Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mikilvægi nýliðunar í landbúnaði
Mynd / HKr.
Skoðun 16. ágúst 2021

Mikilvægi nýliðunar í landbúnaði

Höfundur: Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Nýverið var opnað fyrir umsóknir um styrki til nýliðunar í landbúnaði. Mikill áhugi hefur verið á styrkjunum síðustu ár og líklegt að svo verði einnig nú.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve margir bændur hafa hætt búskap síðustu ár eða vilja hætta búskap sökum aldurs eða annars og einu upplýsingarnar sem liggja fyrir um nýliðun í greininni er að hún hefur gengið mjög hægt. Hér þurfa Bændasamtökin, með fulltingi Samtaka ungra bænda og Mælaborðs landbúnaðarins að bæta sig því söfnun á þessum upplýsingum munu skipta sköpum. Án nýliðunar í landbúnaði er tómt mál að tala um fæðuöryggi þjóðarinnar. Þá er ungt fólk líklegra til að stunda ýmiss konar nýsköpun og innleiða nýjar aðferðir við framleiðslu.

Um nýliðunarstuðninginn

Nýliðunarstuðningurinn var veittur í fyrsta skiptið á árinu 2017 á grundvelli reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað. Nýliðunarstuðningur tók við af framlögum til frumbýlinga, þ.e. styrkúthlutun sem grundvallaðist m.a. á stuðningi við sauðfjárrækt. Í búvörusamningum 2016 tóku við framlög til nýliðunar í landbúnaði óháð búgrein. Markmið stuðningsins er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði. Heildarfjárhæð nýliðunarstuðningsins skv. fjárlögum 2017 var þá um 129 millj. kr. á verðlagi þess árs, sem jafngildir 147 millj. kr. á verðlagi þessa árs.

Hver eru skilyrðin?

Þeir einstaklingar einir geta sótt um stuðning sem eru skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis/garðyrkjubýlis með lögheimili á Íslandi og stunda landbúnað á viðkomandi býli. Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 18-40 ára; eru að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára frá 1. janúar á umsóknarári. Þá mega umsækjendur ekki hafa áður hlotið styrkúthlutun.

Stuðningurinn getur að hámarki numið 20% af heildar- fjárfestingakostnaði á ári og skulu framlög til einstakra nýliða ekki vera hærri en 9 millj. kr. í heildarstuðning. Á þessu ári eru um 138 millj. kr. til úthlutunar. Ef sótt er um hærri fjárhæð en er til úthlutunar er umsóknum einstaklinga forgangsraðað m.a. með vísan til eftirfarandi matsþátta:

  • Menntunar umsækjanda á sviði landbúnaðar eða sem nýtist í landbúnaði.
  • Jafnréttissjónarmiða.
  • Verk- og framkvæmdaáætlunar, 5 ára rekstraráætlunar o.s.frv.

Hér ber að hafa í huga að iðnmenntun getur skipt hér sköpum og síðan má nefna að samkvæmt Mælaborði landbúnaðarins eru 10.075 karlar skráðir búfjáreigendur á meðan konur eru einungis 1.935.

Hvað stendur nýliðun fyrir þrifum?

Að hefja búrekstur og koma sér af stað er ekki eins og að byrja í hefðbundinni vinnu. Nýjustu rannsóknir á stöðu nýliðunar snúa að nýliðunum á árunum 2001 – 2009 og var um þær fjallað í BS ritgerð Helga Elís Hálfdánarsonar árið 2012. Á þeim tíma voru ástæður fyrir lítilli nýliðun taldar vera hátt verð á greiðslumarki í nautgriparækt auk jarðaverðs, sem og hátt jarðaverð og slæm afkoma í sauðfjárrækt. Í millitíðinni hefur jarðaverð hækkað og afurðaverð í sauðfjárrækt lækkað að raunvirði. Því er líklegt að þessar ástæður eigi ennþá við.

Það má hins vegar þakka fyrir að enn eru til einstaklingar, ungt fólk sem hefur áhuga á að hefja búrekstur. Það er hins vegar afar kostnaðarsamt fyrir ungt fólk að hefja búrekstur og því er ókostur að nýliðunarstyrkurinn sé lægri að raungildi í ár heldur en árið 2017. Eina leiðin fyrir fólk til að hefja búrekstur er að hafa nægjanlegt eigið fé eða fá lánafyrirgreiðslu hjá fjármálastofnun en lánafyrirgreiðsla Byggðastofnunar til nýliðunar/kynslóðaskipta og lána í sambandi við tækjakaup hefur batnað þar sem stofnunin veitir nú allt að 90% lán til nýliðunar og má gera ráð fyrir að nýir framleiðendur sæki í auknum mæli þangað. Þá vekur það athygli að lánasafn Byggðastofnunar til landbúnaðar fer vaxandi að raungildi meðan að heildarútlán viðskiptabankanna til landbúnaðar hafa staðið í stað.

Það getur einnig verið erfiðleikum háð að fá mannskap í afleysingar og til starfa í landbúnaði og er afar mikilvægt að samtökin beiti sér fyrir því í samstarfi við Vinnumálastofnun og menntastofnanir í landbúnaði að tryggja fyrirsjáanleika slíkrar mönnunar.

Um 200 umsóknir bárust í búfræði og búvísindi við Landbúnaðarháskólann fyrir næsta skólaár sem er handan við hornið. Það eru sérstaklega ánægjulegar fregnir, fyrir um áratug var aðsóknin langt um minni. Það er því ljóst að vaxandi áhugi er á landbúnaði meðal ungs fólks. Hins vegar þurfum við að skapa þannig umhverfi og hvata að þeir sem sækja sér þessa menntun geti komið sér upp búi og stundað landbúnað.

Íslenska ríkið er stærsti landeigandinn og samkvæmt eigendastefnu ríkisins eru um 120 bújarðir í eigu þess sem væru vel nýtanlegar til búrekstrar því það er afar mikilvægt að byggð haldist á sem flestum jörðum í sveitum landsins og að hentugar bújarðir í eigu ríkisins standi til boða til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi. Einungis einn þingmaður, Haraldur Benediktsson, bóndi og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur talað fyrir því hvort ekki sé tímabært að fara í skipulagt átak í sölu á þeim jörðum sem eru í ríkiseigu, einhverjar af þessum jörðum eru í umsjá ýmissa ríkisstofnana, s.s. Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskólans, en til sögulegrar skýringar er eignarhald ríkisins mikið til komið vegna samnings við íslensku þjóðkirkjuna og vegna uppkaupa jarðarsjóðs ríkisins undir lok síðustu aldar þegar margir bændur fóru í gegnum erfiðleika.

Fæðuöryggi þjóðarinnar þarf að tryggja

Á tímum heimsfaldra eins og Covid er ýmislegt hægt að læra. Það er mikilvægt að stjórnvöld setji fram viðbragðsáætlanir sem tryggja fæðu- og matvælaöryggi, sjálfbærni í matvælaframleiðslu og birgðageymslu matvæla. Stjórnvöld þurfa því að huga að matvæla-, fæðu-, neysluvatns og fráveitukerfi sem þjóðhagslega mikilvægum innviðum til jafns á við fjarskipta-, samgöngu- og orkukerfi landsins. Fæðuöryggi og heilbrigðisöryggi eru á allra vörum. Sjónarmið um mikilvægi staðbundinnar framleiðslu mun því vaxa ef eitthvað er.

Árið 2020 lokuðu margar þjóðir landamærum sínum fyrir fólksflutningum. Veruleg hætta var á samdrætti matvælaframleiðslunnar vegna minni umsvifa í flestum samfélögum og takmörkunum á flutningi vinnuafls milli landa. Röskunin sem þetta leiddi af sér hefur hækkað verð á ýmsum matvælum síðasta árið, m.a. vegna þess að u.þ.b. þrjátíu ríki settu útflutningstakmarkanir á matvæli, þar á meðal stór útflutningslönd á korni. Hér á landi hafa komið fram hugmyndir um að hið opinbera myndi styðja við stofnun kornsamlags hér á landi að norrænni fyrirmynd. Áhugaverð tillaga sem vert er að skoða nánar því hún gæti leitt til verulegrar aukningu í framleiðslu á korni og þar með auknu fæðuöryggi. Hlutverk kornsamlagsins væri þá að kaupa, þurrka, geyma og selja korn til sérhæfðra fyrirtækja í fóðurgerð og matvælaframleiðslu þar sem framleiðslan er núna mest háð innflutningi á erlendu hráefni. Skoða þarf hagkvæmni kornræktar, markaðsforsendur og meta framtíðarhorfur – en fyrst og fremst tryggja að þekkingin glatist ekki.

Vigdís Häsler,
framkvæmdastjóri
Bændasamtaka Íslands

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...