Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu
Mynd / Bbl
Skoðun 21. október 2021

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Þegar þessi pistill er skrifaður er undirritaður miðja vegu milli Reykjavíkur og Akureyrar við upphaf Bændafunda um landið. Með í för eru stjórnarmenn samtakanna ásamt starfsmönnum þar sem við leitumst við að ná samtali við bændur um framtíðarsýn samtakanna og landbúnaðinn á Íslandi.

Á þeim fundum sem við höfum þegar haldið hefur fundarmönnum verið tíðrætt um reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sem kynnt var inni á samráðsgátt stjórnvalda þann 24. september sl. Reglugerðin byggir á 11. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 sem voru samþykkt á Alþingi árið 2018. Markmið laganna er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Í lögunum er mælt um að ráðherra skuli setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu, með leiðbeiningum og viðmiðum þar að lútandi sem taki mið af ástandi lands, m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju. Þessi markmið er hægt að taka undir. Við sem nýtum landsins gæði til verðmætasköpunar höfum flest að leiðarljósi að skila landinu í betra ásigkomulagi en við tókum við því. Þannig hafa bændur grætt upp þúsundir hektara lands í góðu samstarfi við Landgræðsluna um áratugaskeið.

Það sem liggur beinast við er að líta til orðanna viðmið og leiðbeiningar. Þessi viðmið sem sett eru upp eru flókin og ógjörningur er að átta sig á því hvaða áhrif þau munu hafa. Ástæða þess er að reglugerðin gerir ráð fyrir því að bera beitarsvæði saman við ímyndað svæði í besta mögulega ástandi miðað við aðstæður, landslag og þess háttar. Slíkt mat á beitarsvæðum landsins liggur ekki fyrir og mun trauðla liggja fyrir þegar hefja á innleiðingu reglugerðarinnar. Þannig er hvorki um viðmið né leiðbeiningar að ræða í reynd, heldur áform um flókið og óskilvirkt eftirlit sem ekki munu skila árangri. Þannig samrýmast reglugerðardrögin sem eru til umsagnar ekki vel lögunum sem þau grundvallast á. En þau gera ráð fyrir að leiði eftirlit Landgræðslunnar til að ástand lands samrýmist ekki lögunum eða viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu skuli landeiganda leiðbeint um gerð landbótaáætlunar í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórn. Þá megi gera umráðamönnum búfjár skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins megi rekja ósjálfbæra landnýtingu til ágangs vegna lausagöngu búfjár. Eins gæti þvingunarúrræði laganna ásamt dagsektar­ákvæði virkjast.  

Ástand lands í samhengi við nýtingu ákvarðar sjálfbærni

Í aðdraganda vinnunnar gerðu Bændasamtökin alvarlegar athugasemdir við að ekkert samráð var haft við hagsmunaðila um gerð viðmiða um jarðrækt, þrátt fyrir að allur hefðbundinn landbúnaður byggi á því að nýta tún til ræktunar nytjajurta. Upphaflegu drögin báru þess merki að þau hefðu bara getað batnað við samráð. Grundvallarhugsunin í stýringu nýtingar hlýtur að vera sú að ástand lands í samhengi við nýtingu eigi að gefa spá um hvernig ástand lands verður í framtíðinni. Það er með þeirri vísindalegu nálgun sem Íslendingum hefur lukkast að stýra nýtingu sinni á auðlindum sjávar um áratugaskeið. Væri hins vegar notast við sömu skilgreiningu á sjálfbærri nýtingu auðlinda í sjávarútvegi líkt og gert er ráð fyrir í reglugerðardrögunum er ólíklegt að nokkur fiskur væri veiddur á sjálfbæran hátt. Því öll nýting á landi sem ekki er í besta mögulega ástandi er talin ósjálfbær. Væri þorskstofninn ekki í hámarksstærð miðað við aðstæður væru veiðarnar ekki sjálfbærar. Það gefur augaleið að þetta verklag getur ekki gengið.

Við viljum sérstakt landbúnaðarráðuneyti

Bændur hafa tekið til á hlaðinu hjá sér með því að sameina búgreinafélög inn í sterk samtök bænda. Það hefur gert það að verkum að sérfræðiþekking nýtist betur og greinarnar vinna saman að því markmiði að efla íslenskan landbúnað. Enda eru hagsmunir allra greina samtvinnaðir, við erum sterkari saman. En það þyrfti að taka til víðar. Með lögum um Stjórnarráð Íslands sem tóku gildi 1. janúar 1970, hvarf atvinnumálaráðuneytið af sjónarsviðinu og sérstakt landbúnaðarráðuneyti var stofnað með eigin skrifstofu og lögbundið starfssvið. Árið 2007 var tekin sú ákvörðun á Alþingi að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið í eitt ráðuneyti. Síðar var það ráðuneyti sameinað inn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Síðan þá hafa nokkrar breytingar orðið á starfssviði ráðuneytisins og þeim stofnunum sem bændur þurfa að eiga í samskiptum við. Upplifun atvinnugreinarinnar og samtakanna er sú að fleiri hendur þurfi innan ráðuneytisins til þess að sinna málum landbúnaðarins. Af nógum verk­efnum er að taka á næstu árum. Bæta þarf afkomu, auka nýliðun og tryggja þarf skynsamlegar ráðstafanir til þess að ná auknum árangri í loftslagsmálum.

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...