Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Skriður og riða
Skoðun 7. október 2021

Skriður og riða

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Nú þegar haustverkin eru í fullum gangi lætur náttúran ekki hjá líða að minna á sig. Jörð skelfur á suðvesturhorninu og Askja tútnar út. Fjárdauði varð í áhlaupsverði á Ströndum og víðar. Riða kom upp í Skagafirði með tilheyrandi búsifjum fyrir bændur. Þá féllu fjölmargar skriður í Útkinn og ollu verulegu tjóni á ræktun auk þess að búa til verkefni til margra ára í uppgræðslu.

Þessar hamfarir eiga að minna okkur á að við búum í háskalegu landi og það þarf að endurskoða tryggingamál bænda. Húseignir, íbúðar- og gripahús eru tryggð gegn tjóni í gegnum skyldutryggingar. Það er ræktarland ekki nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum í gegnum lög um Bjargráðasjóð. En eitt af hlutverkum sjóðsins er að veita fjárhagsaðstoð til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara á túnum. Eftir að búnaðardeild Bjargráðasjóðs var lögð niður þá er búfé með öllu ótryggt.

Í hallærum hefur aldrei skort samtakamátt á Íslandi

Sú var tíðin að allir bændur greiddu framlag í Bjargráðasjóð, gegn mótframlagi ríkisins. Það form komst á á harðindaárum á sjöunda áratugnum, þegar hafís olli stórfelldum uppskerubresti ár eftir ár. Í hallærum hefur aldrei skort á samstöðu og samtakamátt á Íslandi. Seinna voru greiðslur í þennan sjóð lækkaðar og loks dæmdar ólögmætar með búnaðargjaldinu. Bjargráðasjóður hefur ekki ráðið við að bæta stórskaða af völdum náttúruhamfara í langan tíma. Orðið hefur að bæta í hann fé til þess að bæta tjón af völdum eldgosa og fjárdrepsveðra, kals í túnum og tjóns á girðingum vegna óveðra. Hann hefur þó verið mikilvægur sem farvegur fyrir stuðning til bænda þegar á hann hefur reynt. Gallinn við þetta fyrirkomulag er að það er ófyrirsjáanlegt og háð því að hamfarirnar séu nægjanlega víðtækar til þess að ná eyrum stjórnmálamanna. En sama tjón getur verið jafn tilfinnanlegt fyrir fáa.

Það voru mistök að ekki var farið í heildar­endurskoðun á tryggingamálum bænda þegar lögum um Bjargráðasjóð var breytt árið 2016. Búnaðarþing ályktaði í vor um að skora á landbúnaðarráðherra að hefja slíka endurskoðun og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp sem hefur hafið störf. Það er ljóst að af ýmsu þarf að hyggja. Það kann að vera að vegna loftslagsbreytinga bætist við þann lista náttúruvár sem þarf að huga að. Skriðuföll gætu orðið tíðari. Þurrkar gætu leitt til vatnsskorts og svona mætti lengi telja. Hugsanlega verða gróðureldar í skógum. Þá má ekki útiloka að hingað geti borist kvikindi eða nýir sjúkdómar sem valdi búsifjum í ræktun eða búfé.

Tryggingamál sem þessi eru með ýmsum hætti í löndunum í kringum okkur. Víðast hvar þar sem sérstakar tryggingar eru fyrir hendi hefur ríkið að henni aðkomu – vegna markaðsbresta eru ekki forsendur fyrir hinn frjálsa markað að sinna þessari þjónustu. Það er svo sérstakt rannsóknarefni hvort að setja ætti einhverjar skorður um það hversu mikið tryggingafélög megi hagnast á skyldutryggingum. En miðað við arðgreiðslur út úr félögum sem fyrir áratug síðan voru á vonarvöl má ætla að það sé allt að því allnokkur hagnaður.

Áratuga barátta við riðu

Innflutningur á lifandi fé til kynbóta í sauðfé á öldinni sem leið og áður fylgdi gríðarlegt tjón. Í stað þess að efla afkomu og atvinnuhætti ollu þeir sjúkdómar sem komu með innflutningnum þvílíkum vandamálum fyrir þjóðina alla. Riða er talin hafa borist hingað á seinni hluta 19. aldar með enskum hrúti og verið til bölvunar alla tíð síðan.

Marga þessa sjúkdóma náðist að kveða niður með fjárskiptum en riðan stóð slíkt af sér sums staðar. Því má ekki gleyma þegar fyrrverandi embættismenn leggja til stórkarlalegar lausnir um að skera 70–80 þúsund fjár sem hefðu mikla byggða- og atvinnuröskun í för með sér. Síðustu áratugi hefur þó verið ákveðinn friður fyrir riðu víðast hvar um landið.

Nú ber svo við að riða hefur greinst í Skagafirði og í öðru hólfi en árið áður. Það er nauðsynlegt að fara vandlega yfir þær baráttuaðferðir sem við höfum beitt gegn riðunni þannig að það náist fullnaðarsigur í fyrirsjáanlegri framtíð. En annað þarf að skoða samtímis.

Til þess að við náum árangri verða að koma fullar bætur fyrir það tjón sem verður þegar ráðherra fyrirskipar niðurskurð á búfé bænda. Á ágalla í ákvörðun riðubóta var bent í áliti umboðsmanns Alþingis fyrir 14 árum síðan í máli nr. 4917/2007. Lítið hefur þó breyst í þeim efnum í tíð þeirra átta landbúnaðarráðherra sem setið hafa í embættinu síðan þá. Vonandi mun sá níundi gera betrumbætur á því.

Skylt efni: riða | skriður

Náttúrulegir óvinir meindýra – Hetjur skógarins?
Skoðun 3. október 2025

Náttúrulegir óvinir meindýra – Hetjur skógarins?

Náttúrulegir óvinir meindýra eru hópur lífvera sem eiga það sameiginlegt að næra...

 Kregðubólusetningar - val eða vitleysa
Skoðun 3. október 2025

Kregðubólusetningar - val eða vitleysa

Kregða þýðir sá sem étur lítið.  Kregðusýkillinn telst til s.k. berfryminga (Myc...

Ósýnilegi burðarásinn í öryggismálum þjóðarinnar
Skoðun 3. október 2025

Ósýnilegi burðarásinn í öryggismálum þjóðarinnar

Við hugsum oft um almannavarnir sem viðbragð við náttúruhamförum, farsóttum eða ...

Varðveisla erfðaauðlinda
Skoðun 2. október 2025

Varðveisla erfðaauðlinda

Búfé og plöntur hafa fylgt manninum í um 10.000 ár eða frá þeim tíma sem maðurin...

Sterkir innviðir — sterkt samfélag
Skoðun 2. október 2025

Sterkir innviðir — sterkt samfélag

Í nýliðnum ágúst átti ég milliliðalaust samtal við íbúa og sveitarstjórnarfólk á...

Hernaðurinn gegn Hamarsdal
Skoðun 2. október 2025

Hernaðurinn gegn Hamarsdal

Góðir lesendur. Heggur sá er hlífa skyldi.  Ég fordæmi ákvörðun umhverfisráðherr...

Íslensk skógrækt í alþjóðlegu samhengi
Skoðun 1. október 2025

Íslensk skógrækt í alþjóðlegu samhengi

Dagana 9.–11. september fóru tveir fulltrúar Skógardeildar Bændasamtaka Íslands ...

Gætum að geðheilsunni
Skoðun 29. september 2025

Gætum að geðheilsunni