Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Allt of stór hluti beingreiðslna fer í að fæða fjármálakerfið
Skoðun 4. janúar 2018

Allt of stór hluti beingreiðslna fer í að fæða fjármálakerfið

Höfundur: Sæmundur Jón Jónsson
Undanfarin misseri hafa íslenskir bændur ekki farið varhluta af hækkandi rómi þeirra sem krefjast niðurfellingar tolla á öllum innfluttum landbúnaðarafurðum og þess að innflutningur verði að stærstu, ef ekki öllu, leyti frjáls og án skilyrða og takmarkana. 
 
Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif nýfallinn dómur um að hingað megi flytja hrátt kjöt hefur á hvort tveggja neytendur og framleiðendur á Íslandi.
 
Engan veginn samanburðarhæf við okkar framleiðsluaðstæður
 
Innflutningstollar á mjólkurafurðir hafa gegnt afar mikilvægu hlutverki og verndað okkur fyrir því að hingað flæði mjólkurvörur frá löndum sem eru engan veginn samanburðarhæf við okkar framleiðsluaðstæður. Það er sama hvort bornar eru saman reglur um dýravelferð, lyfjanotkun eða laun og almenn réttindi starfsfólks í landbúnaði. Fyrir utan svo augljósar staðreyndir eins og ólík ræktunarskilyrði og nauðsyn þess að halda búpeningi á húsi hér meirihluta ársins.
 
Tryggja ber framboð á heilnæmum og fjölbreyttum mjólkurvörum
 
Þessi vernd sem greinin býr við er ekki að ástæðulausu en henni fylgja líka skyldur. Ein af skyldunum er að uppfylla þarfir markaðarins um framboð á heilnæmum og fjölbreyttum mjólkurvörum. Til þessa fá mjólkurframleiðendur einnig greiddar beingreiðslur sem ýmist fara eftir greiðslumarkseign, framleiðslu eða fjölda lifandi gripa. Þannig má vel færa rök fyrir því að þeir greiðslumarkshafar sem ekki framleiða að minnsta kosti upp í sitt greiðslumark, séu að bregðast skyldum sínum, skyldum sem eru einmitt forsendur þess að vernda þeirra starfsumhverfi. Auðvitað eru dæmi þess að  ófyrirséð áföll verði til þess að bændur ná ekki markmiðum sínum í framleiðslu en þess eru einnig dæmi að menn vanræki þessa skyldu sína ítrekað og varpi með því ábyrgðinni á þá framleiðendur sem hingað til hafa framleitt umfram sitt greiðslumark fyrir ótryggt verð. Það er ljóst að til langframa er ekki hægt að bjóða þessum bændum upp á óvissuna sem fylgir því að vita ekki nema nokkra mánuði fram í tímann hvaða verði mjólkin er keypt, að ekki sé minnst á þegar gengið er á bak áður gefinna loforða.
 
Jafnvægi á milli framleiðslu og sölu mjólkurafurða
 
Í mörg ár hafa mjólkurframleiðendur og vinnsluaðilar  markvisst unnið að því að finna jafnvægi á milli framleiðslu og sölu mjólkurafurða, enda mikilvægi þess afar mikið fyrir íslenska kúabændur.
Verkfæri til stýringarinnar hafa verið greiðslumark og innvigtunargjald.
 
Greiðslumarkskerfið var sett á fyrir rúmlega 30 árum þegar offramleiðsla ógnaði afkomu bænda og afurðarstöðva og það er óumdeilanlegt að það kerfi gerði sitt gagn þegar brýnt var að draga úr framleiðslu. Undanfarinn áratug hefur hins vegar ítrekað stefnt í óefni þegar framleiðsla hefur ekki svarað eftirspurn.
Öllum má vera ljós sú staðreynd, að verði einu sinni opnað fyrir tollfrjálsan innflutning á mjólkurvörum, þó ekki sé nema til skamms tíma,  mun aldrei takast að stoppa í það gat aftur. Slíkt hefði í för með sér gríðarleg keðjuverkandi áhrif; afurðaverð, sem er að meðaltali tvöfalt það afurðaverð sem greitt er í Evrópu, gæti ekki staðið óbreytt, markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu minnkaði, framleiðendum fækkaði og sú framleiðsla sem eftir stæði yrði óhagkvæmari.
 
Greiðslumarkskerfið ónothæft þegar auka þarf framleiðsluna
 
Flestir hafa áttað sig á því hvaða kostnað greiðslumarkskerfið hefur í för með sér fyrir hvern og einn bónda og greinina í heild. Að auki hefur komið í ljós að það er algjörlega ónothæft stjórntæki til þess að hvetja til aukinnar framleiðslu þegar hennar er þörf. Það voru því skýr rök og augljósar ástæður fyrir því að útvötnun greiðslumarkskerfisins var skrifuð inn í núverandi búvörusamning.
 
Að hanga eins og hundar á roði
 
Landssamband kúa­bænda lét gera skoðanakönnun meðal bænda um afstöðu til greiðslumarks­kerfisins. Niður­staðan könnunarinnar var að 77% þátttakenda styddu óbreytt kerfi. Sú niðurstaða var eðlileg og  skiljanleg í því ljósi að enginn annar kostur var var kynntur sem möguleg önnur leið. Væri ekki nær að stjórn og starfsfólk sem situr fyrir okkur í forsvari byrji að leita leiða sem bæði bændur og almenningur í landinu geta sætt sig við til framtíðar en að hanga eins og hundar á roði á kerfi sem þjónar fáum útvöldum?
 
Að ofangreindu samanlögðu er eðlilegt að menn spyrji hvað sé hægt að gera til þess að ábyrgjast að  ávallt sé nægt hráefni til vinnslu á innlendan markað og á sama tíma að tryggja bændum lágmarks tekjuöryggi.
 
Ekki hægt að framleiða nákvæmlega í takt við eftirspurn
 
Núllstilling framleiðslunnar er ekki möguleg. Til þess er varan sem við framleiðum einfaldlega of vandmeðfarin. Geymsluþol hennar er stutt, árstíðarbundnar sveiflur bæði í framleiðslu og sölu auk líffræðilegra þátta, veðurfar og önnur utanaðkomandi áhrif sem við höfum engin völd yfir eru það mikil. Það verður því aldrei hjá því komist að framleiða meira en sem nemur innlendri neyslu. Eftir stendur spurningin um hversu mikla áherslu skuli leggja á útflutning og hvaða áhrif sú áhersla megi hafa á framleiðslu umfram innanlandsmarkað í hvert sinn.
 
10% umframframleiðsla talin nauðsynleg
 
Á fulltrúaráðsfundi Auðhumlu í nóvember 2016, þar sem þessi mál voru unnin í vinnuhópum, komust fulltrúar að þeirri niðurstöðu að allt að 10% umframframleiðsla væri nauðsynleg til þess að tryggja öruggt framboð hér á landi á ársgrundvelli.
 
Til samanburðar má benda á að í annarri grein landbúnaðar, sauðfjárræktinni, fer um þriðjungur framleiðslunnar á erlenda markaði. Sauðfjárbændum sem horfa til framtíðar finnst samt of mikið að draga úr framleiðslu um fimmtung, jafnvel þó að sú grein framleiði vöru með mun lengri geymslutíma og búi ekki við tollvernd sem er jafn mikilvæg og er hjá okkur í mjólkurframleiðslu.
 
Að greiðslumarki framleiðenda verði deilt niður á 12 tímabil
 
Ein hugmynd sem vinna mætti með er að deila greiðslumarki framleiðenda niður á 12 tímabil. Þannig myndu allir stefna að því að framleiða 8,33% greiðslumarks í hverjum mánuði og afurðarstöðvar myndu greiða bændum fullt afurðarstöðvarverð fyrir þá framleiðslu. Það sem umfram væri fengist greitt í samræmi við það verð sem fæst fyrir útflutning á mjólkurvörum.
 
Með þessu væri tekjuflæði mjólkurframleiðenda jafnara yfir árið og þeir myndu síður lenda í því að einn eða fleiri mánuðir í lok árs skiluðu mjög litlum tekjum, eins og raunin er núna. Þetta myndi líka hjálpa samvinnufélagi bænda sem á hverju ári glímir við neikvætt tekjuflæði fyrri hluta árs þegar framleiðslan er mest en sem svo jafnast út þegar salan eykst seinni hluta árs. Til viðbótar hefði þetta þau áhrif að mjólkurframleiðsla yrði jafnari yfir árið og allir flutningar og birgðahald yrði hagkvæmara sem skilar sér bæði til afurðarstöðva og til bænda. Í lok árs eða þegar uppgjör á framleiðsluári fer fram, kæmi í ljós hvort nýta hafi þurft einhverja mjólk umfram greiðslumark á innanlandsmarkað og hvaða verð hefur fengist fyrir útfluttar afurðir. Þá uppbót myndu þeir sem framleiða það sem gjarnan er kallað öryggismjólk fá greidda, enda hafa þeir einir staðið vörð um framleiðslukerfið.
 
Að afurðastöðvar semji við hvern bónda
 
Önnur leið væri að afurðastöð sem taka þarf við allri mjólk frá bændum, semji við bændur um magn og það verð sem hún treystir sér til að greiða fyrir umframframleiðslu hvers árs. Þannig gætu afurðarstöðvar samið um að hver bóndi framleiddi á bilinu 5-10% umfram sitt greiðslumark og fengi greitt fyrir hluta sinnar framleiðslu í hverjum mánuði eins og um mjólk til útflutnings væri að ræða. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að töluverður hluti mjólkurframleiðenda er reiðubúinn að framleiða hluta sinnar mjólkur gegn lægri greiðslu en lögbundið lágmarksverð segir til um.
 
Það gefur til kynna að annað hvort hafa þeir náð betri árangri í kostnaðarstýringu á sínum búum, eða að tekjumissirinn sem fylgir minni framleiðslu kemur ver út en að framleiða mjólk án þess að raunveruleg framlegð sitji eftir heima á búunum. 
 
Það að þessi hluti framleiðenda skuli þurfa að sætta sig við ótryggt verð og ákvarðanir um tekjuafgang þeirra með skömmum fyrirvara og í hverjum mánuði, hlýtur að ýta undir vilja þeirra til að gera samning við afurðarstöð sem tryggir þeim ákveðið lágmarksverð af fyrirfram ákveðnu magni.
 
Að auka verulega við greiðslumark ársins
 
Þriðja leiðin, sem að vísu var reynd fyrir nokkrum árum, er að auka verulega við greiðslumark ársins og að innan þess væri gert ráð fyrir að hluti framleiðslunnar yrði að fara til útflutnings. Greiðslumarkseign allra myndi þannig aukast og forsendur sköpuðust fyrir þá sem ekki hafa möguleika á að uppfylla framleiðsluskyldu sína til að selja greiðslumark þeim sem geta og vilja framleiða meira. Þessi aðferð er þó líkleg til þess að skapa óánægju og óeiningu meðal bænda þar sem virði beingreiðslna á hvern lítra mun lækka og valda tekjumissi þeirra sem innleysa greiðslumark sitt.
 
Það er deginum ljósara að kaup og sala á greiðslumarki er fyrst og fremst til þess fallin að breyta fjármunum greinarinnar í vexti og afborganir af lánum. Fram að þessu hefur allt of stór hluti beingreiðslnanna sem eiga að nýtast til þess að lækka hér verð á matvælum, farið í það að fæða fjármálakerfið.
 
Sæmundur Jón Jónsson
Höfundur er kúabóndi á Árbæ í Hornafirði og stjórnarmaður í Auðhumlu samvinnufélagi í eigu mjólkurframleiðenda.
Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...