Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Skoðun 20. september 2018
Ódýrara Ísland!
Höfundur: Ingvi Stefánsson formaður Félags svínabænda - ingvist@simnet.is
Þann 8. september sl. boðaði Viðreisn til blaðamannafundar undir slagorðinu „Ódýrara Ísland“. Þar voru kynnt áherslumál flokksins á komandi vetri. Formaður og varaformaður flokksins kynntu m.a. leiðir til að lækka vaxtakostnað og matvælaverð heimilanna. Hvorutveggja mjög brýn hagsmunamál fyrir neytendur og þörf umræða.
Það rifjaðist upp fyrir mér við lestur þessarar fréttatilkynningar að ég hafði setið fund í landbúnaðarráðuneytinu fyrir ári síðan nánast upp á dag. Á þeim fundi var m.a. þáverandi landbúnaðarráðherra sem er einmitt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar. Einsog alltaf á fundum mínum í ráðuneytinu skildi ég eftir minnisblað sem ég afhenti ráðherra og kynnti jafnframt á fundinum. Meðfylgjandi línurit var á minnisblaðinu, ég hef reyndar uppfært það til dagsins í dag.
Á línurritinu má sjá að almennt verðlag hefur hækkað um 10% á síðustu 5 árum. Á sama tíma hefur verð til svínabænda lækkað um 13%. Vísitala neysluverðs er samansett af talsverðum fjölda undirvísitalna. Ein af þeim er „kjöt unnið reykt og saltað“.
Svínakjöt er uppistaðan í þeirri vísitölu og sýnir því best hvernig verðþróun á svínakjöti hefur verið til neytenda á umræddu tímabili. Sú vísitala hefur hækkað um 12%. Eða m.ö.o. á meðan bændur fá sífellt minna í sinn hlut þurfa neytendur að borga hærra verð fyrir kjötið.
Ef ég reyni nú að umorða þetta einu sinni enn, millilliðirnir eru að taka sífellt meira til sín. Svínabændur gera engar athugasemdir við að verð hafi lækkað til þeirra á þessu tímabili en okkur þykir sárt að sjá að ávinningurinn skili sér ekki til neytenda.
Hefur eitthvað fleira verið að gerast á þessum árum sem hér eru skoðuð? Já, innflutningur á svínakjöti hefur margfaldast að magni – að stærstu leyti á opnum útboðstollkvótum – og er innflutt svínakjöt nú komið með upp undir þriðjungs markaðshlutdeild á innanlandsmarkaði. Félag svínabænda hefur í mörg ár vakið athygli á þessari þróun en talað fyrir daufum eyrum svo ekki sé fastar að orði kveðið. Af hverju hafði þáverandi landbúnaðarráðherra ekki áhuga á að ræða þessa þróun? Af hverju hafa Neytendasamtökin ekki áhuga á þessu? Hvað með ASÍ og Samkeppniseftirlitið? Hvað með fjölmiðla?
Tollverndin
Á vegum landbúnaðarráðherra starfar nú nefnd undir forystu Óla Björns Kárasonar – þingmanns Sjálfstæðisflokksins – sem er falið það verkefni að endurskoða núverandi fyrirkomulag við útboð á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Innflytjendur eru ítrekað búnir að leggja stjórnvöld fyrir dómstólum í því máli og hafa fengið um 3 milljarða endurgreidda frá ríkinu. Enn sækja þessir aðilar rétt sinn fyrir dómstólum og hafa nú höfðað dómsmál og telja sig eiga inni allt að 4 milljarða í fomri ólögmætrar innheimtu á útboðsgjaldi tollkvóta. Þetta er umhverfið sem íslenskir bændur búa við í dag ásamt nýjum tollasamningi við ESB auk nýfallins EFTA dóms í hráakjöts málinu svokallaða. Er til of mikils ætlast að krefjast þess að stjórnvöld gyrði sig í brók og reyni að minnka óvissu í þessum málaflokki? Ætla stjórnvöld að halda áfram að láta hrekja sig úr einu horninu í annað eða á að móta einhverja heildarstefnu fyrir landbúnað þar sem skýrar línur verða lagðar í tollverndinni?
En aðeins aftur að Ódýrara Íslandi. Okkur bændum hættir til að fara í varnarstellingar þegar núverandi umgjörð landbúnaðarins er gagnrýnd. Þannig tel ég að það sé eitt og annað í tillögum Viðreisnar sem bændur eiga að taka til skoðunar.
Er skynsamlegt að hafa þannig umgjörð um landbúnaðinn að „kerfið“ stýri bændum í ákveðnar búgreinar án tillits til framboðs og eftirspurnar?
Nýtist opinbert fé e.t.v. betur ef einstaklingnum er treyst fyrir því að ákveða hvað hann vill taka sér fyrir hendur í sveitum landsins?
Fjórða iðnbyltingin er handan við hornið og þá verðum við að muna að landbúnaður er svo miklu meira en bara ær og kýr. Er líklegt að núverandi umgjörð sem við höfum um íslenskan landbúnað hjálpi okkur best að takast á við þær miklu breytingar sem fram undan eru?
Já, ég á mér draum. Að fyrr en síðar verði öllum gert jafnhátt undir höfði hvar sem þeir eru í sveit settir. Ég veit, þetta er pínu barnalegt en hvað með það.