Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Innviðirnir okkar
Mynd / gh
Leiðari 21. júlí 2022

Innviðirnir okkar

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Um enga grein jarðyrkjunnar hefur verið jafntíðrætt eins og kornyrkjuna. Ótal margir hafa reynt við verkefnið, sumum lánast vel, öðrum miður.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Stjórnvöld hafa svo lengi sem elstu menn muna, hvatt og styrkt til þessarar viðleitni. Enn á þó eftir að finna fullkomna lausn á því hvernig við eflum kornrækt hér á landi og hvað sé arðvænlegt og hagkvæmt. Nauðsynlegt er að stórefla kynbætur á korni til að aðlaga það að íslenskum aðstæðum. Þá þurfi einnig að skapa bændum sem hefja slík verkefni vænleg starfsskilyrði, t.a.m. með korntryggingum, líkt og Norðmenn hófu að gera upp úr 19. öldinni sem varð til þess að kornrækt óx hröðum skrefum þar í landi.

Landbúnaðarháskóla Íslands hefur nú verið falið að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar. Áætlunin er unnin að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Mikilvægi innlendrar kornræktar hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggi síðustu misseri. Það er mikilsvert að við sem þjóð séum sem mest sjálfbjarga og einn liðurinn í þeirri sjálfsbjargarviðleitni er kornræktin.

Starfshópi ráðherra verður m.a. falið að kanna fýsileika innlends kornsamlags, ásamt því að skilgreina þarfir á lágmarkskornbirgðum í landinu. Einnig er hópnum falið að skilgreina heppileg landsvæði til kornræktar og það er von mín að hópurinn sé reiðubúinn að stíga út fyrir boxið, jafnvel til Bessastaða þar sem sáð var korni um miðja 18. öld sem heppnaðist vel! Vinna hefst við verkefnið í ágúst nk. og áætlað er að stöðuyfirlit verði veitt í desember 2022 og lokaskýrslu skilað í mars 2023.

Það verður athyglisvert að fylgjast með framvindu þessara tillagna þar sem Bændasamtökin hafa kallað eftir skýrri stefnu um framþróun á kornrækt og akuryrkju á Íslandi. Ég tel að þarna séu möguleikar fyrir íslenskan landbúnað til stóreflingar á ræktun afurða sem ella eru fluttar inn. Það er mikilvægt að samtal verði við þá sem stunda þessa framleiðslu, hvort sem er í smáum eða stórum stíl. Það er mikilvægt að hlúa einnig að þeirri framleiðslu sem nú þegar er í landinu svo þau tækifæri sem er verið að nýta í dag verði efld. Þetta verkefni á ekki að vera átaksverkefni heldur uppbygging til framtíðar með skýra framtíðarsýn.

Staðsetningin skiptir máli

Á Þorvaldseyri hefur verið ræktað korn á hverju ári frá 1960. Á svæðinu, var áður fyrr heykökuverksmiðja og var það mikið lán fyrir ábúendur, á þeim tíma, að geta nýtt ýmsan vélbúnað og breyta í kornþurrkara. En það er skortur á innviðum í fullvinnslu og úrvinnslu korns sem háir kornbændum verulega, enda er þurrkun korns orkufrek og krefst innviða í lagningu raforku. Einnig má benda á að til að fullvinnslan geti átt sér stað hérlendis þarf að byggja miðlægar myllur til mölunar á korni sem væri mikið framfaraspor fyrir kornbændur og neytendur hér á landi.

Staðsetning væntanlegs samlags auk þurrkstöðva og korngeymslna er því sérlega mikilvæg og því verður lögð áhersla á að finna sem hentugasta staðsetningu. Þar spilar inn í nálægð við framleiðendur, markaði, nýtingu jarðvarma o.fl. Þá sé mikilvægt að kanna hvort hægt sé að nýta fyrirliggjandi innviði sem best í þessu samhengi, s.s. þurrkstöðvar og minni geymslur sem eru nú þegar í rekstri.

Loftslagsóeirðir

Í 14. tbl. Bændablaðsins var fjallað um mótmæli bænda í Hollandi þar sem þingmenn greiddu atkvæði um lagabreytingu sem ætlað er að draga úr losun köfnunarefnisoxíðs og ammóníaks úr búfé nærri náttúrusvæðum, um allt að 50% á landsvísu fyrir árið 2030. Mikið er í húfi því landbúnaður er lykilgrein hollenska hagkerfisins og það sætir furðu að enginn annar fjölmiðill hér á landi hafi fjallað um mótmælin með svo ítarlegum hætti eins og umfjöllun Bændablaðsins ber merki.

En loftslagsáskoranirnar á landbúnaðinn er ekki bundin við Holland, því danskir bændur hafa hætt við 7% minni framleiðslu á korni til að tryggja nægt framboð af korni í landinu á næsta ári, sem tengja má við stríðið í Úkraínu. En minni framleiðsla átti að vera framlag danskra bænda til að draga úr kolefnislosun í landbúnaði og standast þær kröfur sem Evrópusambandið hefur sett fram. Danir hafa dregið þessa ákvörðun sína til baka þrátt fyrir áður ákveðin markmið tengt loftslagsaðgerðum stjórnvalda þar í landi.

Ef til vill líður ekki á löngu þar til íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir slíkum þrýstingi en náttúruverndarsamtök hafa m.a. fullyrt að nær ógjörningur sé að ná samdrætti í losun frá landbúnaði án fækkunar jórturdýra. Á sama tíma eru stjórnvöld og neytendur að huga að kolefnisspori, eða matarspori matvæla og matvælaframleiðendum er gert að efla og auka framleiðsluna sína til að gera okkur enn sjálfbærari á stríðstímum. Fyrirsjáanleikinn er þar af leiðandi takmarkaður og óvissan gæti orðið algjör.

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...