Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kaflaskil en engin sögulok
Mynd / smh
Skoðun 20. janúar 2022

Kaflaskil en engin sögulok

Höfundur: Kári Gautason

Góðkunningi heimsins, Steve Jobs, sagði að sú spurning ætti alltaf að vera efst í huga, ef maður sæi fram á sinn síðasta dag, hvort það sem lægi fyrir að gera væri það sem maður vildi helst. Í mínu tilelli er svarið snúið. Mig langar hreint ekki til þess að vera að skrifa síðasta Landsýnarpistilinn í Bændablaðið og mig langar alls ekki að hætta sérfræðistörfum fyrir Bændasamtökin.

Góður skóli fram undan

Heildarsamtök bænda og landbúnaðurinn ganga í gegnum spennandi tíma og mér fannst ég vera á réttum stað með góðu samstarfsfólki að vinna að brýnum málefnum minnar stéttar. En pólitíkin er harður húsbóndi og hafi maður á annað borð boðið sig fram til þess að róa á þeirri galeiðu er erfitt að segja nei þegar háseti er kallaður undir árar. Hitt veit ég að störf í ráðuneyti eru besti skóli sem hægt er að fara í upp á heildarsýn yfir tilheyrandi atvinnugreinar, sem í þessu tilfelli eru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Fyrir strák úr sveit við sjávarsíðuna er það ekki svo lítils virði. Og ekki víst að annað færi gefist á slíkum skóla.

Ég hef fengið góðar óskir frá samstarfsfélögum og vinum í landbúnaðinum sem þykjast vita að ég verði þeim og greininni haukur í horni. Sem betur fer fyrir mig  er stjórnarsáttmálinn nokkuð afdráttarlaus hvað varðar stefnumótun og aðgerðir sem snúast um nýsköpun og framþróun landbúnaðarins. Til þess að slá á væntingar er svo skylt að geta þess að aðstoðarmaður ráðherra er fyrst og fremst framlengdur armur hans og tengiliður milli hans, embættismanna og annarra sem við ráðherrann eiga erindi. Aðstoðarmaðurinn hefur ekkert sjálfstætt boðvald innan ráðuneytis.   

Sterkari byggðir og meiri þjónusta

Eins og þjóðin fylgist undirritaður límdur með Verbúðinni á RÚV og ég velti fyrir mér hvaða ferlegu vinnuslys hendi Sveppa og Góa í næsta þætti. Þannig er það ekki síður spennandi að kynnast sjávarútveginum betur. Þar á að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og leggja fram tillögur um hvernig megi meðal annars auka samfélagslega sátt um umgjörðina í kringum fiskeríið. Þá eru næstu ár mikilvæg hvað varðar uppbyggingu í fiskeldi og þar á að móta heildstæða stefnu um uppbygginguna, umgjörðina og gjaldtökuna. Það verður margt að læra næstu misserin. En sjálfur hef ég þá trú að sjávarútvegs- og landbúnaðargreinarnar séu ekki nægjanlegar einar og sér til þess að tryggja byggða- og íbúaþróun á landsbyggðinni. Breikka þurfi grunninn með nýsköpun og fleiri stoðum undir fjölbreyttu mannlífi.

Þær eru nauðsynleg kjölfesta en ekki nægjanlegar til að snúa við blaðinu. Þróun beggja þessara greina er til meiri afkasta og framleiðni svo að fyrirsjáanlegt er að störfum haldi áfram að fækka í þeim greinum. Svo aftur sé vikið að Verbúðinni þá er það í sjálfu sér ágætt að mannshöndin fjarlægist afputtunarvélunum eins og þær voru kallaðar af góðum manni á Vopnafirði. Þessar greinar þurfa að taka þátt í samtali og stefnumótun um hvernig það verður gert eftirsóknarvert að búa og starfa í sjávarbyggðum eða í sveitum.

Bændur eru sterkari saman

Það verður að segjast eins og er að það fylgir því ákveðinn tregi að hætta að vinna í Bændahöllinni, vitandi það að húsið sé selt og Bændasamtökin muni á einhverjum tímapunkti flytja sig um set á nýja starfsstöð. Það myndi vanta í mig alla sögulega vitund ef svo væri ekki. En þar með eru síður en svo sögulok, félagasamtök bænda eiga sögu aftur til ársins 1837 og verða því 185 ára 28. janúar næstkomandi. Þetta ár er fyrsta heila starfsár sameinaðra Bændasamtaka. Hvernig sú saga fer hefur ekkert að gera með gamla steypu heldur allt að gera með það hversu vel það tekst til að sameina krafta bænda í nýjum samtökum. Til þess þurfa sem flestir að skrá sig til leiks og taka þátt í þeirri nýju sögu. Félagasamtök bænda hafa ekki lifað í tæp tvö hundruð ár á loftinu einu saman, heldur hafa þau lifað af á félagsvitundinni og samstöðunni.

Ég óska öllum mínum fyrrum samstarfsfélögum alls hins besta í starfinu og bændum sömuleiðis.

Kári Gautason

Skylt efni: Hótel Saga | Bændahöllin

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...