Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hér sést niður á þjóðveginn við Svínafell og í fjarska hægra megin á myndinni glittir í Freysnes og Skeiðarársandur blasir við í vestri.
Hér sést niður á þjóðveginn við Svínafell og í fjarska hægra megin á myndinni glittir í Freysnes og Skeiðarársandur blasir við í vestri.
Lesendarýni 24. nóvember 2016

Vegagerð í Öræfum

Höfundur: Ragnar Frank Kristjánsson
Öræfingar og landsmenn fagna því að búið er að smíða nýja tvíbreiða brú yfir Morsá í stað Skeiðarárbrúar sem hefur þjónað okkur í meira en 40 ár. Eftir að Skeiðará færði sig yfir í Gígjukvísl árið 2009, þá hefur ekki verið þörf fyrir 880 metra langa einbreiða brú yfir gamla farveg Skeiðarár, því Morsá er að venju vatnslítil.
 
Brúin yfir Morsá er tilbúin, en þar sem ekki er til fjármagn hjá Vegagerðinni til að klára tvær stuttar vegtengingar að brúnni, þá þarf að bíða til sumarsins 2017 að taka hana í notkun. Það er slæmt að þurfa að bíða til næsta sumars, því Skeiðarárbrú er orðin hættuleg vegfarendum. Í framhaldi af nýrri brú yfir Morsá og miklar breytingar á farvegum jökuláa í Öræfum þá er skynsamlegt að hugleiða hvernig framtíðar veglína í gegnum vesturhluta Öræfa gæti orðið.
 
60 ára gömul veglína
 
Staðsetning núverandi vegar yfir Skeiðarársand og að Skaftafelli var ákveðin upp úr 1970 og í framhaldi var hringvegurinn opnaður 1974. Vegasamgöngur á milli Skaftafells og Fagurhólsmýrar opnuðust 1954 með brú á Skaftafellsá og er því veglínan yfir 60 ára gömul. Í dag eru 22 einbreiðar brýr í Austur-Skaftafellssýslu og þar af eru átta í Öræfum.
 
500.000 ferðamenn
 
Mikil umferð er um Öræfin enda er þar að finna tvo af vinsælustu ferðamannastöðum á Íslandi, Skaftafell og Jökulsárlón, meira en 500.000 ferðamenn heimsækja þessa staði. Ferðaþjónustan vex hratt í Öræfum, á annan tug fyrirtækja er með ferðaþjónusturekstur, fjöldi hótelherbergja hefur margfaldast og opið er í þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli allt árið.
 
Í Öræfum búa að staðaldri um 65 manns og hefur þeim farið fjölgandi á undanförnum tveimur árum. Á síðasta sumri voru yfir 200 sumarstarfsmenn í vinnu í Öræfum. Umferðarmagn og umferðarhraði hefur aukist mjög mikið síðan Skaftafellsá, Svínafellsá, Virkisá og Kotá voru brúaðar um miðja síðustu öld.
 
Stóraukin bílaumferð
 
Á síðustu fimm árum hefur sumar­umferð bifreiða aukist um 100% og vetrarumferð um 150%, þessi þróun mun halda áfram á næstu árum. Ofsaveður geta orðið í Öræfum og er Sandfell þekktur staður í þeim efnum, með aukinni umferð ferðamanna allt árið þá er hætta á að slysum muni fjölga þar sem veður eru válynd.
 
Nú er kominn tími til að ákveða framtíðar veglínu í gegnum Öræfin, með markmið að stytta hringveginn, fækka einbreiðum brúm og bæta búsetuskilyrði. Núverandi vegur er 25 km langur og liggur hann frá Morsá að Skaftafelli, framhjá Hótel Skaftafelli og bensínstöðinni í Freysnesi, vestan við byggðina í Svínafelli og Hofi. Með færslu hringvegarins vestur að flæðisléttu Skeiðarársandar er hægt að stytta lengd vegarins, fækka brúm, bæta öryggi vegfarenda og búsetuskilyrði bænda í Öræfum. Sífellt erfiðara er að stunda hefðbundinn búskap á stöðum þar sem aðalbraut með mikilli umferð sker í sundur heimalönd bænda. 
 
Ný veglína og stytting vegar
 
Með því að færa veglínuna 2–2,5 km vestar en núverandi vegur þá mun ný veglína stytta leiðina úr 25 km í 19 km. Stytting hringvegarins um 6 km þýðir að arðsemi framkvæmdanna verður mikill. Margt bendir til að þegar vegstæði er fært fjær fjalllendi Svínafells og Sandfells þá eru minni hættur á sterkum vindhviðum og má því áætla að slysum muni fækka.
 
Lagt er til að brúarstæði Skaftafells- og Svínafellsár verði þar sem árnar mætast á flæðisléttu Skeiðarársands. Brú á Virkisá verði um 2 km fyrir vestan núverandi brú og ný brú yrði á Kotá vestan við Háöldu. Nýr vegur yrði vestan við túnin á Hofi og tengdist núverandi vegi skammt frá nýlegri brú yfir Gljúfursá við Fagurhólsmýri. Með því að færa veginn út á flæðisléttu Skeiðarársands þá verður auðvelt að setja upp fjárhelda girðingu meðfram veginum.  
 
Leggja þarf af einbreiðar býr
 
Frá Fagurhólsmýri að Jökulsárlóni eru fjórar einbreiðar brýr, brýrnar yfir Hólá og Stígá eru aðeins 16 metra á lengd og því hættulegar, ekki er langt síðan að banaslys var við Hólá og alvarlegt slys við Stígá. Það er kominn tími til að þessar tvær brýr heyri sögunni til.
 
Skorað á sveitarstjórn
 
Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2012–2030 er gert ráð fyrir breytingum á veglínu í landi Freysness og Svínafells. Að mínu mati gengur sú tillaga ekki nógu langt og skora ég því á sveitarstjórn Hornafjarðar að gera breytingar á aðalskipulaginu og marka nýja stefnu í vegagerð í Öræfum.
 
Fyrirhuguð vegaframkvæmd á milli Morsár og Gljúfursár er matskyld og er því mikilvægt fyrir Vegagerðina að hefja undirbúning við matið í framhaldi af aðalskipulagsbreytingunni. Í samræðum mínum við Öræfinga og sveitarstjórnarfulltrúa á Höfn þá eru þeir almennt fylgjandi breytingu á veglínu á milli Morsár og Fagurhólsmýrar.    
 
Ragnar Frank Kristjánsson, 
lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. 
Bjó í Skaftafelli á árunum
1998–2007 og er jökla-
mælingar­maður í Öræfum.

Skylt efni: Öræfi

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f