Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Um innviði
Skoðun 4. janúar 2018

Um innviði

Höfundur: Þröstur Eysteinsson
Ný ríkisstjórn er tekin við og meðal helstu markmiða hennar er að byggja upp innviði. Þar telja flestir að átt sé við úrbætur í vegakerfinu, nýtt sjúkrahús, betri aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum o.þ.h.
 
Hugtakið innviðir merkir bókstaflega innanstokksmunir svo sem raftar, veggklæðningar og húsgögn úr viði sem gera híbýli manna íbúðarhæf. Hin óeiginlega merking hefur að gera með allt það sem gerir landið okkar íbúðarhæft. Í því sambandi eru vart til nauðsynlegri innviðir en skógar.
 
Sumir halda því fram að gróðursetning til skóga hafi verið umtalsverð á undanförnum árum. Hún hafi verið orðin svo mikil að forsvaranlegt hafi verið að skera hana um helming eftir hrun. Hún hefur þó ekki verið umtalsverðari en svo að aðeins 0,5% landsins bera nú ræktaðan skóg. Ísland er enn svo til skóglaust.
Skógleysinu fylgir að flytja þarf inn nær allar skógarafurðir, fyrir tugi milljarða króna á ári. Með þeim peningum sköpum við atvinnu og verðmæti í öðrum löndum en ekki hér heima. Innflutningur er okkur ekki erfiður þegar allt leikur í lyndi og krónan er sterk, en við þurfum ekki að horfa nema 5–8 ár aftur í tímann til að finna allt aðrar aðstæður. Þá var krónan verðlítil og erfitt að fá gjaldeyri, sem hvort tveggja stóð allmörgum fyrirtækjum fyrir þrifum af því m.a. að erfitt var að flytja inn timbur og aðrar skógarafurðir. Auk bankanna hrundi byggingariðnaðurinn og við erum enn að súpa seyðið af því hruni í formi húsnæðisskorts og hárrar leigu. 
 
Að eiga okkar eigin framleiðslumikla skógarauðlind og úrvinnsluiðnað tengdan henni hefði ekki komið í veg fyrir hrunið en það hefði mildað áhrifin. 
 
Í góðæri er auðvelt að halda að þetta verði alltaf svona, en ekkert í skemmri eða lengri tíma sögu efnahags styður slíka draumóra. Það koma tímar þegar gott er að vera sem mest sjálfbjarga með nauðsynjar. Ekki aðeins mat, heldur einnig byggingarefni og margs konar hráefni til að halda atvinnulífinu gangandi.   
 
Okkur Íslendingum hefur tekist að lifa af án skóga. Fram undir 1940 fylgdi því veruleg fátækt og landið bar miklu færra fólk. Síðan hefur leiðin legið uppávið, vegna útflutnings á framleiðslu hafsins, framleiðslu fallvatna og nú seinast vegna ferðamanna, sem allt er háð greiðum samgöngum við útlönd, m.ö.o. háð olíu. Þetta verður ekki svona til eilífðar. 
 
Við erum rík þjóð og nú ríkir góðæri. Það er einmitt á slíkum tímum sem fjárfesta á í innviðum, helst varanlegum innviðum sem gefa fjölbreyttan ágóða í framtíðinni og gera okkur betur kleift að takast á við erfiðari tíma þegar þeir koma. Skógar eru meðal þeirra innviða. Fjárfesting í framleiðslumikilli skógarauðlind er reyndar með því allra besta sem hægt er að gera við peninga þegar nóg er af þeim. Þannig eru peningar teknir út úr helst til heitu hagkerfi og geymdir þar til meiri þörf er á þeim. Og skógarnir sem þannig verða til draga úr loftslagsbreytingum, vernda og bæta jarðveg og skapa fjölbreytta notkunarmöguleika á meðan þeir eru að vaxa. Síðan er hægt að stilla notkun þeirra eftir þörfum hagkerfisins hverju sinni, höggva minna þegar auðvelt er með innflutning en meira þegar þörf er á. Með okkar eigin skógarauðlind höfum við þetta val. Án skógarauðlindar höfum við ekkert val. Við neyðumst til að flytja allt inn, líka þegar það er okkur erfitt.
 
Við getum eignast þennan fjölþætta ábata skóga, sem nágrannaþjóðir okkar eru ekki í nokkrum vafa um að sé bráðnauðsynlegur, með því að þjóðin fjárfesti í að byggja upp skógarauðlind nú þegar tækifæri gefst. Eða við getum vonað að þetta reddist.
 
Þröstur Eysteinsson
skógræktarstjóri.

Skylt efni: innviðir | Skógrækt

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019
Skoðun 16. janúar 2023

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019

Árið 2022 var sögulegt, eftir tveggja ára baráttu við Covid-19 sjúkdóminn, sem e...

Biðin er ótæk
Skoðun 1. desember 2022

Biðin er ótæk

Nú liggur fyrir að þróun áburðarverðs á heimsmarkaðsverði hefur verið heldur á u...

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi
Skoðun 24. nóvember 2022

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi

Við undirritun EES-samningsins 1992 byggði samstarf ESB á ákveðnum sáttmálum.

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda
Skoðun 21. júní 2022

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að...

Traust og „chill“
Skoðun 20. júní 2022

Traust og „chill“

Það hlýtur að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé sa...

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu
Skoðun 9. júní 2022

Grafalvarleg staða kjötframleiðslu

Margt fellur með íslenskri kjötframleiðslu, landgæði, vatn, skilningur neytend...

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins
Skoðun 1. júní 2022

Tækifæri og áskoranir í virðiskeðju íslenska eldislaxins

Síðastliðinn áratug hafa áskoranir laxeldisgreinarinnar á Íslandi breyst að því ...

Nagandi afkomuótti
Skoðun 23. maí 2022

Nagandi afkomuótti

Öllum sem fylgjast með ástandi heimsmála og samfélagsins hlýtur að vera ljóst að...