Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Mikil sóknarfæri eru fyrir íslenska bændur í því að vera í forystu á heimsvísu með það að minnka umhverfisáhrif plasts í landbúnaði.
Mikil sóknarfæri eru fyrir íslenska bændur í því að vera í forystu á heimsvísu með það að minnka umhverfisáhrif plasts í landbúnaði.
Mynd / Halla Eygló Sverrisdóttir
Á faglegum nótum 19. janúar 2021

Plast í landbúnaði

Höfundur: Berglind Ósk Alfreðsdóttir ráðunautur RML í loftslags- og umhverfismálum

Áhrif plastnotkunar á landbúnað og landbúnaðarland hafa lítið verið skoðuð en mikið hefur verið fjallað um áhrif hennar á lífríki sjávar.

Áætlað er að árlega séu notuð um 6,5 milljónir tonna af plasti í landbúnaði heimsins. Á næstu tuttugu árum er áætlað að þessi plastnotkun tvöfaldist.

Árlega eru flutt til landsins um 1500-1800 tonn af heyrúlluplasti, og eru þá ótaldar aðrar umbúðir sem falla til í landbúnaði, þ.m.t. umbúðir utan af áburði, fóðri og varnarefnum og stæðuplast. Það er ótvírætt að plast hefur stuðlað að miklum framförum í búnaðarháttum, m.a. aukið gæði og heimtur afurða. Þrátt fyrir þessi jákvæðu áhrif stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að framleiðsla, notkun og förgun plasts er ekki sjálfbær.

Plast er framleitt úr dýrmætum náttúruauðlindum

Plast er fjölhæft efnasamband en framleiðsla þess byggir á notkun dýrmætra og óendurnýjanlegra náttúruauðlinda. Fyrir hvert tonn af plasti sem er framleitt eru notuð um 1,8 tonn af olíu og 185 lítrar af vatni eru notaðir við að framleiða hvert kíló. Árið 2050 er áætlað að plastframleiðsla taki um 15% af árlegum kolefniskvóta heimsins, verði framleiðsla og notkun með óbreyttum hætti samfara auknum mannfjölda. Plast er mjög stöðugt efnasamband og það tekur upp að 500 árum að brotna niður. Því hefur það skaðleg áhrif á líffjölbreytileika þar sem notkun þess hefur í för með sér mikinn úrgang og leka örplasts út í umhverfið.

Plast berst inn í fæðukeðjuna

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að mikið magn örplasts finnst í landbúnaðarlandi og að örplastmengun geti orðið meiri í ræktunarlandi en í höfum. Sýnt hefur verið fram á að örplast dragi úr þéttleika jarðvegs, vatnsheldni, holurýmd, vatnsleiðni og geti breytt samsetningu jarðvegsörvera. Áhrifa getur einnig gætt í vexti plantna þar sem örplast getur farið í gegnum rótarkerfið og inn í frumur og vefi plantna. Nýlega birtist frétt í Noregi um að landbúnaðarplast, t.d. heyrúlluplast, plastbönd og reipi, hefði fundist í maga helmings nautgripa sem fóru í slátrun. Áætlað er að neysla hvers einstaklings á örplasti sé frá 39.000 til 52.000 agnir á ári. Miklar líkur eru á því að það megi finna í kjötvörum líkt og rannsóknir á fiskafurðum hafa sýnt, enda er kjötafurðum oftast pakkað í umbúðaplast.

Plast í hringrásarhagkerfinu

Plast er þeim eiginleikum gætt að vera endurvinnanlegt og því mikilvægt að finna því farsæla vegferð innan hringrásarhagkerfisins. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hráefni séu notuð eins lengi og hægt er og að notkun auðlinda og úrgangs sé takmörkuð. Ellen MacArthur Foundation hefur sett fram framtíðarsýn plasts í hringrásarhagkerfinu í sex skrefum:

  • Minnka plastnotkun og taka fyrir óþarfa notkun þess með nýsköpun og endurhönnun ferla þar sem það er notað.
  • Leggja áherslu á margnota umbúðir til þess að draga úr þörf fyrir einnota. 3) Allar plastumbúðir verði 100% endurnýtanlegar, endurvinnanlegar eða niðurbrjótanlegar.
  • Að allar plastumbúðir verði í raun endurnýttar, endurunnar eða niðurbrotnar.
  • Plastnotkun gangi ekki á endanlegar auðlindir.
  • Allar plastumbúðir séu án hættulegra efna og ógni ekki heilsu, öryggi eða réttindum fólks.
Endurvinnsla á plasti

Verði ekki hjá því komist að nota plast er endurvinnsla besti kosturinn fyrir umhverfið, frekar en orkuvinnsla eða urðun. Með endurvinnslu er hægt að nota plastefnin aftur í stað þess að framleiða nýtt með tilheyrandi notkun á óafturkræfum hráefnum. Heyrúlluplast, ásamt fleira plasti sem er notað í landbúnaði, getur verið mjög auðvelt að endurvinna þar sem það er einsleitt í samsetningu og framleitt í miklu magni.

Með lögum um úrvinnslusjóð er markmiðið að til staðar séu hagrænir hvatar sem draga úr magni úrgangs, þ.m.t. heyrúlluplasti, sem fer til endanlegrar förgunar og skapa sem hagkvæmust skilyrði til úrvinnslu hans. Líkt og kom fram hér að ofan eru flutt inn um 1500-1800 tonn af heyrúlluplasti á ári. Einungis um fjórðungurinn af því er endurunninn á Íslandi og er því meirihlutinn sendur til annarra þjóða í brennslu, endurvinnslu eða förgun.

Núverandi úrvinnslusjóðskerfi virðist því miður ekki geta tryggt það að allt heyrúlluplast fari inn í hringrásarhagkerfið. Árið 2019 voru urðuð á Íslandi 166 tonn af notuðu heyrúlluplasti. Einnig er ekki til staðar eftirlit með því að það plast sem sent er úr landi sé raunverulega endurnotað eða endurnýtt líkt og kveðið er á um í markmiðum sjóðsins.

Litir á plasti

Margir hafa velt fyrir sér hvort liturinn á heyrúlluplastinu hafi áhrif en víða sjást t.d. svartar, bleikar og grænar heyrúllur ásamt þeim hvítu. Í mildu veðri og við hæfilega sólargeislun hefur liturinn lítil áhrif á gæði heysins eða á mygluvöxt. Hins vegar getur liturinn haft áhrif á ásókn fugla í rúllurnar.

Hægt er að endurvinna allt heyrúlluplast óháð litum en möguleikarnir á framhaldslífi eru minni fyrir endurunnar litaðar plastperlur. Ástæðan er sú að minni eftirspurn er eftir lituðum plastperlum á mörkuðum en hvítum. Ekki er hægt að fjarlægja litinn úr plastinu og því eru meiri möguleikar til vinnslu á hvítu plasti til framhaldsnotkunar. Þegar valinn er litur á filmu er vert að hafa í huga hvort er raunveruleg þörf fyrir litinn þar sem litaðar plastfilmur hafa minni möguleika inni í hringrásarhagkerfinu.

Umhverfissparnaður í því að endurvinna plast á Íslandi

Samkvæmt lífferilsgreiningu ReSource International fyrir Pure North Recycling felst mikill umhverfissparnaður í því að endurvinna heyrúlluplast á Íslandi samanborið við að senda það á erlenda markaði, hvort heldur þeir eru í Evrópu eða Asíu. Helstu tölurnar sem þar ber að nefna er 80% minni kolefnislosun, 45% minni vatnsnotkun og 30% minni orkunotkun. Með endurvinnslu á Íslandi er janframt auðveldara fyrir notendur heyrúlluplasts að tryggja eftirlit með því að plastið sé raunverulega endurnýtt. Mikil sóknarfæri eru því fyrir íslenska bændur í því að vera í forystu á heimsvísu með það að minnka umhverfisáhrif plasts í landbúnaði.

Bændur hvattir til þess að móta sér stefnu í aðgerða­áætlun plastmála

Mikið hefur verið fjallað um neikvæð umhverfisáhrif plasts og nýlega kom út aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálum. Í henni er atvinnulífið og þar með taldir bændur hvattir til þess að setja sér stefnu og móta áætlanir um hvernig draga megi úr plastnotkun. Líkt og orðatiltækið segir þá er búskapur heyskapur. Því er mikilvægt að bændur finni leiðir til þess að viðhalda gæðum lands, búfjár og afurða annað hvort með heyöflunaraðferðum þar sem dregið er úr plastnotkun eða með því að tryggja það að það plast sem notað er fari með sannarlegum hætti inn í hringrásarhagkerfið og öðlist þar framhaldslíf.

Skýrsla og reiknilíkan RML um plast í íslenskum landbúnaði

Íslenskur landbúnaður hefur fjölmarga möguleika til þess að vinna að og koma með lausnir sem stuðla að virku hringrásarhagkerfi.

Plast hefur ekki verið mikið rannsakað í íslenskum landbúnaði en Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) hannaði nýlega reiknilíkan til að meta hagkvæmni og kostnað ólíkra heyöflunaraðferða og þar með benda á aðferðir sem falla vel að hugmyndum hringrásarhagkerfisins þar sem dregið er úr notkun plasts eða henni hætt. Niðurstöðurnar hafa verið settar fram í skýrslu sem nálgast má á vef RML en í næsta blaði verður frekari umfjöllun um plastminni eða plastlausar aðferðir við heyöflun.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...