Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Garðyrkjumenn og kartöflubændur í ferð til Rússlands og Finnlands
Líf&Starf 15. nóvember 2016

Garðyrkjumenn og kartöflubændur í ferð til Rússlands og Finnlands

Höfundur: Katrín María Andrésdóttir

Þótt bændur séu flestir vanir að taka daginn snemma, þurftu þeir að vakna með fyrra fallinu þegar lagt var af stað til Rússlands þann 9. ágúst sl. Á ferð var 22 manna hópur sem saman stóð af kartöflubændum og öðrum garðyrkjubændum ásamt aðstoðarfólki.

Um árabil hafa garðyrkjubændur sótt sér þekkingu út fyrir landsteinana, ýmist með því að fá hingað til lands erlenda ráðunauta eða fara í skipulagðar náms- og kynnisferðir. Óhætt er að segja að þessi markvissi innflutningur á þekkingu hafi gagnast íslenskri garðyrkju afar vel.

Landbúnaðarháskólinn í Pushkin

Þeir sem þekkja til vita að Íslendingar álpast ekki án fyrirvara til Rússlands. Þangað þarf vegabréfsáritun og heimsóknir til bænda og menntastofnana í landbúnaði þarfnast einnig undirbúnings. Skipulag og undirbúningur ferðarinnar var í höndum Sambands garðyrkjubænda og Rannsóknarmiðstöðvar landbúnaðarins en Pétur Óli Pétursson, fararstjóri í Rússlandi, og Sigurgeir Ólafsson plöntusjúkdómafræðingur veittu einnig góða og mikilsverða aðstoð við undirbúning og framkvæmd þessa ferðalags.

Flogið var til Helsinki og þaðan ekið til St. Pétursborgar en þar hélt hópurinn til næstu daga.
Fyrsta heimsóknin var til  Landbúnaðarháskólans í Pushkin. Þar var hópnum vel tekið en aðstæður þar eru nokkuð frábrugðnar því sem Íslendingar eiga að venjast í háskólaumhverfi sínu. Skólinn er 110 ára gamall og státar af ríkulegri hefð og virtum vísindamönnum. Í Rússlandi eru 83 héruð og í skólanum eru nemendur frá 60 þeirra. Auk þess eru um 500 nemendur frá öðrum löndum en skólinn telur í heild um 7.000 nemendur. Ánægjulegt var að sjá að miklar framkvæmdir eru nú við skólann og áhersla virðist lögð á uppbyggingu menntunar og rannsókna á þessu svæði.

Skólinn hefur lagt á það áherslu að þjálfa nemendur til margvíslegra verkefna að námi loknu og þar er unnið að fjölbreytilegu rannsóknarstarfi, m.a. fyrir rússnesk stjórnvöld.

Eitt af verkefnum sem unnið er að á vettvangi skólans nefnist: „SPbGAU experience in revitalized nuclear potato seed stock creation.“

Þetta verkefni hófst árið 2012 og lýtur að því að framleiða heilbrigða stofna af kartöfluútsæði með vefjaræktunartækni þar sem sjúkdómar og veirur herja ekki á afurðirnar.  Þessari starfsemi svipar mjög til þeirrar vinnu sem Sigurgeir Ólafsson hefur leitt hérlendis frá árinu 1979.  Þessi ræktun fer fram í ræktunarklefum. Síðan heldur ræktunin áfram í gróðurhúsum og loks undir beru lofti. Enn virðist eftir að þróa heildstætt kerfi sem tekur við útsæðinu þaðan og kemur því með skipulegum hætti í hendur áframhaldandi ræktenda, líkt og gert hefur verið hérlendis undanfarin ár, m.a. fyrir tilstilli reglugerðar nr. 455 frá árinu 2006. 

Rússneskir kartöflubændur

Að lokinni góðri skoðunarferð í háskólann lá leiðin til karöflubænda í nágrenni skólans. Hópurinn heimsótti m.a. býli þar sem þrír ættliðir höfðu stundað nám, eða voru við nám í Landbúnaðarháskólanum. 
Þegar íslensku gestina bar að garði stóð yfir upptaka á kartöflum. Líkt og oft gerist hérlendis getur tíðarfarið verið misjafnt. Sumarið 2016 var vætusamt og raunar svo mjög að ekki varð viðkomið venjulegum vinnubrögðum við upptöku. Brugðu bændur á það ráð að nýta eldri vélar sem bylta efsta lagi jarðvegsins og losa um kartöflurnar sem eru svo handtíndar í kjölfarið. Í venjulegu árferði eru nýttar stórvirkari og sjálfvirkari vélar til verksins og gerist þá minni þörf fyrir handaflið.

Kartöflubændur í Rússlandi glíma einkum við tvenns konar vanda þegar kemur að ræktuninni.  Annars vegar stríða þeir við karöflumyglu og hins vegar blaðlýs sem bera smit vissra veirusjúkdóma sem upp geta komið við ræktunina. 

Verkefni á borð við stofnútsæðisræktunina í Háskólanum í Pushkin eru mikilvæg í því skyni að stuðla að heilbrigði stofna og afurða á þessu sviði. Síðar í ferðalaginu voru ræddir ýmsir möguleikar á samstarfi um stofnútsæðisræktun og skylda hluti og verða þeir kannaðir nánar í framtíðinni.

Heillandi heimur

Í þessari stuttu samantekt gefst ekki færi á að fara mörgum orðum um allt sem fyrir augu bar og skoðað var. Rússland er heillandi heimur, fullur andstæðna þar sem íslenski hópurinn horfði með undrun á einstök mannvirki, listaverk og skreytingar, milli þess sem við blöstu ónýttir akrar, tún og lendur í stórum stíl.

Menning, tónlist, listgripir og mikilfengleg byggingalist eru meðal þess sem hópurinn fékk að njóta og alls staðar var viðurgjörningur og gestrisni til fyrirmyndar. Það var þakklát hjörð, reynslunni ríkari, sem kvaddi Pétur Óla Pétursson fararstjóra sem var hópnum til aðstoðar við undirbúning ferðarinnar og í ferðinni allri. Óhætt er að mæla með þjónustu hans við alla þá sem hyggja á ferðir í austurveg. Hann reyndist hópnum sérlega vel og er hafsjór af fróðleik, hvort sem litið er til menningar, sögu og lista eða atvinnulífs, stjórn- og efnahagsmála.

Ylrækt í Finnlandi

Víkur þá sögu til Finnlands. Hluti hópsins varð eftir í Finnalandi í því skyni að kynna sér ylrækt, s.s. ræktun kryddjurta og salats. Jafnframt fengu íslensku gestirnir kynningu á tilraunaverkefnum þar sem ræktað er til reynslu í ræktunarskápum, þ.e. margra hæða ræktun í rými sem þekur minna flatarmál en hefðbundin gróðurhús. Þá er plöntum komið fyrir á hillum og inn á milli er lýsing sem stillt er af miðað við þarfir í viðkomandi ræktun. Áhugavert var að skoða þessa ræktun og tilraunastarfsemi, þar sem fullkominn tölvubúnaður vaktar hitastig, lýsingu, rakastig, leiðni og aðrar breytur sem máli skipta. 

Í Finnlandi vakti einnig áhuga gestanna hvernig búið er um garðyrkjuafurðir til sölu. Í fyrsta lagi eru kryddjurtir oftast pakkaðar til sölu í pottinum, en þá haldast kryddjurtirnar sjálfar lengur ferskar ef rétt er með farið. Í öðru lagi var einkar áhugavert að skoða með hvaða hætti umbúðir um vöruna hafa verið þróaðar.

Umbúðirnar eru vel merktar og auðvelt er að rekja hvaðan varan kemur, fara inn á vefsíðu framleiðenda og skoða margvíslegar upplýsingar um vöruna, framleiðandann og framleiðsluferlið. Á kössum sem innihalda kryddjurtir eru handföng sem einnig þjóna sem loftgöt. Þegar kryddjurtirnar eru teknar til sölu og settar í kæli, dregur kælikerfið kalt loft inn í umbúðakassana, til að tryggja að varan nái sem fyrst ákjósanlegu hitastigi og haldi því. Þegar vörunni er síðan stillt upp í verslunum er efsti hluti umbúðanna fjarlægður og eftir stendur þekkilegur bakki fullur af brakandi ferskum kryddjurtum.

Það hefur lengi verið áhersluatriði íslenskra garðyrkjubænda að umbúðir vitni um uppruna og gæði og íslenska fánaröndin er lögverndað merki í eigu Sambands garðyrkjubænda. Sérstaklega áhugavert er að skoða umbúðir og meðferð vöru í því ljósi og geta íslenskir bændur margt lært af finnskum garðyrkjubændum í þeim efnum.

Til viðbótar við allt sem ferðalangarnir sáu, upplifðu og lærðu var kannski ekki síst að fá að kynnast betur kollegum sínum úr röðum íslenskrar garðyrkju. 

Framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda þakkar félögum sínum úr garðyrkjunni fyrir ánægjulega samveru í ferðalaginu og gestgjöfum fyrir góðar móttökur.

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...