Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa frá því í vor óskað eftir því við stjórnvöld að farið yrði í úttekt á afurðageiranum, þar sem metnir verði möguleikar til hagræðingar.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa frá því í vor óskað eftir því við stjórnvöld að farið yrði í úttekt á afurðageiranum, þar sem metnir verði möguleikar til hagræðingar.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 8. nóvember 2017

Staða sauðfjárræktar í nútíð og framtíð

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
Það er dásamlegt að vera sauðfjárbóndi og geta stundað sína daglegu vinnu í nánum tengslum við náttúruna. Lifa í návígi við landið, á því og með því. Þurfa að semja við duttlunga veðurguðanna nánast á hverjum degi. Huga að búpeningi. Framleiða góða vöru þess fullviss að skepnunum er boðið gott atlæti alla ævi. Partur af daglegum störfum er útivera og hreyfing, starfið er gefandi en krefst einnig þekkingar og útsjónarsemi. 
 
Oddný Steina Valsdóttir.
Það hefur varla farið fram hjá neinum að sauðfjárræktin er stödd í kreppu um þessar mundir. Þrátt fyrir allt framan sagt þá tekur á að vera sauðfjárbóndi í dag, upplifa á eigin skinni launaleysi og kröpp kjör en í ofanálag neikvæða umræðu. Umræðu þar sem meðal annars er látið að því liggja að greinin sé ígildi hálfgerðs þurfalings sem hlaupi ávallt vælandi til hins opinbera, jafnvel oft og reglulega, út af öllu og engu. Þessu er erfitt að sitja undir, ekki síst þegar hlutirnir eru skoðaðir í samhengi.
 
 
 
Markaðsdýfur og sveiflujöfnun
 
Lambakjötsframleiðsla á Íslandi er frjáls. Engir kvótar eru við lýði og verðlagning er frjáls á öllum stigum. Greinin býr við lága tollvernd, enga fjötra og engar hömlur. Á Íslandi eru framleidd um 10.000 tonn af lambakjöti. Frábærri vöru sem er framleidd á vandaðan og heilnæman hátt, gleymum því ekki.
 
Um 6.500 tonn hafa verið seld á innanlandsmarkaði. Þar hefur sala gengið vel, aukning varð á sölu í fyrra sem hefur haldið áfram það sem af er þessu ári, þrátt fyrir að hver Íslendingur neyti að meðaltali margfalt meira magns en fólk í löndunum í kringum okkur. Oft hefur verið bent á skort á vöruþróun og bættri framsetningu lambakjöts. Þeir þættir horfa til bóta, þeirri þróun þarf að fylgja eftir og gera enn betur. 
 
Um 3.500 tonn hafa farið á erlenda markaði, eða framleiðsla frá meira en þriðja hverju sauðfjárbúi. Það er ljóst að vegna útflutnings vörunnar hefur verið skapaður fjöldi starfa í dreifbýli. Rétt er að árétta að útflutningur leiðir ekki til aukins opinbers stuðnings. Það má því segja að greinin hafi einfaldlega nýtt þau tækifæri til verðmætasköpunar sem til staðar voru. Sala á u.þ.b. 1.500 tonnum af þessum 3.500 gengur ágætlega. Forsendur fyrir sölu á um 2.000 tonnum eru hins vegar brostnar svo hægt sé að standa undir framleiðslu vörunnar. 
 
Tvö þúsund tonn af kjöti er algjör örstærð á alþjóðlegum mörkuðum. Engu að síður setja þessi 2.000 tonn veruleika okkar sauðfjárbænda á hliðina. Því þessi framleiðsla, sem ekki á samastað lengur á viðunandi mörkuðum, veldur því að allir aðrir markaðir komast í uppnám. Til verður kaupendamarkaður fyrir allt lambakjöt, líka þau 8.000 tonn sem fóru á markaði sem voru í jafnvægi og hafa gengið vel. Niðurstaðan er sú að botninn dettur úr markaðinum og öllu tapi er ýtt yfir á frumframleiðandann. Í löndunum í kringum okkur væri slíkt ekki látið gerast. Bændur væru ekki settir í þá stöðu að bera einir ábyrgð á slíkri niðursveiflu á markaði. 
 
Í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum tíðkast til dæmis að kaupa upp vörur af markaði við þessar aðstæður. Miðað er við ákveðið lágmarksverð og ef verð á mörkuðum fer niður fyrir það er brugðist við með uppkaupum, eða öðrum mótvægisaðgerðum. Noregur og fleiri ríki hafa annars konar verkfæri til að bregðast við. Ástæðan er einföld. Framleiðsluferlar eru langir og fjárbinding í landbúnaði er mjög mikil. Það er ekki skrúfað fyrir framleiðslu vörunnar á nokkrum vikum til að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði. Í öllum þessum löndum er skilningur á því að samanlagt tap samfélagsins af fjöldagjaldþrotum bænda í niðursveiflu og kostnaður við uppbyggingu þegar betur árar er miklu meiri en sem nemur sveiflujöfnun til skemmri tíma. Með þetta í huga fóru bændur fram á að brugðist væri við af hinu opinbera með því að setja lagaskyldu á afurðastöðvarnar um að þær flyttu út ákveðið hlutfall af sinni framleiðslu. Þetta var það tæki til sveiflujöfnunar sem hefði verið hægt að brúka hérlendis. Með því hefði mátt koma í veg fyrir mikið tjón og stjórnlaust hrun. 
 
Markaðsbresturinn kemur til af ytri aðstæðum, sem bændur höfðu enga möguleika að hafa áhrif á en eru m.a. til komnir af ástæðum sem tengjast stjórnvaldsákvörðunum. Í því ljósi er sérstaklega nöturlegt að hið opinbera hafi ekki stigið þarna tímabundið inn í og axlað ábyrgð, það hefði ekki þurft að kosta skattgreiðendur eina krónu. Það hefði heldur ekki þurft að koma illa við neytendur þó að því hafi samt ítrekað og ranglega verið haldið fram.
 
Það er eðlilegt að til staðar séu verkfæri til sveiflujöfnunar sem beitt er eftir fyrirfram gefnum forsendum þegar svona aðstæður koma upp. Verkfæri til sveiflujöfnunar er mikilvægur partur af því að búa greininni lífvænlegar aðstæður ef sauðfjárrækt á áfram að búa við frjálst og óheft umhverfi. Verkfæri til sveiflujöfnunar kæmi í veg fyrir að kalla þurfi eftir sértækum aðgerðum, með tilheyrandi óvissu um aðgerðir, þegar niðursveifla verður á markaði. Við verðum að draga lærdóm af því ferli sem hér hefur orðið og þetta er eitt þeirra atriða sem við getum fært til betri vegar. Það eigum við að gera við fyrsta tækifæri. 
 
Hagræðing í slátrun, vinnslu og markaðssetningu
 
Samkvæmt skýrslu OECD þá er verð á lambakjöti hérlendis 13% undir heimsmarkaði árið 2016. Það hefði því mátt ætla að það væri vandræðalaust fyrir íslenska framleiðendur að keppa á heimsmarkaði með íslenskt lamb. Varan er góð, sagan áhugaverð og verðið lágt. Það er því augljóslega eitthvað bogið við þessa mynd sem við okkur blasir núna, eitthvað sem ekki er að virka rétt.
 
Það hefur lengi verið til umræðu að samræmt markaðsstarf á erlenda markaði væri til þess fallið að skila árangri. Icelandic lamb er verkefni sem sinnir þessu hlutverki að ákveðnu marki og þar eru spennandi verkefni í gangi. Við höfum væntingar um að þau skili frekari árangri til lengri tíma, frá því markmiði hvikum við hvergi. Þá greindi formaður sláturleyfishafa frá hugmyndum afurðastöðvanna um að koma á miðlægu utanumhaldi um útflutning, að því marki sem samkeppnislög leyfa. Það er jákvætt skref og líklegt til að auka skilvirkni við markaðssetningu og sölu á erlenda markaði. Um slíkt verklag ættu hlutaðeigandi, bæði bændur og afurðastöðvar, að sameinast og styðja við.
 
Þá er vel þekkt umræða að miklir hagræðingarmöguleikar liggi hjá afurðageiranum. Samnings­staða okkar bænda gagnvart afurðastöðvum er engin. Yfir 2.000 frumframleiðendur hafa enga sérstaka stöðu til að semja um verð fyrir sína framleiðslu til sjö afurðastöðva sem svo selja sína vöru til þriggja smásöluaðila, sem starfa á fákeppnismarkaði. Segjum þetta bara eins og það er. 
 
Að mörgu leyti er uppbygging á verðmyndunarferlinu hérlendis frábrugðin því sem gerist í löndunum í kringum okkur. Það er klárlega hagur okkar bænda og líka neytenda að ferlið frá bónda til neytenda sé sem hagkvæmast og skilvirkast. 
 
Við þurfum á því að halda að afurðastöðin fái framlegð út úr sinni vörusölu og geti greitt bændum viðunandi verð sem skilur eftir framlegð hjá frumframleiðanda. Það myndu teljast sanngjarnir viðskiptahættir. 
 
Við þurfum á því að halda að afurðastöðvarnar geti haldið í við tækniþróun svo starfsemin verði skilvirkari. Geti brugðist við breyttum aðstæðum á markaði og nýtt tækifæri, t.d. við fullvinnslu afurða. 
 
Því hefur m.a. verið spáð að matvöruverslun muni þróast að einhverju marki yfir í netverslun, e.t.v. eigum við eftir að horfa upp á gjörbreytta mynd að því leyti. Kannski er það þróun sem afurðastöðvar geta haft frumkvæði að. Það er líka mikilvægt að sá sem kaupir vöruna af okkur bændum hafi metnað og bolmagn til að stunda vöruþróun. Sé stöðugt að leita leiða til að afhenda vöruna á því formi sem kaupandinn og neytendur vilja fá hana. 
 
Sú þróun sem hefur orðið í átt til vinnslu afurða heima á búum er sannarlega jákvæð. Sjálfsprottin og fjölbreytt framleiðsla úr hinum ýmsu afurðum sauðkindarinnar, drifin áfram af hugmyndaauðgi og dugnaði, er frábært innlegg í afurðaflóruna. Sú starfsemi mun þó ekki leysa af hólmi hlutverk afurðastöðva í slátrun vinnslu, sölu og markaðssetningu. Þess vegna þarf að styrkja þann hluta ferilsins frá bónda til neytenda.
 
Við eigum stöðugt að spyrja okkur að því hvað betur má fara í okkar umhverfi og enn ríkari er krafan þar um í viðlíka þrengingum og greinin gengur nú í gegnum. Landssamtök sauðfjárbænda hafa frá því í vor óskað eftir því við stjórnvöld að farið yrði í úttekt á afurðageiranum, þar sem metnir verði möguleikar til hagræðingar. Við teljum eðlilegt að hið opinbera komi að þessari úttekt þar sem niðurstaðan geti nýst við endurskoðun samninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar ef ástæða þykir til. 
 
Alla hagræðingarmöguleika verður að nýta og að því ætti að vinna. Ef þarna er svigrúm til hagræðis er þetta eitt þeirra atriða sem hægt væri að færa til betri vegar og að því ætti að vinna. 
 
Atvinnutækifæri til sveita
 
Í þeim tillögum sem bændur lögðu fram við stjórnvöld í sumar var meðal annarra aðgerða lagt til að settir yrðu fram hæfilegir hvatar til fækkunar fjár. Ekki náðist saman um aðgerðarplan eins og þekkt er orðið. Meðal annars lagði ráðherra meiri áherslu á hvata til búskaparloka en samdráttar í framleiðslu með fækkun. Nokkuð sem samtökin bentu á að kæmi ver niður samfélagslega. 
 
Strax að lokinni sláturtíð þarf að meta stöðuna á ný, þegar sláturtölur liggja fyrir og hægt að bera þá niðurstöðu við fjölda vetrarfóðraðra kinda sl. vetur og frjósemi þeirra skv. skýrsluhaldi. Taka þarf inn í það mat, stöðu á birgðum eftir sláturtíð og horfur á mörkuðum. Ekki er útilokað að rétt verði að leggja til skynsama hvata til fækkunar fjár. Þá stöðu þarf að meta jafn fljótt og auðið er og leggja upp leiðir sem fyrst á nýju ári, ef það verður metið skynsamlegt. 
 
Það er mjög mikilvægt að leitað verði leiða til að efla atvinnu út í dreifbýli og enn ríkari ef við sjáum fram á samdrátt í framleiðslu. Ein leið er að styðja við nýsköpun t.d. tengda ferðaþjónustu. Skapa mætti hvata til að færa verðmætamyndun við úrvinnslu afurða í auknum mæli út í dreifbýli, s.s. með aukinni heimavinnslu á kjöti, mjólk og ull. Þá hafa samtökin lagt mikla áherslu á að farið verði í verkefni á sviði kolefnisbindingar. 
 
Sauðfjárbændur hafa markað sér stefnu um að vinna að kolefnisjöfnun greinarinnar. Talsverð vinna hefur verið lögð í að kortleggja kolefnisfótsporið og mögulegar mótvægisaðgerðir. Kannanir meðal bænda sýna að þeir hafa áhuga á auknum landbótaverkefnum. Bændur eiga verkfærin, kunna til verka við ræktun og uppgræðslu og hafa þekkingu á landinu. Það er einstakt lag núna á að fara í stóraukin landbótaverkefni.
 
Til þess þarf fjármuni að sjálfsögðu. Þeir fjármunir væru vel nýttir, lagðir inn á bók komandi kynslóða og eiga að geta ávaxtað sig þar ef rétt er á málum haldið. Við höfum mikil tækifæri til að nýta þekkingu og reynslu sauðfjárbænda við að leysa þetta stóra samfélagslega verkefni.  En það er einmitt núna – ekki einhvern tíma seinna.
 
Oddný Steina Valsdóttir
Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...