna hærra verðlags á mörkuðum hér nyrðra, akstur sem gengur ef til vill gegn hugmyndafræði slíkra markaða um nálægð við framleiðslu, en staðfestir markaðslögmál framboðs og eftirspurnar. 
 
Fyrir 48 árum hjálpaði Mark Gustafson föður sínum að gróðursetja valhnetu- og pekantré á bökkum Sacramento-árinnar þar sem hann sér nú einn um uppskeru og umhirðu á 30 ekrum. 
 
Hann sagði þessar tegundir þola vel flóð líkt og áttu sér stað í febrúarmánuði síðastliðnum, en óvenjulega mikil úrkoma vetrarins ógnaði stöðugleika stíflumannvirkja, einna helst Oroville-stíflu. Þar sem nær allar ár ríkisins hafa verið virkjaðar eða stíflaðar eru hin náttúrulegu flóð löngu liðin tíð og reynir verulega á bændur og borgir ríkisins þegar jafn óvenjulegir atburðir eiga sér stað. 
 
Á tali við seljendur kom í ljós mikilvægi slíkra markaða fyrir smábúskap. Jason Cuff ræktar matjurtir á 5 ekrum og segir 25% af sölunni fara fram á þessum eina degi markaðarins, en það tók hann þrjú ár að fá úthlutað plássi sem kostar hann um 2.300 kr. á viku. 
 
Smæð margra býla takmarkar sölu til stórmarkaða en bændamarkaðir veita tækifæri til að fá betra verð og aðgengi að stórum kúnnahóp.
 
Hins vegar heyrði ég óánægju líkt og frá Rob Montgomery sem var ósáttur  við að mega ekki nota orðið lífrænt nema með árlegu leyfi frá alríkisstofnun (USDA) sem kostar frá 70–140.000 kr., þó svo hann hafi ræktað lífrænt grænmeti í 25 ár. Óánægja með vaxandi kostnað og skrifræði sem hið opinbera leggur á bændur var nokkuð sem ég heyrði víðar í Bandaríkjunum, burtséð frá umfangi ræktunar.    
 
Nær stöðugt streymi fólks var um markaðinn þar til borðum var pakkað saman og verðin hríðféllu undir hádegi. Tilboðsverð voru kölluð yfir óm umferðarinnar og síðustu gestir fengu afgangs ávexti á gjafaprís. Þegar bændur og borð þeirra voru komin í pallbílana kom Dan Best gangandi undan skugga hraðbrautarinnar, en hann hefur rekið markaðinn síðan 1981 og segir markmiðið að veita smábændum rekstrargrundvöll og halda landsvæðum í ræktun. Afraksturinn er aukinn áhugi almennings og stórmarkaða sem kjósi í auknum mæli að versla við smábændur fyrir ferskleika sakir og mun hin síðarnefnda þróun líklega hægja á vexti bændamarkaða.
 
Þannig má segja að mótlætið sem smábændur upplifðu stóran hluta 20. aldarinnar frá valdamiklum pökkunarfyrirtækjum sem stjórnuðu aðgengi að mörkuðum, sé í dag orðið að mótbyr vegna kröfu almennings um ferskleika og nálægð við framleiðslu. 
 
Ósýnilegi mjólkurbíllinn
 
Á skrifstofu Michelle Sneed, sérfræðings í jarðsigi hjá Jarðfræðikönnun Bandaríkjanna (USGS), hangir kort með upplýsingum um eitt alvarlegasta vandamál landbúnaðar í Central Valley. Vandann má rekja til aukinnar grunnvatnsdælingar á fyrri hluta 20. aldar, þó svo meirihluti áveituvatns komi enn frá snjóbráð Sierra Nevada-fjallanna. Með aukinni ræktun vatnsfrekra nytjaplantna jókst dæling grunnvatns allan ársins hring, en sér í lagi á þurrkatímum líkt og ríkt hefur undanfarin áratug í Kaliforníu. Þegar unnið var að byggingu núverandi vatnsveitukerfis upp úr miðri síðustu öld leiddu mælingar jarðvísindamanna í ljós umfangsmikið jarðsig. Dæling úr grunnvatnskerfi umfram náttúrulega endurnýjun leiðir til samfalls sandkorna og tilheyrandi lækkunar gunnvatnsstöðu. Grunnvatnskerfið varð til á milljónum ára með framburði úr Sierra Nevada-fjöllum, en með aukinni dælingu hefur sjálf jörðin undir ökrum dalsins lækkað, sandkorn þjappast saman og eiginleikar grunnvatnskerfisins til að halda vatni glatast til frambúðar. Frásagnir af jarðsigi komu fyrst frá bændum á þriðja áratug síðustu aldar sem sögðu mjólkurbílinn hverfa sjónum á vegkafla þar sem hann hafi áður sést. 
 
Hins vegar leysti bygging nýs vatnsveitukerfis á sjötta áratug síðustu aldar mesta vandann, jarðsig hætti og rannsóknir sömuleiðis um 1980. Dæling á grunnvatni jókst þó með aukinni ræktun vatnsfrekra nytjaplanta, og tíu ára þurrkur upp úr árinu 2007 jók álagið á grunnvatnskerfið, með tilheyrandi jarðsigi. Sneed segir þurrkinn forsendu þess að rannsóknir hófust að nýju og sýndu umfang vandans. Niðurstöður USGS sýndu 7500 ferkílómetra svæði sem sigið hefur um nokkra sentimetra, en afmörkuð svæði hafa frá árinu 1925 sigið allt að 8 metra. Alvarleiki ástandsins felst einna helst í að grunnvatnsborðið lækkar, innviðir líkt og vegir og skurðir verða fyrir gríðarlegu tjóni, og eftir stendur spurningin um hvort kerfið geti annað eftirspurn. Fram að árinu 2014 voru engin lög sem takmörkuðu rétt bænda til að dæla grunnvatni á eigin landsvæði og engin kvöð á að mæla notkun, sem var hluti þess að ræktun verðmætra en vatnsfrekra tegunda jókst stöðugt. Nýju lögin miða að því að gefa bændum tækifæri til að finna sjálfir lausnir, og takmarka notkun grunnvatns. Hlutverk USGS er ekki að setja reglur eða bjóða lausnir, heldur að veita upplýsingar um ástand og líklega þróun. Hins vegar munu yfirvöld setja skýrari ákvæði ef bændum tekst ekki að finna fullnægjandi lausnir. Sú tegund landbúnaðar sem nú einkennir Central Valley gerir vandamálið sérlega erfitt viðureignar. 
 
Dave Phippen á möndluakri í febrúar. 
 
Möndlur í miljónum
 
Gjöfulasta ræktarland heims er að finna í Central Valley í Kaliforníu. Það sem áður var heimkynni villtra dýra og árlegra flóða er nú orðið að umfangsmesta landbúnaðarvæði heims þar sem nær öllu náttúrulegu vatnsrennsli er stjórnað. Núverandi fyrirkomulag hefur frá miðri 20. öld þróast í átt að varanlegum nytjaplöntum, einna helst möndlutrjám og vínvið. 
 
Svæðið í kringum Manteca í norðurhluta dalsins einkennist nú að mestu af mjólkurbúum og möndlurækt, auk þess að vera vaxandi þéttbýliskjarni fyrir íbúa sem sækja vinnu við San Francisco-flóa.
 
Dave Phippen keyrir glænýjan hvítan RAM pallbíl inn á athafnasvæði Travaille og Phippen, fjölskyldufyrirtæki með 60 heilsárs starfsmenn, 1.500 ekrur af möndlutrjám og nýlega vinnslustöð sunnan við Manteca. Innandyra sitja mexíkóskar konur við færiband og taka út steina og skemmdar möndlur sem nýlegu róbótakerfi yfirsást, en karlmenn vinna við að yfirfara vélabúnað fyrir haustvinnsluna. Dave ekur pallbílnum inn á milli trjánna sem blómstra hvítu í febrúar og skapa draumkennt gatnakerfi, og þylur um leið tölfræði um vöxt möndluræktar upp úr sjötta áratugnum en ríkið framleiðir nú 80% af möndlum á heimsmarkaði. 
 
Söluverðmætið var 5,3 miljarðar dollara árið 2015, 29% minna en árið áður sökum mikilla verðlækkana, en þrátt fyrir það bætast við 30–50.000 ekrur á ári, með 120 tré á ekru. 
 
Hann útlistar mótbyr vegna verðlækkana, hækkandi kostnað fyrir frjóvgun með býflugum og vöxt íbúðarbyggða sem þýðir varanlega glötun hágæða ræktarlands. Í þögninni heyrist suð býflugna sem eru í óða önn að frjóvga möndlublómin, vinnuafl sem kostar Dave 40.000 kr. á hverja ekru og hefur hækkað mikið.
 
Við keyrum meðfram vatns­skurðum sem hver um sig nægir 40 ekrum, en ólíkt bændum í suðri hefur dæling grunnvatns enn ekki leitt til verulegs jarðsigs í þessum hluta dalsins. Lækkun grunnvatnsstöðu segir hann nema sex metrum á 30 árum, nú í 17 metrum undir yfirborði. Hann leggur meiri áherslu á hversu góð núverandi nýting vatns er með notkun dropavökvunar, og segist nota þriðjung þess vatns sem foreldrar hans notuðu á hverja ekru. Góð nýting vatns sé fjárhagslega hagkvæm fyrir bændur auk þess að tryggja skynsama nýtingu á takmarkaðri auðlind, en hann segir einnig skorta á nýjar vatnsveituframkvæmdir í ríkinu.
 
Varðandi gagnrýni á möndlu­iðnaðinn bendir hann á að fyrri tegundir eins og melónur séu jafn vatnsfrekar og möndlur en hins vegar mun verðmætari afurð og þar með betri nýting á ræktarlandi. Sömuleiðis séu kröfur samtímans á fjölbreytni ástæða vatnsfreks landbúnaðar, og bendir á að kjöt og mjólk séu mun vatnsfrekari en litlu brúnu möndlurnar hans, sem hver um sig þarf 3,7 lítra af vatni,
Dave á að baki erfiða áratugi í uppbyggingu fyrirtækis sem nú blómstrar og er hluti af iðnaði sem telur 6.800 ræktendur, 1,1 milljón ekrur og 130 milljón möndlutré. Kynning á jákvæðum hliðum iðnaðarins er meginhlutverk Möndlunefndarinnar, samtök fjármögnuð af ræktendum frá árinu 1950. Veruleiki iðnaðarins og þess landbúnaðar sem krefst vökvunar allt árið um kring, og getur ekki hvílt akra nema á margra áratuga fresti, er samofin ástandi vatnsmála. Hvort að lausnir liggi í bættum innviðum eða takmörkun á ræktun ákveðinna tegunda, á enn eftir að koma í ljós.
 
Akuryrkja eða rányrkja
 
Út um glugga Amtrak-lestarinnar á leið til Suður-Kaliforníu blasir við landslag þar sem nautgripafóðurstöðvar, möndlutré, rafmagnslínur og fáfarnir sveitavegir þekja flatneskjuna upp að fjallsrótum Sierra Nevada. Þó Central Valley sé um 52.000 km2 að stærð með yfir 250 tegundir matjurta í ræktun, samanstendur meirihlutinn af 10 tegundum, þar á meðal vínvið, möndlutrjám, tómötum og hrísgrjónum. Þörfin á vinnuafli hefur ávallt gert svæðið að áfangastað farandverkafólks og eru störf við uppskeru nú nærri 175.000, en landbúnaðarstörf Kaliforníu samtals 419.000.  Í steikjandi sumarhita hafa Bandaríkjamenn, Kínverjar, Filippseyingar, Japanir en umfram allt Mexíkóar unnið störfin sem erfitt hefur verið að manna. Kosning Donalds Trump og yfirlýsinga hans um hertari innflytjendalöggjöf hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á landbúnað, sér í lagi í Alabama, þegar kemur að vinnuafli, en aðgengi að vinnuafli, sér í lagi ódýru, hefur mestalla 20. öldina verið mikilvægt bændum sem enn þurfa mikið handafl til að sinna uppskeru. Kaliforníuríki, þvert á alríkisstefnu, viðheldur griðarstefnu gagnvart innflytjendum þar sem lögregla spyr ekki um dvalarleyfi innflytjenda.
 
Ímynd landbúnaðar Kaliforníu hefur löngum mótast af bágu hlutskipti og átökum verkalýðs gagnvart stóreignabændum, líkt og í bókum John Steinbeck, en sú ímynd er að mörgu leyti flóknari. Laun í landbúnaði hafa löngum verið hærri í ríkinu en víðar og störfin sögð þjóna hlutverki stökkpalls fátækra innflytjenda inn í bandarískt samfélag. Hins vegar er löng saga mismununar, fordóma og laga sem hindrað hafa ákveðna samfélagshópa í að komast ofar í samfélaginu, þá hina sömu og vinna á ökrum ríkisins. Opinbert tímakaup fyrir störf við ávaxtauppskeru í Kaliforníu er nú um 200 krónum yfir 1100 króna lágmarkslaunum ríkisins, en í ljósi þess að um 10% af öllu vinnuafli Kaliforníu er talið vera ólöglegir innflytjendur, skortir upplýsingar um raunveruleg kjör þessa hóps.  
 
Appelsínutré á akri Kibby-hjóna.
 
Leifar appelsínulunda
 
Sunnan við Los Angeles tekur við ljúft en dýrt andrúmsloft Suður-Kaliforníu. Appelsínulundir Orange County eru löngu horfnir undir steinsteypu íbúðarbyggða en ímynd brimbrettakappans lifir góðu lífi í markaðssetningu verslana og veitingastaða, sem og á öldum úti fyrir gylltum ströndum.
 
Mikil eftirspurn eftir fersku og lífrænu grænmeti skapar tækifæri fyrir smábændur, líkt og hjónin George og Rebecca Kibby, sem rækta matjurtir á 20 ekrum í San Juan Capistrano undir nafninu South Coast Farms. Hjólhýsi við jaðar akursins þjónar hlutverki skrifstofu en mexíkóskir innflytjendur sinna uppskerustörfum og umhirðu. Þau selja hluta uppskerunnar á eigin smásölumarkaði allan ársins hring, grænmetiskörfur í áskrift og bjóða viðskiptavinum að tína sín eigin jarðarber af ökrunum gegn greiðslu.
Landfræðileg staðsetning Suður-Kaliforníu veitir bændum nokkurra vikna tímabil þar sem vissar tegundir með stutt geymsluþol, líkt og agúrkur, eru í mikilli eftirspurn á landsvísu áður en uppskera hefst norðar. Á þeim tíma getur George selt 40.000 kassa af agúrkum til stórmarkaða víðs vegar um landið.
 
Eftir tuttugu ára ræktun er það óheyrilegur vatnskostnaður sem rekja má til óheppilegra ákvarðana og fjárfestinga vatnsveitu svæðisins, og hins vegar hækkandi lóðarverð sem veldur tilvonandi endalokum ræktunar hjónanna, en lóðarverð er ein helsta ástæða þess að bændur selji jarðir sínar í Suður-Kaliforníu. 
Síðustu 10 ár hafa þau byggt upp búgarð með 600 ekrum fyrir nautgripi í Norður-Dakóta. Þaðan munu þau selja kjöt með lífrænni vottun auk þess að reykja kjöt, kallað Beef Jerky, sem eykur verðgildi þess til muna. Ég átti erfitt með að staðsetja George út frá eigin staðalmyndum af lífrænt ræktandi smábónda sem nú hyggst flytja til Norður-Dakóta, sem er órafjarri framúrstefnu Kaliforníu. Þrátt fyrir að láta ekki staðalmyndir hindra búskaparbreytingu, játaði hann að það væri „auðveldara að drepa brokkolí en nautgripi“. 
 
/Svavar Jónatansson

11 myndir:

Skylt efni: Kalifornía

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...