Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá matarmarkaði í Hörpu.
Frá matarmarkaði í Hörpu.
Mynd / smh
Lesendarýni 11. október 2023

Smáframleiðendur þurfa starfsleyfi til að geta tekið þátt í matarmarkaði í Reykjavík

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir.

Könnun meðal félagsmanna Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og Beint frá býli (BFB) leiddi í ljós að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (hér eftir HRvk) sé eina heilbrigðiseftirlit landsins sem túlkar lög um matvæli á þann hátt að þeim sé skylt að krefjast þess að framleiðendur forpakkaðra matvæla, þ.m.t. smáframleiðendur, þurfi að sækja um tímabundið starfsleyfi (svokallað torgsöluleyfi) fyrir hvern og einn matarmarkað sem þeir taka þátt í og greiða fyrir það 17.100 kr. sem samsvarar gjaldi eftirlitsins fyrir einn klukkutíma.

Enginnfélagsmaður hefur nokkurn tímann þurft að sækja um starfsleyfi til að geta tekið þátt í matarmarkaði á landsbyggðinni.

Til að bregðast við þessu hafa SSFM / BFB í heilt ár leitað allra leiða til að fá matvælaráðuneytið til að láta reglugerð nr. 580/2012 sem gengur undir heitinu „smáræðisreglugerðin“ ná einnig til matarmarkaða, þar sem sala er í eigin hagnaðarskyni, en ekki eingöngu í góðgerðarskyni.

Það myndi þýða að matvælaframleiðendur með forpökkuð matvæli og gilt starfsleyfi frá sínu heilbrigðisumdæmi, þyrftu ekki að sækja um tímabundið starfsleyfi til að geta tekið þátt ef ábyrgðaraðilar markaðarins eru með leyfi heilbrigðiseftirlits svæðisins fyrir markaðinum, gegn því að framleiðendurnir afhendi ábyrgðaraðilum starfsleyfi sín áður en markaður hefst.

Rök HRvk eru þau að framleiðandinn sé í raun að opna verslun þann dag eða þá daga sem markaðurinn stendur yfir og heilbrigðiseftirlitið þurfi að tryggja að heilbrigðiskröfur séu uppfylltar með því að taka á móti starfsleyfisumsókn og greiðslu fyrir hana.

Á fundi samtakanna með fulltrúum HRvk fyrir rúmu ári síðan kom fram að þegar smáræðisreglugerðin var fyrst gefin út hafi HRvk lagt til að þessi undanþága yrði í henni, en á þau hafi ekki verið hlustað. Því telji þau sér skylt að fara eftir lögum um matvæli nr. 93/1995, en í 2. grein stendur að þau taki til framleiðslu og dreifingar matvæla á öllum stigum, skilgreint nánar í 9. og 20. gr. þar sem kemur m.a. fram að starfsleyfi séu gefin út fyrir hverja starfsstöð og staðsetningu hennar. Þau líti svo á að borð framleiðandans á matarmarkaði sé starfsstöð.

Á fundi fulltrúa BFB með HRvk um sama mál fyrir nokkrum árum síðan hafi rökin meðal annars verið að ef þau gerðu það ekki myndu matvöruverslanir í Reykjavík líta á það sem mismunun. Að þau þyrftu að sækja um starfsleyfi til að geta opnað matvöruverslun í Reykjavík, á meðan smáframleiðendur sem ætli að selja forpakkaðar vörur sínar á jólamatarmarkaði sem dæmi þyrftu þess ekki. Sér einhver það fyrir sér að forstjóri Bónus/Krónunnar/Samkaup myndi fara á límingunum yfir því að heilbrigðiseftirlitið myndi ekki krefjast þess að hún Jóna með rabarbarasultuna sækti um starfsleyfi fyrir að fá að selja sultuna sína á markaði í Reykjavík því hún sé í raun að opna verslun?

Við höfum farið yfir málið á fundi með ráðherra, í símtölum og í tölvupóstsamskiptum við aðstoðarmenn ráðherra og starfsfólks ráðuneytisins og fáum alltaf þau svör að málið sé í vinnslu og að markmiðið sé að ná að klára það fyrir tiltekinn tíma, en ekkert gerist. Nú eru jólamatarmarkaðirnir að fara í gang og við erum búin að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá þau til að breyta þessu fyrir þann tíma, fyrst það náðist ekki fyrir síðustu jól eins og við vorum að vona, en erum satt að segja ekki vongóð þar sem komið er fram í október.

Á fyrrnefndum fundi okkar með HRvk þar sem við leituðum skýringa á þessu ræddum við einnig þá hindrun sem þetta væri fyrir þátttöku okkar á Landbúnaðarsýningunni í október 2022. Þar leigðu SSFM / BFB stóran bás þar sem komið var fyrir röð borða, eitt fyrir hvern félagsmann. Sýningin var í þrjá daga og tóku flestir þátt í einn dag svo sem flestir af ríflega 200 félagsmönnum gætu tekið þátt. Um 40 félagsmenn enduðu á því að vera með borð. Ef hver og einn hefði greitt það 15.700 kr. gjald sem þá var fyrir starfsleyfið hefði kostnaður félagsmanna við að fá starfsleyfi til að „opna verslun“ á sýningunni verið samtals 628.000 kr. Með því að gerast ábyrgðaraðili og undirgangast ýmis skilyrði gátum við samið við HRvk um að SSFM / BFB greiddu eftirlitinu sem svarar 4 klukkustundum fyrir eftirlitið, samtals 62.800 kr.

SSFM/BFB eru samstarfsaðilar Slow Food Reykjavík um viðburð í Grasagarði Reykjavíkur 20.–21. október sem innifelur í sér fræðslu og markað. Lengi virtist ekki geta orðið af honum þar sem talið var að framleiðendur yrðu ekki tilbúnir til að greiða 17.100 kr. fyrir einn til tvo daga. Þau ákváðu því að kanna hvort þau gætu samið um það sama og SSFM/BFB fyrir Landbúnaðarsýninguna. Sú varð raunin og þarf Slow Food Reykjavík því að punga út tæpum 70.000 kr. til að greiða HRvk fyrir að gefa út starfsleyfi fyrir þá um og yfir 20 framleiðendur sem munu taka þátt.

Þetta er enn eitt dæmið um þær óþarfa hindranir, kröfur og kostnað sem smáframleiðendur matvæla og aðrir framleiðendur hér á landi þurfa að búa við og mikið hefur verið fjallað um undanfarið undir yfirskriftinni BÁKNIÐ.

Skylt efni: Báknið

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...