Oddný Steina Valsdóttir.
Oddný Steina Valsdóttir.
Mynd / HKr.
Skoðun 15. janúar 2021

Kolefnisspor framleiðslu og ábyrg umræða

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir

Hvernig ætlar vísindasamfélagið að nálgast umræðuna um loftslagsmál, þá sérstaklega þann hluta umræðunnar sem snýr að ákveðinni framleiðslu eða neyslu?

Það er vandi hvernig farið er með upplýsingar um losun og bindingu og hvernig þau gögn eru útlögð og notuð til að heimfæra á ákveðna framleiðslu. Er eðlilegt að skrifa allan skurðgröft fortíðar á framleiðslu dagsins í dag?

Þessar vangaveltur vakna í kjölfar skrifa og málflutnings Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, um kolefnislosun landbúnaðar þar sem hann tekur framleiðslu á lambakjöti sérstaklega sem dæmi. Samkvæmt þeim útleggingum gætu eftirfarandi sviðsmyndir átt sér stað:

A. Jón býr á Brekku með 500 kindur á 1000 ha jörð. Á jörðinni er 300 ha framræst land í úthaga, eða 0,6 ha/kind. Með því að reikna alla losun frá framræsta landinu á framleiðsluna reiknast losun á hvert kg því gríðarhátt. Jón og fjölskylda ráðast í að selja undan jörðinni þessa 300 ha sem eru framræstir enda er þetta ekki eftirsótt eða gott beitiland fyrir féð og þeim lítils virði. Þau fá hins vegar mjög gott verð fyrir landið enda jörðin vel í sveit sett gagnvart ferðaþjónustu. Kaupandi jarðarhlutans hyggst byggja sumarhús á landinu til útleigu fyrir ferðamenn. Viðhald framræslunnar er því nauðsynlegt til að byggja megi á landinu. Við þetta snarfellur kolefnislosun á hvert lambakjötskíló á Brekku. Landið verður jafn framræst eftir sem áður og kolefnið líður út í loftið á sama hátt og áður, það bara reiknast ekki lengur á framleiðslu.

B. Guðrún býr á Hóli með 500 kindur á 1000 ha jörð. Jörðin er þurrlend. Í úthaga jarðarinnar er 50 ha skóglendi sem Guðrún plantaði út sjálf, auk þess sem fjölskyldan hefur stundað uppgræðslu með góðum árangri á ógrónum hluta jarðarinnar, um 30 ha. Afurðir eftir hverja kind eru góðar og kolefnislosun við framleiðsluna tiltölulega lítil. Kolefnisbinding í skógi og landgræðslu gerir meira en að dekka þá losun. Þ.e. búskapurinn hefur nettó bindingu í CO2 ígildum.

Við hliðina á Hóli er jörð sem heitir Tjarnarland. Tjarnarland er 100 ha jörð sem hefur verið í eyði sl. 20 ár og enginn búskapur stundaður á jörðinni. U.þ.b. helmingur jarðarinnar er illa framræst mýrlendi en um helmingur frjósamt valllendi. Framræslan á landinu fór fram árið 1963. Guðrún sér mikil tækifæri í að nýta þurrari hluta jarðarinnar til beitar og ákveður því að kaupa jörðina. Við þann gjörning einan og sér margfaldast kolefnisspor á framleiðsluna á Hóli. Þó hafði fjölskyldan á Hóli ekkert frekar ætlað að nota framræsta landið til beitar. Skyndilega er hægt að reikna kolefnislosun á hvert framleitt kg til jafns við svo og svo marga keyrða km eða keyptar gallabuxur. Kolefnið sem áður rauk út í loftið og reiknaðist ekki á neitt.

Einhver gæti núna sagt að ég sé bara að drepa málum á dreif og taka athyglina frá nýtingu bænda á landi. Það er ekki markmiðið og rétt að árétta að það skiptir miklu máli hvernig við nýtum land, til þess þarf að vanda, hvert svo sem tilefni til umgengni um landið er. Þar hafa sauðfjárbændur ekki stungið höfðinu í sandinn. Þvert á móti hafa samtök sauðfjárbænda ásamt Bændasamtökunum lagt ríka áherslu á að kortleggja sauðfjárbeit, fylgjast með þróun gróðurs og jarðvegs og meta áhrif beitarinnar. Allt nauðsynleg viðfangsefni til að vinna áfram að því að styrkja stjórn beitarnýtingar á Íslandi og leggja línur um sjálfbærni. Að þessu er nú unnið í gegnum verkefnið Grólind sem Landgræðslan fer með stjórn á og er að stærstum hluta fjármagnað í gegnum búvörusamning bænda við ríkisvaldið. Við þurfum öll að stuðla að uppbyggilegu samtali um þessa hluti. Byggja umræðuna alltaf á bestu fáanlegu gögnum og sanngjarnri nálgun.

Oddný Steina Valsdóttir

Betur má ef duga skal
Skoðun 26. febrúar 2021

Betur má ef duga skal

Styttist í Búnaðarþing
Skoðun 26. febrúar 2021

Styttist í Búnaðarþing

Þegar þessi pistill er ritaður er nákvæmlega mánuður til stefnu til næsta Búnaða...

Þörf á að ræða endurskoðun rammasamnings
Skoðun 25. febrúar 2021

Þörf á að ræða endurskoðun rammasamnings

Fæðuöryggi. Á dögunum var kynnt skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands um fæðuöryggi...

Allir vegir færir
Skoðun 12. febrúar 2021

Allir vegir færir

Glíman við kórónavírusinn hefur nú staðið í rúmlega eitt ár og kostað gríðarlega...

Búnaðarþing, rammasamningur og matvælamerki
Skoðun 11. febrúar 2021

Búnaðarþing, rammasamningur og matvælamerki

Stjórn Bændasamtakanna hefur boðað til Búnaðarþings dagana 22. og 23. mars næstk...

Er vá fyrir dyrum? – Breytum við þá strandveiðunum?
Skoðun 4. febrúar 2021

Er vá fyrir dyrum? – Breytum við þá strandveiðunum?

Hér fer ekki opið bréf til forsætis­ráðherra en gott væri ef hún gæti, t.d. á sí...

Nýr framkvæmdastjóri, garðyrkjunám og tollkvótar
Skoðun 28. janúar 2021

Nýr framkvæmdastjóri, garðyrkjunám og tollkvótar

Kolefnisspor sauðfjárræktarinnar
Skoðun 20. janúar 2021

Kolefnisspor sauðfjárræktarinnar

Nýlega kom út skýrsla á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands sem ber heitið Loftslag...