Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Vegrún er merkinga- og leiðakerfi sérstaklega hannað fyrir Ísland og stendur öllum uppbyggingaraðilum til boða.
Vegrún er merkinga- og leiðakerfi sérstaklega hannað fyrir Ísland og stendur öllum uppbyggingaraðilum til boða.
Mynd / Vegrún
Lesendarýni 8. september 2025

Er Gjaldskylda fallegasti foss á Íslandi?

Höfundur: Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Fjölgun ferðamanna hér á landi hefur leitt til hraðrar uppbyggingar á ferðamannastöðum. Í hamaganginum höfum við stundum villst af leið og misst sjónar af aðalatriðum. Nýlegt dæmi er notkun erlendra ferðamanna á merkingunni #Gjaldskylda á samfélagsmiðlum en þar sjáum við vandamálið svart á hvítu. Auga og upplifun gestsins lýgur ekki og við þurfum að bregðast við. En hvernig er best að byggja upp ferðamannastað? Hvernig byggir maður upp ferðamannastað á ábyrgan og faglegan hátt?

Góðar leiðir er safn verkefna með vefsíðuna godarleidir.is sem hugsuð er sem upphafsstaður fyrir alla þá sem með einum eða öðrum hætti koma að uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Á vefnum er að finna handbók um merkingar á ferðamannastöðum, handbók um gerð náttúrustíga og skipulagsleiðbeiningar um ferðamannastaði. Þar er einnig að finna verkefnið Hönnun í norrænni náttúru sem er yfirlit yfir sextíu vandaða ferðamannastaði víðs vegar á Norðurlöndunum, og nota má sem innblástur, og sýnir leiðir og lausnir sem ýta undir náttúruupplifun, náttúruvernd og sjálfbærni. Auk þess eru þar upplýsingar um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem opnar fyrir umsóknir núna í september.

Vegrún

Vegrún er merkinga- og leiðakerfi sérstaklega hannað fyrir Ísland og stendur öllum uppbyggingaraðilum til boða. Á vefsíðunni vegrun.is má sjá hvernig búa má til skilti og hvernig best er að miðla upplýsingum á skiltum og merkingum. Vegrún samræmir leiðamerkingar fyrir stíga og götur, segir fyrir um smíði merkinga og skilta, efnið í þeim og stærð þeirra. Vegrún sýnir með hvaða hætti má koma upplýsingum á framfæri með letri, lit og myndum.

Allir geta nýtt sér kerfið til að hanna eða láta hanna skilti til að veita ferðafólki nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeina því að rata. Stærð skiltis og merkingarnar á því ráðast af aðstæðum. Notendur geta gengið að kerfi sem er opið og aðgengilegt og sótt þangað allt sem þeir þurfa til að setja upp merkingar og leiðarvísa.

Vegrún er vandlega hugsað verkfæri sem þjónustar alla sem þurfa á merkingum að halda. Þar fara saman sérhannað letur, litasamsetningar sem henta aðstæðum í náttúru Íslands og skilti sem þola ágang veðurs og vinda. Samræmt merkinga- og leiðakerfi fyrir allt landið eykur öryggi þeirra sem ferðast, auðveldar ferðalöngum að skilja það sem fyrir augu ber og eykur ánægju og upplifun af landinu og töfrum þess.

Markmið með Vegrúnu er:

  • Að auka öryggi ferðamanna með skýrum og raunhæfum leiðbeiningum.
  • Að bæta upplifun gesta með faglegum og aðgengilegum upplýsingaskiltum.
  • Að skapa samræmdan stíl í merkingum um land allt og þar með auðvelda notendum að skilja og nýta upplýsingar.

Hver sem er getur nýtt sér Vegrún án endurgjalds – hvort sem um er að ræða sveitarfélög, fyrirtæki, sjálfboðaliða eða landeigendur – til að merkja gönguleiðir, áfangastaði, vara við hættum eða hvað annað með faglegum hætti.

Vegrúnarmerkingar hafa verið settar upp víða um land en fyrstu merkingarnar voru settar upp vorið 2021 á Snæfellsnesi. Síðan þá hafa hundruð merkinga verið settar upp víðs vegar um landið með góðum árangri.

Hönnuðir Vegrúnar eru hönnunarstofan Kolofon. Allar frekari upplýsingar um Vegrúnu er að finna á vefnum godarleidir.is

Náttúrustígar

Handbók um náttúrustíga er önnur meginstoð í verkfærakistu Góðra leiða. Hún veitir ítarlegar leiðbeiningar um hvernig hanna á náttúrustíga á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum en vel gerðir göngustígar og reglulegt viðhald gönguleiða gegna lykilhlutverki við að verja landið fyrir skemmdum og stuðla að sjálfbærri ferðamennsku.

Útivist og ferðaþjónusta hefur stóraukist á Íslandi á fáum árum. Íslensk náttúra hefur mikið aðdráttarafl og býður upp á fjölbreytta ferðamennsku og þjónustu. Aukinni umferð fylgir aukið álag á landið, ekki síst á gönguleiðir, sem getur valdið skemmdum á landinu. Íslenskur jarðvegur og gróður er sérlega viðkvæmur fyrir átroðningi og rofhætta mikil í álagsflötum.

Ýmislegt þarf að hafa í huga við hönnun og gerð gönguleiða. Meðal þess er verndargildi staða, náttúru eða menningarminja, og ferðahegðun. Fjölsóttir ferðamannastaðir í alfaraleið þar sem gera má ráð fyrir ferðafólki með mismunandi þarfir geta kallað á umfangsmikla göngustíga til að anna umferð fólks sem sækir staðinn heim. Á fáfarnari áfangastöðum og leiðum utan alfaraleiðar er ekki þörf á umfangsmiklum mannvirkjum heldur lágstemmdari og náttúrulegri nálgun við gerð göngustíga – náttúrustíga.

Náttúrustígar byggja á aðferðum við göngustígagerð sem eiga sér langa og þekkta sögu. Hönnun þeirra byggir á land- og vistlæsi, þekkingu á staðnum og staðaranda, nærtækum efniviði til stígagerðar, og handverki. Náttúrustígum er ætlað að falla að landslagi og vinna með landinu og þannig greiða leið og tryggja öryggi, en um leið græða landið. Jafnframt eiga þeir að styðja við og auka upplifun í náttúrunnni. Höfundar handbókar um náttúrustíga eru Gunnar Óli Guðjónssson landslagsarkitekt og Davíð Örn Stefánsson, sérfræðingur hjá Landgræðslunni.

Ferðamannastaðir

Við undirbúning fyrir nýjan eða úrbætur á fyrirliggjandi ferðamannastað, er mikilvægt að vanda til verka og hafa yfirsýn yfir hvað þarf að hafa í huga við mótun verkefnis, hvaða upplýsinga þarf að afla, sjóði sem hægt að að sækja styrki í og kröfur um skipulagsgerð og leyfisveitingar.

Á vefnum godarleidir.is eru leiðbeiningar um skipulag og leyfisveitingar ferðamannastaða auk upplýsinga um áætlaða tímalengd helstu þátta er varða gerð skipulagsáætlana og leyfisveitinga. Leiðbeiningunum er ætlað að gefa yfirlit yfir meginþætti sem huga þarf að við undirbúning áfangastaðar, frá hugmynd að leyfi, ásamt því að vísa á fyrirliggjandi ítarefni og leiðbeiningar. Þær eru fyrst og fremst fyrir þá sem hyggja á framkvæmdir við uppbyggingu ferðamannastaða, landeigenda, framkvæmdaaðila og ráðgjafa þeirra. Þær eiga við um allar framkvæmdir sem tengjast uppbyggingu ferðaþjónustu, t.a.m. framkvæmdir eins og hótel og tengdar framkvæmdir, en einnig minni framkvæmdir eins og gerð áningarstaða við fallegan foss, stígagerð og umgjörð um sögustað eða aðstöðu til fuglaskoðunar. Skipulagsleiðbeiningarnar eru unnar af Skipulagsstofnun.

Um Góðar leiðir

Verkefnið Góðar leiðir sprettur upp úr vinnu samstarfshóps um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum vorið 2020. Samstarfshópurinn er mótaður af umhverfis- og auðlindaráðherra vorið 2018 sem hluti af framkvæmd Landsáætlunar. Í samstarfshópnum voru fulltrúar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti (áður umhverfis-og auðlindaráðuneyti), Náttúruverndarstofnun (áður Umhverfisstofnun), Ferðamálastofu, Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarði, Land og skógur (áður Landgræðslan og Skógræktin) Minjastofnun, Þjóðminjasafni Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fékk það hlutverk innan samstarfshópsins að leiða vinnu handbókar um merkingar og vera ráðgjafi fyrir önnur verkefni hópsins. Vorið 2018 þróaði Miðstöðin verkefnið Góðar leiðir vegna aukinnar aðkomu hennar að verkefnum er sneru að innviðahönnun ferðamannastaða og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Eitt af megineinkennum vinnu Góðra leiða er að efna til víðtæks samtals milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...