Forval hugmynda til verðmætasköpunar
Í framhaldi af nýrri stefnu Félags skógarbænda á Suðurlandi ákvað félagið að koma af stað afurða- og markaðsmálum skógarbænda á Suðurlandi.

Elstu nytjaskógar á Suðurlandi hafa náð 35 ára aldri og víða komið að fyrstu grisjun, sér í lagi þar sem mikið var plantað af fljótsprottinni alaskaösp fyrstu árin. Í þessu sambandi var á síðasta ári settur af stað verkefnahópur sem falið var að safna og gera grunnúttekt á áhugaverðum hugmyndum um úrvinnslu skógarafurða. Samráðshópurinn samanstóð af sérfræðingum frá ýmsum sviðum, þar á meðal skógrækt, hönnun, iðnaði og fræðasamfélaginu. Verkefnisstjóri var Björn Bjarndal fyrir hönd Félags skógarbænda á Suðurlandi en Silja Björk Axelsdóttir og Alexandra Kjeld frá Verkfræðistofunni Eflu stýrðu vinnu við verkefnaskýrsluna sem fékk heitið Úr skógi – skógarafurðir á Íslandi, sjá HÉR. Auk framangreindra sátu í vinnuhópnum þau Gústaf Jarl Viðarsson, skógræktarráðgjafi hjá LOGS, Hrefna Jóhannesdóttir, skógarbóndi og sviðsstjóri hjá LOGS, Björn Steinar Blumenstein, lektor í Listaháskóla Íslands, Eva María Árnadóttir, sviðsstjóri við sama skóla og Björk Gunnbjörnsdóttur, hönnuður og skógarbóndi. Verkefnið fékk styrk úr Sóknaráætlun Suðurlands ásamt því að Verkfræðistofan Efla studdi myndarlega við verkefnið.
Nú í vor lauk fyrsta áfanga við verkefnið sem snerist um að kanna og þróa úrvinnsluleiðir fyrir nytjaafurðir úr skógum með það markmið að finna leiðir til að skapa verðmæti úr þeim hráefnum sem fást við grisjun og nýtingu á íslenskum skógum. Gróft forval var gert á hugmyndum um mismunandi úrvinnsluleiðir skógarnytja, þar sem hugmyndir voru flokkaðar eftir gerð þeirra; timburvörur, hliðarafurðir, sértækar vörur, orka, matur, drykkir og upplifanir. Hugmyndirnar voru síðan metnar út frá raunhæfni, markaði og aðstæðum. Meginmarkmið verkefnisins er að greina þær vörur sem hafa mestan möguleika á að vera arðbærar.

Álitlegar afurðir
Eins og fram kemur á myndinni hér að ofan reyndust ýmsar afurðir álitlegar til framleiðslu úr íslenskum skógum, svo sem garðhýsi, gufuböð, krosslímdar einingar, límtré, flettir trjábolir og millikubbar í vörubretti. Ljóst er að eftirspurn hefur farið vaxandi, bæði í byggingariðnaði og á almennum markaði. Má þar nefna viðarperlur og viðarkurl, sem orkugjafa og til annarra nota, lífkolavinnslu og eldivið. Jafnvel er áhugi að aukast eftir sértækum vörur eins og hitameðhöndluðu timbri og gegnsæju efni sem unnið úr timbri. Einnig er að finna í skýrslunni aðrar vörur og þjónustu, svo sem timburfrauð sem gæti komið í stað plastumbúða undir ferskan fisk og upplifun ferðafólks og almennings í skógi. Jafnframt kemur fram að ýmsar vörur sem ekki röðuðust ofarlega í forvalinu geti engu að síður verið fýsilegur kostur fyrir einyrkja eða í smáframleiðslu.
Áætlað er að frá og með árinu 2030 verði hægt að nýta árlega yfir 50 þúsund rúmmetra af bolviði úr nytjaskógum landsins. Þá hefur spurn eftir timbri og timburvörum aukist verulega í heiminum að undanförnu, ekki síst vegna þess hversu visthæft efni viðurinn er í samanburði við önnur hráefni á borð við steinsteypu, járn og plast. Hvort tveggja gefur aukið tilefni til að huga betur að verðmætasköpun úr íslenskum skógum.
Hvað næst?
Þessi skýrsla er fyrsti áfangi í þriggja ára vinnu við verkefnið Úr skógi. Næst verða metnar þær hugmyndir sem eru taldar fýsilegastar í þessari skýrslu. Með ítarlegri greiningu verður hægt að tryggja að valdar séu hugmyndir sem eru raunhæfar og hagkvæmar.
Einnig þarf að vinna markaðsgreiningu á eftirspurn og samkeppnisstöðu viðarafurða ásamt því að setja fram mögulegar sviðsmyndir til að hámarka nýtingu auðlindarinnar. Meta þarf hugmyndir um miðlægt vinnslu- og sölukerfi fyrir viðarafurðir. Félag skógarbænda á Suðurlandi vill einnig gera frekari greiningu á innviðum í landshlutanum, markaðstækifærum, samfélagsþáttum og umhverfisáhrifum. Leitað verður eftir fjárhagslegum stuðningi til að hægt verði að ráðast í þessa mikilvægu framhaldsvinnu þar sem kostnaður mun verða hærri en félagið ræður við.
Í lokin má geta þess að helsti drifkraftur íslenskra skógarbænda í dag er einskær áhugi, en það vantar fjárhagslega hvata til að viðhalda skógunum. Það er því mikilvægt að þróa arðbærar vörur úr íslenskum skógi til að auka verðmæti hans og um leið veita skógarbændum hvatningu til áframhaldandi ræktunar og nýtingar. Mun þetta ekki síður eiga við um nýja skóga sem spretta nú fram í þeim tilgangi að framleiða vottaðar kolefniseiningar, en að 20–30 árum liðnum verður þörf á grisjun og viðhaldi skóganna.
Það er líka mikilvægt að halda á lofti jákvæðu hlutverki íslenskra skóga til framtíðar, en vonast er til að verkefnið Úr skógi geti orðið lóð á þá vogarskál.